BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Góður sigur suður með sjó!

21.01.2017

Strákarnir okkar unnu góðan sigur á Keflavíkingum 1:4 í Fótbolta.net mótinu í knattspyrnu í dag. Við vorum mun grimmari í öllum okkar sóknaraðgerðum en í síðasta leik og það skilaði þessum örugga sigri suður með sjó. Það voru þeir Arnþór Ari, Sólon Breki og Atli Sigurjóns sem gerðu mörk Blikaliðsins en eitt markið var sjálfsmark Keflavíkinga.

Sjá mjörkin úr leiknum hér. 

Við komust yfir strax á áttundu mínútu leiksins þegar Arnþór Ari setti gott mark eftir flottan undirbúning Martin Lund. En Adam var ekki lengi í Paradís og heimamenn jöfnuðu fimm mínútum síðar. En sem betur fer hjálpuðu Keflavíkingar okkur með því að leggja knöttinn í eigið mark á 22. mínútu en Gísli Eyjólfs ætti eiginlega að fá stoðsendingu skráða á sig í þeim undirbúningi.

Þegar heimapiltar virtust ætla að koma eitthvað inn í leikinn skoraði Sólon Breki gott mark skömmu fyrir leikhlé eftir frábæran undirbúning Willums Þórs. Góð staða þegar gengið var til búningsherbergja.

Töluvert fjör var síðari hálfleik og hefðu bæði lið getað bætt við mörkum. En það var eingöngu Atli Sigurjónsson sem náði að brjóta ísinn með fínu marki. Nokkru áður hafði Arnþór Ari átt skot í þverslá úr aukaspyrnu.  Sigur okkar pilta var sanngjarn en markatalan segir samt ekki allt um gang leiksins. Keflvíkingar áttu sín færi en voru mislagðir fætur upp við okkar mark.

Allt önnur holling var á Blikaliðinu í þessum leik en í leiknum gegn ÍBV. Allir leikmennirnir fengu að spreyta sig og geta verið sáttir við innkomuna. Martin Lund spilaði sinn fyrsta leik með Blikaliðinu og er greinilega mikil styrking fyrir liðið.  Willum Þór Willumsson var í byrjunarliði í fyrsta sinn í meistaraflokki og sýndi góða takta. Elías Rafn Ólafsson, Gísli Martin Sigurðsson og Skúli E. Kristjánsson Sigurz komu inn á í seinni hálfleik í sínum fyrsta opinbera leik með meistarflokki Breiðabliks. Í heild var þetta finn leikur og lofar góðu varðandi framhaldið. Lokaleikur í riðlinum er gegn FH á föstudaginn kl.19.00 í Fífunni.

Lið Breiðabliks: Hlynur Örn Hlöðversson, Oliver Sigurjónsson, Damir Muminovic (F), Aron Kári Aðalsteinsson, Arnþór Ari Atlason, Martin Lund Pedersen, Gísli Eyjólfsson, Sólon Breki Leifsson, Davíð Kristján Ólafsson, Willum Þór Willumsson, Guðmundur Friðriksson.

Varamenn: Elías Rafn Ólafsson (M), Atli Sigurjónsson, Ernir Bjarnason, Gunnlaugur Hlynur Birgisson , Ólafur Hrafn Kjartansson, Skúli E. Kristjánsson Sigurz, Arnór Gauti Ragnarsson, Gísli Martin Sigurðsson.

-AP

Til baka