BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Fyrsti titill í hús!

02.02.2013

Breiðablik sigraði á Fótbolti.net mótinu árið 2013 með því að leggja Keflvíkinga að velli 3:0 í Kórnum í dag. Þetta er annað árið í röð sem við sigrum á þessu móti en Keflavíkingar unnu það þegar það fór í fyrsta skipti fram. Sigur Blika var sanngjarn en ef til vill aðeins of stór miðað við gang leiksins. Það voru þeir Viggó Kristjánsson og Ósvald Jarl Traustason sem settu mörk okkar liðs og eitt markið var sjálfsmark gestanna.

Eins og fyrri leikjunum á þessu móti var fyrri hálfleikur frekar daufur. Liðin voru að þreifa sig áfram og áttu ekki mörg færi. Elfar Árni slapp þó einu sinni í fram hjá vörn Keflavíkinga en náði ekki nægjanlega góðu skoti á markið. Gunnleifur varði síðan einu sinni frábærlega þegar gestirnir áttu þrumuskot sem stefndi upp í markhornið. Staðan var því markalaus þegar liðin gengu til búningsherbergjanna í leikhléi.

Blikar stýrðu leiknum í síðari hálfleik og það kom því ekki á óvart þegar Viggó Kristjánsson skoraði fyrsta markið með þéttingsföstu skoti í markhornið niðri eftir sendingur frá fyrirliðanum Finni Orra Margeirssyni. Þeir gulklæddu frá bítlabænum sóttu í sig veðrið eftir þetta mark og gerðu nokkuð harða hríð að marki okkar pilta. Þar reyndis Gunnleifur betri en engin því hann varði aftur frábærlega með fætinum þegar einn Keflvíkinga slapp inn fyrir vörn okkar liðs. En þegar Keflvíkingar skoruðu sjálfsmark eftir góðan undirbúning Árna Vilhjálmssonar þá fór allt loft úr liðinu. Blikar héldu boltanum í rólegheitum og það var síðan bakvörðurinn ungi Ósvald Jarl Traustason sem kórónaði ágætan leik sinn með fallegasta marki leiksins. Hann hamraði knöttinn í mark Keflvíkinga eftir að gestirnir náðu ekki að hreinsa nægjanlega vel úr vítateignum. Sem sagt öruggur og sanngjarn 3:0 sigur Kópavogspilta.

Erfitt er að gera upp á milli leikmanna í þessum leik. En þó sást hve Gunnleifur er mikilvægur því þótt hann hefði ekki haft mjög mikið að gera þá varði hann gríðarlega vel þegar á reyndi. Sverrir Ingi og Þórður Steinar stýrðu vörninni af miklum myndugleika. Ljóst er að Sverri Ingi er að vera einn allra besti miðvörður deildarinnar en hann verður stundum að passa sig að ætla ekki að spila þetta of mikið á ,,kúlinu“. Andri Yeoman átti fínan leik á miðjunni í fyrri hálfleik en hálf-týndist í þeim síðari. Finnur Orri stöðvarði ófáar sóknir andstæðinganna og Árni Vilhjálms barðist vel í framlinunni. Í heild átti liðið fínan leik og um miðan mánuðinn byrjar síðan deildarbikarinn. Vonandi verða þá Tómas Óli og Kristinn Jónsson komnir á fullan skrið en þeir hafa ekki spilað neitt í þessu móti.

-AP

Til baka