BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Góður sigur gegn Stjörnunni

04.02.2019

Blikar og Stjarnan áttust við í úrslitaleik Fótbolta Net mótsins í Fífunni í gær. Blikar 3faldir sigurvegarar á þessu móti og Stjarnan hefur tvívegis unnið. Að burtflognum og sködduðum leikmönnum frátöldum, sýndist manni bæði lið mæta með sína leikmannahópa fullmannaða og það voru væntingar um hörkuleik.

Áhorfendur voru allmargir í Fífunni í gær og ennfremur var leiknum sjónvarpað út um allan heim og að sögn skiptu áhorfendur á þeim vettvangi nokkrum hundruðum. Þetta er frábær þjónusta við knattpyrnuunnendur nær og fjær og þarna er BlikarTV að gera verulega góða hluti. Sjá klippur úr leiknum hér og fyrri og seinni hálfleik hér 

Byrjunarlið Blika í leiknum.

Gestirnir byrjuðu leikinn með látum og djöfulgangi  og virtust ætla að valta yfir okkar menn og spila þetta með gamalkunnum aðferðum sem stundum eru nefndar einu nafni kraftabolti, í bland við ágæta fótboltagetu. Og þeir voru satt að segja mjög skeinuhættir í sínum sóknaraðgerðum. Okkar menn í talsverðum vandræðum með að ná takti og áttu satt að segja í vök að verjast fyrstu mínúturnar þar sem Stjarnan pressaði grimmt og þröngvaði okkar menn í langa sendingar sem við réðum illa við. Stjörnumenn sóttu mjög upp vængina beggja vegna og voru ógnandi og beinskeyttir. Þegar 15 mínútur voru liðnar fengu gestirnir svo vítaspyrnu eftir snarpa sókn þegar boltinn hrökk í hönd Blika inni í vítateig. Gulli gerði sér hinsvegar lítið fyrir og varði spyrnuna glæsilega og varði svo skot nr. 2 í stöngina. Enn komust gestirnir í frákastið en Blikar komust fyrir og náðu að koma boltanum í burtu. Þar sluppu okkar menn með skrekkinn. Nú urðu nokkur kaflaskil í leiknum því það var einsog Blikar hrykkju í annan gír og smám saman fóru menn að tengja betur sendingar og við það kom meiri hreyfing á liði og þá varð plássið meira og svo framvegis. Síðast en ekki síst fóru Blikar nú að taka almennilega á móti gestunum í návígjunum og keyra í þá og þá fóru hlutirnir að ganga. Þetta er svona svipað og að þegar vatn hitnar í potti. Þá kemst meiri fart á mólekúlin og á þá færist alltaf líf í tuskurnar. Næstu mínúturnar skiptust liðin á sóknum og það var hart barist um allan völl.
Blikar náðu svo forystunni á 35 .mínútu. Jonathan Hendrickx komst inn  í vítateig gestanna eftir flotta skyndisókn og varnarmaður gestann renndi sér fyrir hann og smellti hendinni í boltann. Dómarinn hugsaði sig um í augnablik á meðan hann var að melta smellinn, sem heyrðist um allt hús, en benti svo á vítapunktinn. Thomas tók spyrnuna og skoraði af miklu öryggi. Blikar komnir í 1-0 og það var vel ásættanleg staða miðað við gang leiksins. Það sem eftir lifði hálfleiksins voru Blikar mjög frískir og hefðu hæglega getað bætt við marki. Stjörnumenn voru nú slegnir út af laginu og gerðust ögn skapvondir. Sérstaklega virtist þeim uppsigað við Elfar Frey, sem spilaði algjörlega sinn eigin leik og bryddaði upp á nýjungum að hætti hússins. En var svo reyndar nærri því að slasa sig í einu atriðinu og þurfti smá aðhlynningu. En stóð svo bara á fætur og náði að pirra þá ögn meira áður en dómarinn blés til leikhlés.
Staðan í hálfleik 1-0 og Blikar máttu vel við una eftir að hafa sloppið með skrekkinn framan af.

