BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Halldór Árna framlengir!

14.08.2025 image

Fréttir úr Smáranum

Knattspyrnudeild Breiðabliks og Halldór Árnason, þjálfari meistaraflokks karla, hafa framlengt samning Halldórs við félagið til ársins 2028. Undir stjórn Halldórs varð liðið Íslandsmeistari 2024. Það er mikil ánægja og gleði með störf hans og þann metnað sem Halldór hefur fyrir meistaraflokki karla og félaginu í heild sinni. Að tryggja áframhaldandi störf hans hjá Breiðabliki er mikilvægur hluti af áframhaldandi framgangi og uppbyggingu Knattspyrnudeildar Breiðabliks.

Í Breiðabliki er mikill metnaður til að ná góðum árangri sérhvert ár en um leið er liðið byggt upp og mannað að stórum hluta á uppöldum leikmönnum. Þessi blanda gerir verkefnið ótrúlega spennandi og ég er þakklátur fyrir traustið sem Breiðablik sýnir mér með þessari framlengingu. Félagið hefur byggt upp einstakan og metnaðarfullan kúltur og ég hlakka til að halda áfram á þeirri braut á næstu árum.” Segir Halldór Árnason í tilefni af framlengingunni.

Kemur ekki á óvart

Framlenging þjálfarasamnings við Halldór Árna kemur líklega fáum á óvart og er rökrétt ákvörðun eftir öflug tímabil þar sem liðið hefur sýnt stöðugleika og metnað undir hans stjórn - bæði sem aðalþjálfara og aðstoðarþjálfara. 

Ferill Halldórs Árna hjá Breiðabliki

2025

Breiðabliksliðið er í 3. sæti í Bestu deildinni þegar 1/3 er eftir af mótinu. Enn einn stórleikur í Evrópukeppni UEFA er í kvöld þegar Halldór Árna mætir liði Zrinjski Mostar á Kópavogsvelli í síðari umspilsleik liðanna í 3. umferð Evrópudeuldar UEFA. Ef frá er talið umspils-einvígið við FC Struga um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar UEFA 2023/24, er leikurinn við Zrinjski í kvöld mikilvægasti leikur karlaliðs Breiðabliks í Evrópukeppni frá upphafi. Sigri okkar menn einvígið gegn Zrinjski tryggir það Breiðabliki þátttöku í deildarkeppni Sambandsdeildar UEFA 2025/26 – og það óháð niðurstöðu í einvígi Breiðabliks og Utrecht frá Hollandi um sæti í deildarkeppni Evrópudeildar UEFA 2025/26, en það verkefni bíður okkar ef sigur vinnst í leiknum gegn Zrinjski. Tapi Blikar leiknum gegn Zrinjski á fimmtudaginn bíður Breiðabliki umspilsleikur við Milsami Orhei frá Moldóvu eða San Marínó um sæti í deildarkeppni Sambandsdeildar UEFA 2025-26. Fyrri leikur liðanna fór 3:2 fyrir Milsami, í Moldavíu. Leikdagar eru: 21. & 28. ágúst.

2024

Í S L A N D S M E I S T A R A R 

Eftir síðasta leik Bestu deildar karla 2023 tók Halldór Árnason við sem aðalþjálfari Breiðabliks í meistarflokki karla til næstu þrigga ára eftir hafa starfað sem aðstoðarþjálfari Óskars Harfns Þorvaldssonar frá 2019. Fyrsta verkefni Halldórs sem aðalþjálfara var að stýra liðinu í 4 leikjum af 6 í riðlakeppni Sambandsdeildar UEFA 2023. 

Fyrsti bikar Dóra í húsi þegar Breiðablik vann öruggan sigur í Bose-mótinu 2023. Dóri bætti öðrum bikar í safnið í lok mars 2024 þegar Breiðablikslið vann öruggan sigur í Deildabikar KSÍ - Lengjubikarnum. Þar með tryggði liðið sér þennan titil í þriðja sinn og í fyrsta sinn síðan árið 2015. 

Halldór landaði svo þeim þriðja og stærsta í fyrstu tilraun sem aðalþjálfari með sannfærandi sigri í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn við við Reykjavíikur Víkinga á þeirra heimavelli í Víkinni 27. október 2024.  Frammistaða liðsins í úrslitaleiknum í Víkinni verður lengi í minnum höfð. Það er varla til betri leið til að sanna að Breiðablik sé besta lið landsins 2024 en að vinna ríkjandi meistara á þeirra eigin heimavelli.

Nýliðamet - Halldór Árnason sló nýliðamet á sínu fyrsta ári sem aðalþjálfari meistaraflokks karla þegar hann sló nýliðamet Heimis Guðjónssonar (2008) í stigafjölda í hefbundinni tvöfaldri umferð í 12 liða deild með því að landa 49 stigum. Heim­ir tók við liði FH fyr­ir tíma­bilið 2008, eft­ir að hafa verið aðstoðarþjálf­ari Ólafs Jó­hann­es­son­ar í nokkur ár - á fyrsta ári Heimis fékk FH liðið 47 stig.

