BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Grænn ágúst, grænni september, bleikur október

04.09.2021 image

Við eigum alls konar fagurlitaða mánuði. Blár apríl, sem minnir okkur á þau sem eru utan meðalmennskunnar vegna einhverfu, er til dæmis flottur mánuður. Nýliðinn ágúst var grænn mánuður, iðjagrænn.

Sex sigurleikir hjá körlunum

Meistaraflokkur karla spilaði sex deildaleiki í ágúst og vann þá alla með tölu. Vann þá ekki bara alla með tölu heldur líka með magnaðri markatölu, 21:3. Á heilum mánuði skoruðu strákarnir sjö sinnum fleiri mörk en þeir fengu á sig.

Þetta voru leikirnir:

Stærsti deildarsigur frá upphafi

Síðasttaldi leikurinn, á móti Fylki, er stærsti sigur meistaraflokks karla frá upphafi þátttöku þessa 71 árs gamla félags í deildakeppni KSÍ. Ef þú ert talnanörður þá má bæta því við að heimaleikurinn á móti KA var áttundi sigurleikur strákanna í röð á heimavelli og markatalan í þeim leikjum er 26:1! Það þarf kannski ekki að taka það fram að það er líka met.

Faðma, umvefja, elska

Svona sterk staða, svona öflug sigurhrina slær sumum (einkum eldri Breiðabliksborgurum) skelk í bringu. Það er svona síðkalvinískt þrugl að guð hljóti að hefna sín á okkur fyrir að ganga svo vel um hríð. Og við hugsum með hlýju til Héraðsbúa sem eftir svo blítt sumar bíður fjárfellisvetur, trúlega hungursneyð, barnadauði og landflótti. Einhvern tíma hlýtur þessu að linna, okkur hlýtur að hefnast fyrir velgengnina.

Það kvað ekki bara við skemmtilegan heldur bráðsnjallan tón hjá þjálfara meistaraflokks karla, eftir afrek ágústmánaðar. Á afmælisdegi pabba gamla sagði Óskar Hrafn þetta: „Ég hef enga reynslu af því að vera í toppsætinu með Breiðablik. Það er alltaf þessi stöðuga pressa og ég held að það sé mikilvægt að faðma hana, umvefja og elska hana.“

Evrópska knattspyrnusvæðið

Hvorir tveggja, meistaraflokkar karla og kvenna í Breiðabliki, hafa staðið sig hrikalega vel í Evrópukeppnum þetta sumarið. Strákarnir gerðu okkur stolt með flottum sigrum, fínum leikjum og glimrandi árangri á alþjóðlega sviðinu.

Eftir traustvekjandi jafntefli gegn á útivelli gegn ŽNK Osijek er nú framundan hjá stelpunum mikilvægari leikur en nokkurt íslenskt kvennalið (jafnvel karlalið) hefur spilað um hríð. Það er útslitaleikur um að komast í nýja riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Breiðablikskonur fóru þangað vissulega 2019 en umgjörðin nú og veganesti er annað. Það þætti nú saga til næsta bæjar, jafnvel þarnæsta, að íslenskt lið tæki þátt í þessari frumraun nýrrar Meistarakeppni kvenna. Leikurinn hjá stelpunum gegn Osijek er á fimmtudaginn, 9. september.

Þá er eins gott að mæta á völlinn.

image

Bleikur október

Einn af þessum lituðu mánuðum sem við eigum er bleikur október. Í þeim mánuði setjum oft upp slaufur til að sýna samhug með konum sem þurfa að slást við helvítis krabbann.
Október 2021 gæti líka orðið kvennamánuður hjá okkur Blikum því föstudaginn 1. október (já, komið fram yfir réttir) er bikarúrslitaleikurinn. Á Laugardalsvellinum mæta okkar konur Þrótturum, sem farið hafa mikinn í deildinni, ekki síst núna síðsumars. Þetta þarf líka að setja í dagbókina.

Koma svohhhh!

Eiríkur Hjálmarsson

Til baka