Blikar gerðu þrefalda skiptingu í hálfleik. Kwame kom inn fyrir Aron, Viktor Örn kom inn fyrir Elfar og Þórir kom inn fyrir Thomas. Allt fyrirfram ákveðið skilst manni og um að gera að keyra á sem flestum leikmönnum, sé breiddin til staðar.

Síðari hálfleikur var gerólíkur þeim fyrri. Blikar náðu fínum tökum á leiknum og réðu ferðinni lengst af. Sérstaklega voru miðjumennirnir í miklu stuði og það var gaman að fylgjast með þeim þegar þeir voru að færa boltann kantanna á milli og fram á við. Mikill hraði og ákefð hjá þeim virtist slá gestina út af laginu. Og það var ekkert gefið eftir í návígjunum. Gaman að sjá Blikana hafa betur í svona slagsmálum. Framför. Hver sóknin á fætur annari dundi á gestunum og markið lá í loftinu. Okkar menn vildu og áttu að fá víti þegar Stjörnumaður sló boltann með hendi innan vítateigs en dómarinn dæmdi ekkert, Þórir kom boltanum á Kwame í kjölfarið og hann þrumaði í slá úr góðu færi. Þar voru gestirnir lúsheppnir. Blikar héldu áfram að þjarma að gestunum en inn vildi boltinn ekki, ef undan er skilið þegar Þórir skoraði með skalla eftir flotta sendingu frá Willum, en var dæmdur rangstæður. Skömmu síðar áttu Stjörnumenn hörkuskot eftir hornspyrnu en Gulli varði vel. Stjörnumenn fengu svo aðra hornspyrnu og hún fór illa hjá þeim því úr henni skoruðu Blikar, eftir flotta skyndisókn. Boltinn barst hratt fram og á Þóri, sem  var umkringdur varnarmönnum, en hann gerði mjög vel í að koma boltanum til Kwame sem skaut á mark. Skotið var varið en Þórir hirti frákastið og kom boltanum á Brynjólf og hann sneri sér við á tíeyringi og sett boltann í netið. Vel gert og ekta sentersmark.
Aron Kári kom nú inn fyrir Viktor Karl. Blikar áttu skömmu síðar flotta sókn upp hægri vænginn en náðu ekki að setja 3ja markið. Davíð Ingvarsson kom nú inn fyrir Brynjólf og áfram héldu Blikar að þjarma að gestunum. Og enn kom skipting. Ólafur Guðmundsson kom inn fyrir Davíð Kristján. Ólafur bráðefnilegur leikmaður, fæddur 2002, sem kom nú inn í sínum fyrst meistaraflokksleik. Síðustu mínútur leiksins gerðist fátt markvert. Gestirnir búnir að kasta inn handklæðinu og Blikar sigldu sigrinum heim af öryggi og unnu þar með þetta skemmtilega mót í 4. sinn.

Þetta var góður leikur hjá okkar mönnum lengst af og eftir erfiða byrjan náðu menn fínum takti. Gunnleifur hélt okkur á floti með því að verja vítið og ekki gott að segja hvernig farið hefði ef og hefði.
Það var líka gaman að sjá þegar okkar menn einhentu sér í að taka á andstæðingnum og fara í þá af fullum krafti. Það er það sem þarf á móti Stjörnunni. Við fengum að kenna á því í fyrra en vonandi höfum við lært eitthvað. Mér sýndist það.

Áfram heldur undirbúningurinn fyrir sumarið og framundan eru leikir í Lengjubikarnum. Fyrsti leikur þar er gegn Gróttu 16. febrúar kl. 10:15 í Fífunni. Vakna snemma.

Áfram Breiðablik !

OWK

Myndir, myndbönd & netmiðlar >meira

Mynd: HVH

Til baka