BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Gulli og Davíð redduðu stigi fyrir Blika!

25.02.2017

Blikar og Grindavík skildu jöfn 1:1 í Lengjubikarnum í Fífunni í dag. Davíð Kristán skoraði stórglæsilegt mark í síðari hálfleik og jafnaði þar með leikinn.  En það mátti ekki síður þakka Gulla Gull markverði fyrir þetta eina stig því hann varði stórkostlega tvisvar i röð frá gestunum og sýndi það og sannaði að hann er enn besti markvörðurinn í Pepsí-deildinni. 

Eins og oft áður þá var lítið að gerast í sóknarleik Blika í fyrri hálfleik. Við héldum knettinum ágætlega innan liðsins en Grindvíkingar biðu rólegir og lokuðu á allar sóknartilburði okkar drengja með sterkri 5 manna vörn. Boltinn gekk of hægt hjá okkur og uppspilið of fyrirsjáanlegt. Upp úr þurru þeytti síðan markvörður Grindvíkinga knettinum fram allan völlinn og vörnin sofnaði.  Boltinn fór yfir varnarmenn og eftirleikurinn auðveldur fyrir sóknarmaninn. 0:1 fyrir þá gulklæddu. 

Fljótlega átti þó Davíð þrumuskalla í stöng eftir hornspyrnu en annars var lítið að frétta af okkar drengjum. Greinilegt var að þjálfararnir voru ekki ánægðir með gang mála og Willum og Tokic komu inn á eftir leikhlé. Heilmikil batamerki sáust á leik liðsins við þessar breytingar. Meiri hugmyndaflug kom í spilamennsku Blikaliðsins við komu Willums á miðjuna. Það er ótrúlega gaman að sjá hve drengurinn hefur sýnt miklar framfari undanfarin misseri og ef fram heldur sem horfir þá mun hann gera sterka kröfu á byrjunarliðssæti þegar deildin byrjar í vor. 

Blikar jöfnuðu fljótlega leikinn í síðari háflleik. Oliver tók fasta hornspyrnu og Davíð kom á ferðinni og setti boltinn upp í markvinkilinn með hælnum. Stórglæsilegt. Héldu nú margir að Blikar myndu fylgja þessu eftir en smám saman komust Grindvíkingar aftur inn í leikinn. Um miðjan hálfleikinn sýndi Gulli heimsklassatilþrif þegar hann varði í tvígang í sömu sókninni meistaralega frá sóknarmönnum Suðurnesjapilta. 

Leiknum lauk því með 1:1 jafntefli og voru það í raun sanngjörn úrslit. Við vorum örlítið meira með boltann en vorum ekki að skapa okkur nægjanlega mikið fram á við. Við erum bara með einn sigur í 6 mótsleikjum á þessu ári og hlýtur það að vera áhyggjuefni fyrir þjálfarateymið.  

En nú kemur nokkuð löng pása því næsti leikur er ekki fyrr en gegn Þrótti föstudaginn 10. mars í Egilsshöll. Vonandi getur liðið fundið taktinn á nýjan leik því þessi jafntefli eru ekki að gefa okkur mikið.

Fotbolti.net. Myndband: Glæsilegt mark og markvarsla hjá Blikum 

-AP

Til baka