BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Grindavík – Breiðablik í PEPSI karla á laugardag kl. 16:00

09.06.2018

Blikar skella sér suður með sjó á laugardaginn til að etja kappi við topplið Grindvíkinga í 8. umferð PEPSI karla.

Liðin eru nú 1. og 4. sæti stigatöflunnar með 14 og 11 stig. Grindvíkingar unnu sinn leik á heimavelli gegn Fylkismönnum í 7. umferð, en Blikar lutu í  gras gegn Stjörnumönnum á Kópavogsvelli.

Spennan hefur sjaldan eða aldrei verið jafn mikil í efstu deild karla. Einungis munar fjórum stigum á liðinu í öðru sæti og liðinu í tíunda sæti.

Strákarnir okkar eru staðráðnir að sýna sitt rétta andlit í Grindavík á laugardaginn og freysta þessa að komast uppfyrir heimamenn á markatölu.

Sagan

Heildarfjöldi innbyrgðis viðureigna liðanna í öllum mótum er 43 leikir. Grindvíkingar hafa sigrað 18 leiki, Blikar 15 leiki og jafntefli er niðurstaðan í 9 leikjum.

Grindavíkurgrýlan: Á árunum 1985 til 1993 gekk Blikum bölvanlega að ná úrslitum gegn Grindavík – sérstaklega í Grindavík. Fyrsti mótsleikur liðanna var í 2. umferð Bikarkeppni KSÍ í júní 1985. Leikurinn fór fram á Kópavogsvelli og tapaðist 0-1. Annar leikur liðanna,árið 1988, líka í Bikarkeppni KSÍ, tapaðist 2-0 í Grindavík. Og þriðji leikur liðanna, árið 1989, var einnig í Bikarkeppni KSÍ og tapaðist 3-2 á heimavelli Grindvíkinga. Fyrsti sigur okkar manna var í B-deildinni á Kópavogsvelli árið 1990, en Blikar tapa seinni leiknum í Grindavík 1-0. Næsti leikur liðanna árið 1993 var 3-1 sigur Grindjána í undanúrslitum í Litlu Bikarkeppninnar í Grindavík árið 1993. Eftir 5 töp í röð gegn Grindavíkurliðinu í Grindavík á árunum 1985-1993 kom loksins árið 1993 góður 0-3 sigur í B-deildinni í Grindavík. Þar með var álögunum, sem leikmenn töldu sig vera undir, aflétt enda sagði þáverandi þjálfari Breiðabliks, Ingi Björn Albertson, á töfluæfingu fyrir leikinn “Ég hef aldrei tapað fyrir Grindavík” og að því búnu var ekið sem leið liggur til Grindavíkur og Ingi Björn barði sína menn áfram til sigurs með mörkum frá Jóni “Bonna” Jónssyni, Willum Þór Þórssyni og Sigurjóni Kristjánssyni. Nánar.

Reyndar kom svo annað 4 leikja tímabil í A-deild á árunum 1999 til 2006, þar Blikar náðum ekki að sigra í Grindavík. Árið 1999 töpuðum við 1-0, töpum 3-0 árið eftir og svo 2-1 tap árið þar á eftir. Næsti leikur liðanna í Grindavík var svo ekki fyrr en árið 2006 - sá leikur tapaðist nokkuð stórt eða 4-2. Yfirlit leikja Breiðabliks í Grindavík.

Efsta Deild

Fyrsta innbyrgðis viðureig liðanna í efstu deild (Sjóvá-Almennra deildin) var leikinn á Kópavogsvelli 20. júlí. Leiknum lauk með markalausu jafntefli. Nánar um leikinn (myndband). En innbyrgðis viðureignir liðanna í efstu deild eru 24 leikir. Breiðablik hefur sigrað 7 viðureignir, Grindvíkingar 11 og sex leikjum hefur lokið með jafntefli.

Sagan er því með liði Grindavíku, ekki bara á þeirra heimavelli í Grindavík, heldur líka á Kópavogsvelli. Grindvíkingar hafa unnið 6 sinnum í Grindavík, gegn 3 Blikasigrum og jafnmörgum jafnteflum. Á Kópavogsvelli hefur er Grindavík yfir  með 5 sigra,  gegn 4 sigrum Blika og 3 jafnteflum.

Blikar töpuðu síðast í Grindavík í fyrra í miklum rigningarleik í orðsins fyllstu merkingu – markaregn og blaut rigning. Liðin skoruði 7 mörk í 4-3 sigri Grindvíkinga. Heimsóknir Blika til Grindavíkur fram að leiknum í fyrra: Árið 2012 vinna Blikar 2-4 sigur , 2011 er 1-1 jafntefli , 2010 vinna Blikar 2-4 sigur , 2009 vinna Blikar 0-1 sigur og 2008 gera liðin 2-2 jafntefli. 

Markaregn!

Liðin hafa skorað samtals 93 mörk í 24 leikjum í efstu deild. Leikir liðanna árin 1995 og 1996 enduðu með markalausu jafntefli: 

2017: 4-3  2012: 2-0  2011: 2-1  2010: 2-3  2009: 3-0  2008: 3-6  2006: 2-3  2001: 2-4  2000: 3-4  1999: 4-1

Önnur viðureign liðanna á þessu ári

Blikar unnu góðan 1:3 sigur á Grindavík í síðasta æfingaleik áður en PEPSI-deldiin hófst í vor. Mörk Blika settu Sveinn Aron í fyrri hálfleik og síðan bættu þeir Arnþór Ari og Arnór Gauti við mörkum áður en heimamenn skoruðu í rétt fyrir leikslok. Sigur okkur pilta var sanngjarn og mörkin komu öll eftir mjög góðan undirbúning (sjá mörkin). Leikurinn fór fram á gamla heimavelli Grindavíkur á grasi. Hressilegar skúrir rennbleyttu völlinn þannig að boltinn flaut vel.

Liðið okkar ætlar að sækja stig til Grindavíkur á laugardaginn. Það er stutt í toppinn. Ef við vinnum þá gulklæddu erum við aftur komnir á þann stað í stigatöflunni sem viðviljum vera.

Leikurinn í Grindavík á laugardaginn hefst klukkan 16:00!

Ath! Grindvíkingar leggja greinilega mikið upp úr því að fá margt fólk á leikinn því þeir hafa ákveðið að lækka miðaverðið um helming!

Það kostar því bara 1.000 krónur á leikinn á morgun. Við hvetjum því alla til að leggja leið sína suður með sjó og sjá þennan hörkuleik.

Stúkan er góð í Grindavík þannig að það ætti ekki að væsa um áhorfendur þrátt fyrir að spáð sé nokkurri rigningu á meðan á leiknum stendur

Áfram Breiðablik, alltaf, alls staðar!

Til baka