BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Glæsimark Höskuldar dugði ekki til

12.03.2016

Blikar urðu að sætta sig við 2:2 jafntefli við Víkings Ólafsvík í Lengjubikarnum. Þrátt fyrir að komast yfir 2:0 í leiknum þá misstum við einbeitinguna og gestirnir jöfnuðu með tveimur mörkum í byrjun síðari hálfleik. Þetta var mjög súrt því okkar drengir spiluðu mjög vel megnið af fyrri hálfleik. Leikurinn er hins vegar búinn fyrr en feita konan syngur og þurfa Blikapiltarnir að hafa það í huga þegar þeir mæta Ólafs- Víkingum í fyrsta leik á Íslandsmótinu á Kópavogsvelli sunnudaginn 1. maí n.k. 

Hjólhestaspyrnumark Höskuldar á 14. mínútu var eitt fallegasta mark sem hefur verið skorað í Fífunni frá upphafi og jafnvel þótt víðar væri leitað. Aukaspyrnumark Atla Sigurjónssonar á 21. mínútu var einnig mjög snyrtilegt og héldu nú Blikar að eftirleikurinn væri auðveldur. En Ólafsvíkingar gáfust ekki upp og við gáfum eftir. Einbeitingarleysi í vörninni og ójafnvægi milli varnar og sóknar leiddi til þess að gestirnir skoruðu tvö auðveld mörk í byrjun fyrri hálfleiks. Að vísu var vítaspyrnan vafasöm en það er alltaf háskaleikur að rennitækla í vörninni. Dómarinn féll í gildruna og færði þeim bláklæddu vítaspyrnu á gjafverði. Þar með voru þeir komnir inn í leikinn aftur og hörmuleg varnarmistök urðu til þess að Víkingar jöfnuðu leikinn. 

Þrátt fyrir að við girtum okkur aftur í brók náðum við ekki að troða tuðrunni í netið aftur. Að vísu fékk Glenn dauðafæri en hafði líklegast of mikinn tíma og lét markvörðinn verja frá sér. Leikur Blikaliðsins var of sveiflukenndur í leiknum. Við spiluðum flottan fótbolta fyrstu 20-25 mínútur leiksins en misstum svo hausinn. Miðju- og varnarmenn dekkuðu of langt frá mönnum og sendingar voru ekki nógu nákvæmar.

En mistökin eru til þess að læra af þeim. Þessi leikir skipta ekki meginmáli þegar út í alvöruna er komið. Við mætum Ólafsvíkingum í fyrsta leik í Pepsí-deildinni í ár og þá er ekki í boði að gera sömu mistök aftur. Gaman var hins vegar að sjá til Atla Sigurjónssonar sem er kominn í gott form og er orðinn driffjöður í spilamennsku liðsins. Davíð átti fína takta í vinstra bakverðinum, sérstaklega í fyrri háleik. Höskuldur er farinn að sýna töfra á vellinum aftur og mun markið hans lifa í minningu manna svo lengi sem land mun byggjast! Alfons kom inn í hægri bakvörðinn í síðari hálfleik og átti fínar rispur upp kantinn. Aðrir leikmenn geta gert betur en það eru nokkrar vikur í mót þannig að þetta smellur vonandi saman hjá okkur í 90 mínútur á réttum tíma! 

Nánar um leikinn hér

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

-AP

Til baka