BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Grænt jólatré í ár

17.12.2023 image

Það er sko engin tilviljun að jólatréð er grænt í ár. Nú er að baki svakalega langt keppnistímabil þar sem enn á ný reyndi á brautryðjendahlutverk Breiðabliks í íslenskri knattspyrnu. Hjá okkur stóð Evrópukeppni strákanna frá 27. júní til 14. desember. Að komast í gegnum forkeppni og útslátt yfir í riðlakeppni og að klára hana tekur jú tíma. Að taka þátt í Meistaradeild, Evrópudeild og Sambandsdeild á sama árinu kostar þrek. Að keppnisferðast á Balkanskagann, Miðjarðarhafsbotninn og alla leið í Laugardalinn er puð.  Og við getum verið stolt.

Nú hafa báðir meistaraflokkar Breiðabliks rutt braut riðlakeppnisbaráttu í Evrópu fyrir komandi kynslóðir, hvort sem þær stelpur, strákar og stálp keppa í grænu eða einhverjum minna jólalegum lit.

Hátíðir hafa verið haldnar af minna tilefni og við hjá blikar.is samfögnum þeim sem loksins komast í smá æfingafrí yfir jól og áramót.

Talandi um áramótin, þá er um þær mundir að vænta rosalega skemmtilegs pistils hér á síðunni. Tölur ársins verða rifjaðar upp, spáð í hvernig mannskapurinn verður í meistaraflokkunum á komandi ári en Breiðablik – félagið okkar – hefur verið, er og verður einhver fjaðurmagnaðasti stökkpallur ungs fólks í atvinnufótbolta í útlöndum.

Þannig félag erum við og þannig félag viljum við vera.

Blikar.is óska þér og öllum þínum gleðilegra jóla með ósk um að þið njótið ljóss, friðar og fallegs græns jólatrés um hátíðirnar.

Til baka