BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Háspenna, lífshætta!

22.07.2014

Leikur Breiðabliks og FH í Pepsí-deild bauð upp á allt það sem góður knattspyrnuleikur getur boðið upp á – spennu, drama, gul og rauð spjöld og æsing í stúkunni.  Það eina sem vantaði upp á voru hagstæð úrslit! Fimleikadrengirnir úr Hafnarfirði fóru nefnilega heim með þrjú stig mjög ósanngjarnt eftir 2:4 sigur eftir að dómarinn hafði bæði dæmt af okkur fullkomlega löglegt mark og hugsanlega sleppt vítaspyrnu á FH-liðið. 

Þrátt fyrir tapið geta okkar drengir verið þokkalega sáttir við frammistöðuna á vellinum. Boltinn flaut vel frá vörn í gegnum miðjuna og fram í sóknina. Bakverðirnir Arnór og Gísli Páll voru mjög ógnandi í sóknarleiknum og baráttan var góð í liðinu. En við verðum að bæta dekkningu í vörninni því þrjú fyrstu mörkin komu eftir að sóknarmenn FH fengu að valsa um óáreittir í teignum okkur til ama og leiðinda.

Áhorfendur voru nokkuð lengi að koma sér a völlinn og leist hörðum Blikum ekkert á mætinguna skömmu áður en leikurinn var flautaður á. En smám saman létu rétt tæplega 1200 manns sjá sig og er það þokkalegt miðað við mætingu á leiki á Íslandsmótinu í sumar. Okkar drengir voru miklu ákveðnari í byrjun en það voru samt gestirnir sem náðu forystunni eftir misskilning í miðjuspili þeirra grænklæddu. Skömmu áður hafði  Árni Vill látið verja frá sér úr upplögðu færi eftir mjög óeigingjarna sendingu Andra Rafns. Til Andra eigum við aðeins eina bón; SKJÓTTU Á MARKIÐ DRENGUR! Stundum Þurfa menn að finna egóistann í sér og hætta að gefa boltann!!

Drama og æsingur

En Fimleikadrengirnir voru sem betur ekki lengi í Paradís því Árni Vill jafnaði leikinn með akróbatmarki eftir frábæran undirbúning Elfars Árna. Elfar fíflaði bakvörð Hafnfirðinga þrisvar sinnum áður en hann gaf hárnákvæmt fyrir á kollinn á Árna. En þá var eins og okkar drengir misstu aðeins taktinn. Við létum FH ná tökum á miðjunni og lítil sem engin dekkning í vörninni varð þess valdandi að gestirnir náðu tveggja marka forystu.

En þá var komið að mikilli dramasenu í leiknum. Varnarmaðurinn Kassim fékk að líta sitt annað gula spjald eftir að hafa handleikið knötinn með hendi. Skömmu áður hafði hann snúið Árna Vill niður með handasveiflu sem Gunnar Nelson hefði getað verið stoltur af. Af einhverjum ástæðum tók Belginn þetta óstint upp og reyndi að ræna spjaldinu af dómaranum! Sem betur fer tókst félögum hans að róa varnartröllið niður áður en hann lagði hreinlega hendur á þann svartklædda. Samt er líklegt að þetta hafi töluverða eftirmála fyrir leikkmanninnn í formi leikbanns í marga leiki. Æstust nú leikar mjög hjá áhorfendum og formaður knattspyrnudeildar FH  fór hamförum í stúkunni (ekki í fyrsta sinn sem sá  ágæti maður missir stjórn á skapi sínu). Hafði hann uppi stór orð sem eru ekki forsvarsmanni knattspyrnufélags til sóma!

Blikar gengur nú á lagið og Arnór  Aðalsteinsson minnkaði muninn með fínu skallamarki eftir góða sendingu Guðjóns Péturs. En þrátt fyrir harða sókn undir lok hálfleiksins tókst okkur ekki að jafna leikinn. Mikið var skrafað á meðan menn úðuðu í sig gúmmulaði í leikhléi og var auðheyrt að stuðningsmenn Blika voru þokkalega bjartsýnir fyrir síðari hálfleikinn.

En því miður varð þeim ekki að ósk sinni. Þrátt fyrir mikinn sóknarþunga og fjölmörg tækifæri tókst Blikum ekki að koma boltanum yfir marklínuna norðan megin á Kópavogsvellinum. Að vísu skallaði Elfar Freyr glæsilega í markið eftir mikiinn darraðadans í vítateig FH-inga. En af einhverjum óskiljanlegum ástæðum dæmdi dómarinn markið af. Þrátt fyrir að hafa margrýnt í þetta atvik hefur engin getað fundið neitt ólöglegt við þetta mark. Hrikaleg mistök hjá dómaranum en við áttum auðvitað að vera búnir að skora úr öðrum færum sem við fengum. 

Við nennum ekki að rifja upp ljótt lokamark FH-inga sem kom í uppbótartíma þegar allir leikkmenn okkar voru í sókninni. En við sáum samt að Gulli er ágætu hlaupaformi! Uppskeran var því ekkert stig úr þessum leik sem er auðvitað súrt í broti því leikurinn var frábær skemmtun fyrir áhorfendur.

Við getur hins vegar að hugga okkur við að þetta var líklegast einn besti leikur okkar í sumar þrátt fyrir tapið. Leikmenn lögðu allt í leikinn og ef við náum að bæta dekkningu í vörninni þá eru okkur allir vegir færir í næstu leikjum.

Áhangendur Blika voru óvenju líflegir í stúkunni og vonandi er þetta upphafið að betri tíð með blóm í haga hjá  stuðningshóp þeirra grænklæddu.

Næstu andstæðingar okkar eru KR-ingar í Frostaskjóli á sunnudagskvöldið næstkomandi. Þar verða allir sannir Blikar að mæta til að hvetja okkar drengi til sigurs!

 -AP

Til baka