2023

Stjórn Knattspyrnudeildar Breiðabliks tilkynnti eftir síðasta leik Bestu deildar karla 2023 að Óskar Þorvaldsson hefði látið af störfum sem þjálfari liðsins og Halldór Árnason verið ráðinn.

Halldór Árnason hefur verið ráðinn sem þjálfari meistaraflokk karla hjá Breiðabliki til næstu þriggja ára. Halldór hefur starfað sem aðstoðarþjálfari meistaraflokksins síðan 2019 og verið mikilvægur hluti af teyminu í kringum meistaraflokk karla og þeim árangri sem liðið hefur náð. "Ég er afar stoltur af traustinu sem Breiðablik sýnir mér til að stýra meistaraflokki karla og halda áfram að byggja upp það frábæra starf sem hér er í gangi. Ég tek við mjög góðu búi og frábæru liði af Óskari og hlakka til að takast á við þau spennandi og krefjandi verkefni sem okkar bíða" segir Halldór Árnason nýráðinn þjálfari Breiðabliks.

Skipting mótsleikja 2023:

Besta deild karla 27 leikir.

Evrópukeppnir 12 leikir.

Bikarkeppni KSÍ 4 leikir.

Lengjubikarinn 5 leikir.

Æfingamót 3 leikir.

Meistarakeppni KSÍ 1 leikur.

Samtals 52 leIkir.

Til viðbótar spilaði liðið nokkra æfingaleiki á árinu þ.m.t. við Brentford B í æfingaferð liðsins til Portúgal í mars "Sanngjarn sigur á býflugunum frá Brentford" og einnig gegn úrvalsdeildarliðinu Elfsborg "Frábær fótbolti þrátt fyrir tap!"

2022

Í S L A N D S M E I S T A R A R 

Sumarið 2022 sveif Breiðablik líkt og á töfrateppi öðrum liðum ofar í Bestu deild karla, allt frá fyrsta leik til þess síðasta. (Reyndar var Breiðablik líka í fyrsta sæti deildarinnar áður en keppnin byrjaði, en stafrófsröðin réði því.) Þetta ævintýri deildarkeppninnar stóð óvenjulega lengi eða allt frá 19. apríl til 29. október. Það gerir 193 daga eða rúmlega helming ársins 2022. Það eru þó ekki merkilegustu tölur ársins né heldur að í lok deildarkeppni ævintýraársins sem minnti á þúsund og eina nótt höfðu Breiðabliksstrákar náð samtals þúsund og einu stigi samtals í efstu deild. Met af ýmsu tagi voru slegin og hér er yfirlit yfir nokkur þeirra.

23 ára met slegið - Í heimaleiknum gegn KR 23.júní 2022 skráði Breiðabliksliðið sig á spjöld sögunnar með sigri á Vesturbæjarliðinu. Leikurinn var sextándi sigur okkar manna í röð í efstu deild á heimavelli. Með sigrinum sló Blikaliðið met sem ÍBV hafði átt í heil 23 ár, en Eyjamenn unnu 15 heimaleiki í röð á Hásteinsvelli á árunum 1997 til 1999 og áttu metið einir síðan, eða þar til okkar menn jöfnuðu það í með sigri gegn KA 20. júní.

Gullhanskinn - Anton Ari Einarsson hreppti fyrsta gull­hansk­ann sem af­hent­ur hef­ur verið hér á landi. Í fyrsta sinn í ár fá bestu mark­menn beggja kynja gull­hanska. Gull­hanskinn er af­hent­ur þeim markverði sem held­ur oft­ast hreinu á keppn­is­tíma­bili Bestu deild­ar­inn­ar. Okkar maður hélt tólf sinn­um hreinu í 27 leikj­um. 

Taplausir á heimavelli - Blikar náðu þeim merka áfanga að spila 22 leiki í röð á heimavelli án taps  (21 sigur / 1 jafntefli) með markatöluna 69:10. Liðið vann alla heimaleiki árið 2021, nema fyrsta leikinn sem var gegn KR á Kópavogsvelli 2. maí, með markatöluna 32:1 og liðið var taplaust árið 2022 tólf leiki í röð með markatöluna 37:9. Sá sem skrifaði handritið að þessari velgengni sá auðvitað til þess að velgengnin, sem hófst eftir tap gegn KR í fyrsta leik 2021, að það var KR sem batt enda á sigurgönguna í Kópavogi í 3. umferð úrslitakeppninnar á Kópavogsvelli 15. október 2022.

Venjulegt 22 leikja mót - Annað árið í röð skora Blikamenn 55 mörk í 22 leikjum í deildinni og bæta besta eigin árangur, frá 2021, um 4 stig. Þeir ljúka hefðbundnu móti með 51 stig og fara í úrslitakeppnina í október með átta stiga forskot á næstu lið. Félög á Íslandi sem hafa náð 50 eða fleiri stigum í 22 leikjum frá 2008 eru: 52 stig: KR árin 2013/2019 og Stjarnan 2014, 51 stig: FH 2009 og Breiðablik 2022, 50 stig: Valur 2017.

