BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Halsman hetja Blika

27.05.2014

Leikskýrsla.

Blikar unnu mikilvægan sigur á HK 1:2 í Borgunarbikarnum í Kórnum í gær. Leikurinn var jafn og spennandi og mátti oft ekki á milli sjá hvort liðið væri í Pepsí-deildinni.  En það voru þeir Árni Vill og Jordan Halsman sem settu mörk okkar pilta og sáu til þess að Blikaliðið er komið í 16-liða úrslit í Borgunarbikarnum. Vel var mætt á leikinn og segja fróðir menn að um 1.600 manns hafi verið í Kórnum í gær.

HK-liðið kom okkar piltum nokkuð í opna skjöldu með því að pressa okkur framarlega. En við náðum fljótlega ágætum tökum á miðjunni með þá Finn Orra, Olgeir og Guðjón Pétur í aðalhlutverkum. Það var hins vegar hinn ungi og efnilegi Höskuldur Gunnlaugsson sem vakti mesta athygli í fyrri hálfleik með góðum leik í  bakverðinum. Hann tætti hvað eftir annað upp kantinn og átti góðar fyrirgjafir.

Jafnt var í leikhléi 0:0 en á 65. mínútu skoraði Árni Vill ágætt mark með góðu skoti úr vítaeignum með viðkomu í varnarmanni HK. En Adam var ekki lengi í paradís því okkar piltar gáfu eftir í varnarvinnunni.  Heimapiltar komust auðveldlega í gegnum vörnina og skoruðu einfalt mark.

Sem betur fer bitu okkar piltar í skjaldrendurnar og Jordan Halsman skoraði gott mark eftir fínan undirbúning Tómasar Óla og Árna Vill. Besti maður vallarins var hins vegar Gunnleifur markvörður sem bjargaði okkur  nokkrum sinnum á glæsilegan hátt.

Varnarmaðurinn knái Arnór Aðalsteinsson kom inn á undir lok leiks og sýndi lipra taka. Þetta var einkar ánægjuleg sjón enda hefur Arnór átt við erfið meiðsli að stríða í langan tíma. Ljóst er að endurkoma hans styrkir Blikaliðið gríðarlega. 

Blikaliðið saknar hins vegar Ellerts Hreinssonar en hann þurfti að fara í kviðslitsaðgerð og verður frá í 3-4 vikur. Einnig er  Andri Rafn fjarverandi vegna  meiðsla sem hann hlaut gegn Fram á dögunum.  Einnig hlaut Damir hnjask í leiknum í gær og varð að yfirgefa völlinn. Hvorugur er þó alvarlega slasaður og ættu báðir að vera tilbúnir í slaginn fljótlega.

Næsti leikur liðsins er gegn Stjörnunni á mánudaginn á Kópavogsvellinum kl.19.15.  Við þurfum að spila betur gegn nágrönnum okkar úr Garðabænum en í þessu leik. Þrátt fyrir góð tilþrif þá eru menn stundum að ,,klappa“ boltanum of lengi.   Við verðum að láta boltann fljóta betur og passa stöðurnar betur.  Ef það hrekkur í gang þá getum við hlakkað til leiksins á mánudaginn.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar.

Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina hér.

-AP

Til baka