BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Hliðar saman hliðar…

25.06.2016
Nokkrar kynslóðir Kópavogsbúa fengu danskennslu hjá Sigurði heitnum Hákonarsyni í Auðbrekkunni. Engu líkara var en drengirnir í Blikaliðinu hefðu tekið skipanir hans ,hliðar saman hliðar" í enskum valsi full bókstaflega í leiknum gegn Valsmönnum. Boltinn fékk að ganga hliðar saman hliðar nánast allan leikinn en það vantaði skiptisporið fram á við! Niðurstaðan var því áferðafalleg knattspyrna úti á vellinum en alla snúninga og krúsidúllur vantaði inn í teginn. Hvorugu liði tókst því að koma knettinum í markið og lokastaðan því 0:0.
 
Hæglætisveður var í Kópavoginum og völlurinn nokkuð blautur. Aðstæður til knattspyrnuiðkunar því hinar bestu. Áhorfendur voru 603 samkvæmt upplýsingum Björgvins vallaþular og er það slakasta mæting á leik í sumar. Samt sem áður var það besta mæting á leik í Pepsí-deildinni í þessari umferð! Til samanburðar voru aðeins 587 á leik FH og Fylkis í Kaplakrika  og 488 á leik KR og ÍA í Frostaskjólinu! Það er ekki bara tóm hamingja sem fylgir EM í knattspyrnu! Að minnsta kosti sást til Gunnars gjaldkera knattspyrnudeildar naga neglurnar alveg upp í kviku og þeir sem sátu honum næst sverja að nokkur tár hafi fallið af hvarmi. 
 
Leikurinn byrjaði rólega og ljóst að hvorugt lið var tilbúið að taka áhættu með blússandi sóknarleik. Valsmenn hafa ekki riðið feitum hesti frá viðureignum sínum við Blikaliðið undanfarin ár og ætluðu greinilega að verja stigið með öllum ráðum. Blikarnir voru án Olivers og Atla vegna meiðsla og Glenn var í banni eftir sakleysilegt olbogaskot sem hann gaf fyrrum félaga sínum í Vestmannaeyjaliðinu. Ljóst er að hvaða lið sem er myndi sakna slikra leikmanna. Blikarnir létu boltann ganga vel á milli sín en tókst ekki að senda þessa lykillokasendingu sem gefur markið. Vörnin hjá Blikum með þá Elfar Frey og Damir fremsta meðal jafningja stóð af sér allar sóknir Valsmanna en einu sinni sluppum við  með skrekkinn þegar Valsmaður skallaði knöttinn yfir af stuttu færi. Þar rifu nokkrir old-boys Blikar upp nítróglyseríntöflurnar og gleyptu í snarhasti!
 
Í hálfleik mættu sérfræðingarnar í Blikakaffið og sýndist sitt hverjum. Vignir Baldursson sagðist hafa skellt á Tóta bílasala þegar hann reyndi að sannfæra hann um að kjósa DO og flestir voru á því að Guðni myndi hafa þetta í forsetakosningunum. En allir voru sammála að meiri greddu vantaði í sóknarleik Blika!
 
Síðari hálfleikur þróaðist svipað og sá fyrri. Við vorum meira með boltann en náðum ekki að skapa okkur nein umtalsverð færi. Að vísu átti Ellert ágætt skot en markvörður Valsmanna varði það með naumindum. Eitthvað virtist okkur þverra máttur undir lok leiksins og sóttu drengirnar hans séra Friðriks töluvert síðustu 10 mínúturnar. Spurning hvort þjálfararnir hefðu mátt skipta fyrr inn á. Höskuldur og ungu strákarnir Sólon og Ágúst komu með ferska strauma inn á völlinn. Meðal annars var brotið illa á Sóloni þegar hann var að sleppa í gegn og síðan átti hann ágætt skot sem Valsmenn komust því miður fyrir. Ekki ætlum við minnast á skalla Valsmann í stöng skömmu fyrir leikslok því allir eru búnir að gleyma því.
 
Í heildina getum við verið þokkalega sátt við þetta eina stig í leiknum. Jafnræði var með liðunum í leiknum þótt Valsmenn hefðu átt hættulegri færi. Boltinn gekk ágætlega hjá Blikaliðinu en broddinn vantaði í sóknarleikinn.Vörnin stóð fyrir sínu og Gulli varði vel þegar á reyndi undir lokin. Gísli Eyjólfsson fékk erfitt hlutverk að stökkva í hlutverk Olivers á miðjunni með stuttum fyrirvara. En hann gerði það ágætlega og mun bara vaxa með aukinni ábyrgð. Við erum í þriðja sæti deildarinnar með 16 stig einungis fjórum stigum frá toppnum. Það eru því bara sóknarfæri fyrir okkur.
 
En nú tekur við strembin leikjatörn. Við tökum á móti Jelgava frá Lettlandi í forkeppni Evrópukepnninar á Kópavogsvelli á fimmtudaginn kl.19.15 og svo koma leikir gegn ÍBV i bikarnum og svo útileikur i Lettlandi. Vonandi verða Atli og Oliver orðnir leikfærir því við þurfum á öllum okkar mannskap að halda!
 
Hér má sjá nánari umfjöllun um leikinn.
 
-AP

Til baka