Úrslitakeppnin - efri hluti  - Breiðabliksmenn mættu til leiks í fyrstu úrslitakeppnina með 51 stig - 8 stiga forskot á næstu lið (Víkinga og lið KA). Þegar talið var upp úr stigapokanum fræga var ljóst að Breiðablik vann yfirburðasigur í Bestu deild karla með 63 stig - fyrst liða á Íslandi til að ná þeim stigafjölda.

Markaskorun - Liðið skoraði 66:27 mörk í deildinni og deilir nýju markameti með Víkingum sem einnig skorðuðu 66:41 mörk. Það er reyndar með ólíkindum að lokaleikurinn gegn þeim hafi endað 1:0. Nánar> Alls skoraði Blikaliðið 109 mörk í 47 mótsleikjum á árinu 2022 sem skiptast svona milli móta: Besta deild 66 mörk, Mjólkurbikar 10 mörk, Sambandsdeild UEFA 9 mörk, Lengjubikar 13 mörk, FótboltaNet mót: 11 mörk.

2021 

27. september 2021: Óskar og Halldór framlengja - Halldór Árnason, aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla, hefur skrifað undir nýjan fjögurra ára samning við félagið. Mikil ánægja hefur ríkt með störf Halldórs hjá félaginu en auk þess að vera aðstoðarþjálfari meistaraflokks hefur hann sinnt þjálfun yngri iðkenda. Þetta eru miklar gleðifréttir fyrir félagið og gríðarlega ánægjulegt að félagið fái notið starfskrafta þeirra Óskars og Halldórs um komandi ár.

Við höfum aldrei fengið jafn mörg stig í efstu deild - 47 urðu stigin þegar talið var upp úr pokanum fræga. 

Liðið skoraði 55 mörk í deildinni, sem er þriðja mesta markaskor í sögu 12 liða deildar (2008) og liðið skoraði alls 101 mark í 39 mótsleikjum á árinu. Fyrra metið var 92 mörk í 46 leikjum árið 2013. Svona skiptast mörkin milli móta: Fótbolta.net: 17 mörk. Lengjubikarinn: 18 mörk. Evrópukeppni: 11 mörk. Pepsi Max: 55 mörk. Við getum því þrátt fyrir allt verið ánægð með okkar menn í sumar. Við sáum blússandi sóknarbolta, mikið af mörkum en vorum auðvitað grátlega nærri því að ná Íslandsmeistaratitlinum.

VÍGIÐ: = 11 sigrar í röð (9 sigrar í deild og 2 sigrar  í Evrópukeppni). Samtals 20 sigurleikir í röð á Kópavogsvelli af 21 mögulegum. Aðeins fyrsti leikurinn í mótinu (gegn KR) vannst ekki. Ekkert jafntefli í öllum mótsleikjum á heimavelli 2021. 

Frammistaða Breiðabliks í Sambandsdeild Evrópu var stórkostleg. Liðin sem við lékum við eru frá Luxembourg, Austurríki og Skotland. Þetta eru allt lönd sem eru talsvert mikið hærra skrifuð og með betri árangur en Ísland. Uppskera sumarsins er þrír sigrar, eitt jafntefli og tvö töp í þremur umferðuim gegn Racing FC Union frá Luxemborg, FK Austria Wien og Aberdeen FC frá Skotlandi. 

2020

Eftir ágætt tímabil 2019, þegar liðið endaði í 2. sæti Pepsi MAX annað árið í röð, mættu Blikar ferskir til leiks 13. júní 2020 eftir 7 vikna bið - upphaflegur leikdagur átti að vera 23. apríl, en það plan fór í skrúfuna vegna Covid-19. Og svo þetta. Eins og okkur er kunnugt samþykkti stjórn KSÍ á fundi sínum þann 30. október að hætta keppni í Íslands- og bikarkeppnum vegna hertra sóttvarnarreglna.

Bikarkeppnum karla og kvenna sem sagt hætt og enginn bikarmeisari krýndur árið 2020.

Breiðablik var í þriðja sæti þegar keppni var hætt á mótinu. Reiknireglan sem KSÍ notaði við endanlega niðurröðun liða í Íslandsmótinu 2020 tryggði Breiðabliksliðinu fjórða sæti sem tryggði liðinu Evrópusæti árið 2021.

2019

8. október 2019: Halldór aðstoðarmaður Óskars Hrafns. Halldór Árnason hefur skrifað undir samning sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla hjá Blikum. Halldór hefur verið aðstoðarþjálfari Óskars Hrafn Þorvaldssonar hjá Gróttu undanfarin tvö ár og flytur því sig um set innan UMSK samstarfsins eins og Óskar. Halldór sem er með UEFA A gráðu í knattspyrnuþjálfun var einnig yfirþjálfari yngri flokka hjá Seltjarnarnesliðinu undanfarin ár. Þeir Óskar Hrafn og Halldór hafa náð mjög góðum árangri með Gróttuliðið og komu þeim meðal annars upp úr 2. deild í þá efstu á aðeins tveimur árum. Það verður því spennandi að fylgjast með þeim félögum á nýjum vígstöðvum. Blikar bjóða Halldór velkominn í Kópavogi og vonast til að þeir félagar haldi áfram á sigurbraut með Blikaliðið.

/POA

image

Til baka