BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Guðmundur Þórðarson og Ásta María Reynisdóttir tekin inn í ,,Frægðarhöll Breiðabliks” í knattspyrnu

01.05.2016

Guðmundur Þórðarson og Ásta María Reynisdóttir voru í gær tekin inn í ,,Frægðarhöll Breiðabliks" í knattspyrnu.Guðmundur var fyrsti landsliðsmaður Breiðabliks í knattspyrnu og náði líka frábærum árangri sem þjálfari. Ásta var lengi leikmaður og fyrirliði meistaraflokks kvenna sem náði frábærum árangri. Hún átti einnig sæti í fyrsta landsliðshópi kvenna í knattspyrnu og spilaði marga landsleiki. 

Meðfylgjandi umsögn dómnefndar sem Jóhann R. Benediktsson kynnir flutti á Vorhátíð Breiðabliks í gær.

Frægðarhöll Breiðabliks 2016

Ákveðið hefur verið á þessari Vorhátíðar Breiðabliks að heiðra einstaklinga  sem skarað hafa framúr í sögu í Breiðabliks. Við viljum með þessu minnast afreka þeirra og tryggja að ferill þeirra verði kunnur þeim sem heimsækja félagssvæði Breiðabliks um alla framtíð.  Í fyrra voru í fyrsta sinn teknir  einstaklingar inn í Frægðarhöll Breiðabliks, en það voru Sigurður Grétarsson og Ásta B. Gunnlaugsdóttir. Eru nöfn þeirra og afrek nú þegar orðin sýnleg á suðurenda stúkunnar á Kópavogsvelli.  Að þessu sinni hefur verið ákveðið að heiðra tvo aðra einstaklinga með sama hætti.

Ásta María Reynisdóttir

Ásta María Reynisdóttir er fædd árið 1962.  Ásta var lykilmaður í meistaraflokki kvenna sem vann 11 Íslandsmeistaratitla og 4 bikarmeistaratitla á árunum 1977 til 1995, þar af þrisvar tvöfaldir meistarar. Á þessum árum lék hún alls 159 leiki og skoraði 46 mörk sem þykir býsna gott fyrir miðvallarleikmann.  Hún var í fyrsta landsliði Íslands árið 1981 sem lék gegn Skotum og alls lék Ásta 12 landsleiki og skoraði í þeim 4 mörk á árunum 1981 til 1987. Ásta var öflugur miðjumaður, örugg vítaskytta og leiðtogi á velli enda var hún fyrirliði stóra hluta ferlisins hjá Blikum

Ásta átti ekki langt að sækja hæfileikana en faðir hennar Reynir Karlsson var landsliðsmaður og landsliðsþjálfari auk þess að þjálfa meistaraflokk karla í Breiðabliki með góðum árangri og var auk þess formaður Breiðabliks.  Svanfríður Guðjónsdóttir móðir Ástu var fyrsta konan sem kosin var í stjórn KSÍ og var þá talið að hún væri fyrsta konan í heiminum til að taka sæti í stjórn knattspyrnusambands.  Þá var Guðjón bróðir liðtækur leikmaður hjá Breiðablik og þjálfaði síðar meistaraflokk kvenna hjá Breiðablik.

Ásta María hefur markað djúp spor í sögu Breiðabliks og var mikilvægur hlekkur í að gera Breiðablik að stórveldi í kvennaknattspyrnu. Hún var lengi vel fyrirliði liðsins á gullaldartíma þess og frábær félagi og leiðtogi.  Það er því vel við hæfi og með mikilli ánægju að við tökum Ástu Maríu Reynisdóttur inn í Frægðarhöll Breiðabliks. Mun nafn hennar og afrek verða sýnileg þeim sem koma á Kópavogsvöll um ókomna tíð. 

Hjartanlega til hamingju!

Guðmundur Þórðarson

Guðmundur Þórðarson er fæddur árið 1945. 

Hann er einn af frumkvöðlum Breiðabliks og er nafn hans tengt mörgum af merkilegustu stundum í sögu félagsins.  Hann lék með meistaraflokki Breiðabliks 10 leiktímabil og lék alls 173 leiki og skoraði í  þeim 92 mörk.  Guðmundur var líka fyrsti landsliðmaður Blika og lék 3 landsleiki fyrir Íslands hönd. 

Guðmundur átti ekki einungis frábæran feril sem leikmaður heldur var hann einn sigursælasti þjálfari Breiðabliks og mótaði og skapaði marga frábæra leikmenn.  Meðal lærisveina hans voru leikmenn eins og Sigurjón Kristjánsson, Helgi Bentsson, Benedikt Guðmundsson, Trausti Ívarsson, Sigurður Grétarsson og fleiri leikmenn í yngri flokkunum. 

Segja má að Guðmundur hafi sem þjálfari lagt grunninn að öflugu yngri flokka starfi Breiðabliks og stórveldinu Breiðablik í meistaraflokki kvenna. Undir stjórn hans sem þjálfara yngri flokka Breiðabliks unnust 7 Íslandsmeistaratitlar á árunum 1973 til 1981. 

Guðmundur var fremstur og fyrstur á mjög mörgum sviðum og því sannkallur frumkvöðull innan Breiðabliks.  Hann var:

·       fyrsti landsliðsmaður Breiðabliks

·       fyrsti landsliðsmaðurinn úr 2. deild

·       fyrsti þjálfari stúlkna í fótbolta hjá Breiðabliki

·       fyrsti landsliðsþjálfari kvenna

·       fyrsti þjálfari piltalandsliðsins

·       fyrsti skákmeistari Kópavogs

Guðmundur var frábær sóknarmaður og einn mesti markaskorari Breiðabliks, hann skoraði að meðaltali mark í öðrum hverjum leik.  Árið 1970 þegar Breiðablik lék í næst efstu deild var hann valinn í landsliðið að skipan Alberts Guðmundssonar þáverandi formanns KSÍ sem hafði hrifist að leik hans.

Það er mikill fengur fyrir félag eins og Breiðablik að hafa haft meistara eins og Guðmund Þórðarson innan sinna raða. Hann var ekki einungis frábær leikmaður heldur var hann líka þeim hæfileika gæddur að geta miðlað af reynslu sinni til annarra leikmanna sem þjálfari.

Guðmundur Þórðarson hefur markað djúp spor í sögu Breiðabliks og er einn mikilvægasti einstaklingurinn í sögu félagsins, bæði með hæfileikum sínum sem leikmaður og einnig vegna þess hversu marga leikmenn hann mótaði sem þjálfari, bæði kvenna og karlamegin. 

Það er því vel við hæfi og með mikilli ánægju að við tökum Guðmund Þórðarson inn í Frægðarhöll Breiðabliks. Mun nafn hans og afrek verða sýnileg þeim sem koma á Kópavogsvöll um ókomna tíð. 

Hjartanlega til hamingju!

Til baka