Guðjón Pétur aftur heim!
12.04.2019
Þau ánægjulegu tíðindi voru að berast að miðjumaðurinn snjalli Guðjón Pétur Lýðsson mun ganga til liðs við Blikaliðið á nýjan leik. Hann skipti yfir í KA í haust frá Val en vegna fjölskylduaðstæðna náðu Akureyringar og Guðjón Pétur samkomulagi að rifta samningnum. KA-menn hafa samþykkt tilboð Blika í þennan snjalla knattspyrnumann þannig að við fáum að sjá hann aftur í græna búningnum.
Guðjón Pétur Lýðsson sem er 31 ára lék með Blikaliðinu árið 2007 og frá 2013 til 2016. Hann skoraði 25 mörk fyrir okkur í 108 mósleikjum á þeim tíma. En í heild hefur hann skorað 44 mörk í efstu deild fyrir Blika, Val og Hauka. Guðjón Pétur er uppalinn Álftnesingur og hefur sinnt félagsstörfum fyrir gamla félagið sitt. Það sýnir félagslegan styrk hans enda eru fáir jafn duglegir að sinna verkum innan vallar sem utan.
Við Blikar fögnum þessum góðu tíðindum enda ljóst að Blikaliðið styrkist til muna með komu Guðjóns Péturs.
-AP