BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Fyrsti bakvörðurinn og fyrsti Blikinn

03.01.2016

Grein úr Íslensk Knattspyrna 2015 birt hér með góðfúslegu leyfi Víðis Sigurðssonar:

"Kristinn Jónsson, vinstri bakvörður Breiðabliks, gaf flestar stoðsendingar í úrvalsdeild karla 2015, alls 9 í 22 leikjum. Kristinn endaði þar með fjögurra ára einokun FH-inga og varð bæði fyrsti bakvörðurinn og fyrsti Blikinn sem leggur upp flest mörk í deildinni síðan var farið að taka stoðsend ingarnar saman 1992.

Kristinn var aðeins annar tveggja bakvarða sem áður höfðu náð öðru sæti en Kristinn gaf gaf 8 stoðsendingar á Íslandsmeistarári Blika 2010. Einni færri en stoðsendingakóngur þess árs sem var KR-ingurinn Óskar Örn Hauksson. Sam Tillen hafði síðan komist næst bakvarða að vinna stoðsendingatitilinn en það var árið 2013 þegar Tillen gaf 10 stoðsendingar á félaga sína í FH og endaði í 2. sæti á eftir liðsfélaga sínum Ólafi Páli Snorrasyni.

Kristinn gaf einni stoðsendingu meira en Leiknismaðurinn Hilmar Árni Halldórsson í ár en í 3.-5. sæti voru Atli Guðnason, FH, Jacob Schoop, KR, og Jón Vilhelm Ákason, ÍA, sem gáfu 7 stoðsendingar hver. Atli var meðal þriggja efstu í fjórða sinn á síðustu sex árum en hann hefur verið á topp tíu undanfarin átta ár. 

Kristinn Jónsson tryggði sér stoðsendingatitilinn svo sannarlega á síðustu stundu eða í uppbótartíma í lokaleik mótsins. Sú stoðsending sem tryggði honum sigurinn skar sig líka úr því þetta var bæði eina stoðsendingin sem Kristinn gaf hægra megin á vellinum og sú eina sem hann gaf á útivelli því 8 af 9 stoðsendingum hans komu á Kópavogsvellinum. 

Hilmar Árni Halldórsson var allt í öllu í sóknarleik nýliða Leiknis og stóð sig mjög vel á sínu fyrsta ári í deildinni. Hilmar gaf sína áttundu stoðsendingu á móti Fjölni í 19. umferð og var einn á toppnum þar til Kristinn jafnaði hann í 21. umferð. Kristinn tók síðan titilinn með því að leggja upp mark á fimmtu mínútu í uppbótartíma í sigri Blika á Fjölni í lokaumferðinni. 

Kristinn og Hilmar fóru ólíkt að við að gefa stoðsendingar sínar. Allar níu stoðsendingar Kristins komu í opnum leik en Hilmar gaf sex af átta stoðsendingum sínum beint úr hornspyrnum. Kristinn lagði upp mörk fyrir sjö Blika en hann átti tvær stoðsendingar á þá Höskuld Gunnlaugsson og Arnþór Ara Atlason.

Tveir leikmenn eru komnir afar nálægt öðru sætinu á heildarlistanum. FH-ingurinn Atli Guðnason gaf fjórum stoðsendingum fleiri en Ólafur Páll Snorrason í ár sem þýðir að Ólafur Páll (71) hefur nú bara einnar stoðsendingar forskot á Atla (70) í þriðja sæti listans yfir flest-ar stoðsendingar frá 1992 til 2015. Tryggvi Guðmundsson er í öðru sætinu með 73 en  efstur er Guðmundur Benediktsson sem gaf 87 stoðsendingar á sínum tíma.

FH-ingurinn Þórarinn Ingi Valdimarsson var efstur á listanum yfir þá sem komu að undirbúningi flestra marka með því að gefa stoðsendingu eða sendingu sem átti stóran þátt í undirbúningi marksins.

- Óskar Ófeigur Jónsson"

Til baka