BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Fylkir - Breiðablik í Árbænum kl. 19:15 sunnudagskvöld

07.05.2016

Leikur Blika við Fylki í Árbæ á sunnudagskvöldið verður 51. viðureign liðanna í opinberri keppni frá upphafi.  Þetta er annar leikur liðanna á þessu ári því fyrsti leikur Blika í Lengjubikarnum 2016 var gegn Fylki. Sjá nánar um þann leik hér.

Fyrsti leikur Blika í Pepsídeildinni í fyrra var gegn Fylki. Leikurinn fór fram í Lautinni í Árbænum og lauk með 1-1 jafntefli. Seinni leikurinn á Kópavogsvelli tapaðist 0-1. Árið 2014 gera liðin jafntefli í báðum efstu deildar leikjunum, fyrst 1-1 í Árbænum og 2-2 í seinni leiknum á Kópavogsvelli. Árið 2013 eru jöfn skipti á stigum. Blikar vinna útileikinn í Lautinni 0-1 en tapa seinni leiknum á Kópavogsvelli stórt því leiknum lauk með 1-4 sigri Fylkismanna. Árið 2012 gera liðin 1-1 jafntefli í báðum leikjunum. Árin 2009 til 2011 hafa Blikar mjög góð tök á Fylkismönnum og vinna alla leikina þá nokkuð sannfærandi. Stærstu sigrar Stærstu sigrar Fylkismann á Kópavogsvelli eru 1-6 sigur í 1. umferð árið 1996; 1-4 sigur í 18. umferð 2013 og 2-3 sigur í 20. umferð 2008.

Heilt yfir hafa liðin mæst 50 sinnum í öllum opinberum keppnum. Blikar hafa sigrað 25 sinnum á móti 13 sigrum Fylkismanna. Jafnteflin eru 12 - þar af 6 jafntefli á síðustu 4 árum. Sjá nánar um viðureignir liðanna frá upphafi hér.

Heimavöllurinn er liðunum ekkert sérlega hliðhollur því samkvæmt tölfræðinni eru Blikar mikið líklegri til að ná hagstæðum úrslitum í Árbænum en á Kópavogsvelli. Við höfum ekki tapað deildarleik í Árbænum síðan árið 2000. Í 13 deildarleikjum frá upphafi hafa Blikar unnið 7 sinnum, gert 4 jafntefli og tapað 2 leikjum og náð 63% stiga árangri. Blikar þurfa að halda áfram á þessari braut. Hinsvegar er árangur okkar gegn Fylkismönnum á Kópavogsvelli alls ekkert sérstakur. Í 13 heimaleikjum eru töpin 6, jafnteflin 3, 4 sigrar og aðeins 38% stiga árangur. Það er hins vegar seinni tíma mál að snúa þeirri tölfræði til betri vegar - nánar til tekið klukkan 19:15 miðvikudaginn 3. ágúst 2016.

Félögin hafa mæst 26 sinnum í efstu deild frá 1996. Blikar hafa unnið 11 leiki, Fylkir 8 leiki og 7 leikir hafa endað með jafntefli. Markaskorun er 71 mark sem skiptist þannig að Fylkir hefur skorað 37 mörk gegn 35 Blika-mörkum.

Bæði lið töpuðu í leikjum sínum í 1. umferð. Það verður því hart barist innan vallar sem utan á Floridana vellinum í Árbæ þegar flautað verður til leiks klukkan 19.15 á sunnudagskvöld.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

P.S. Skilaboð frá Fylki:

BÍLASTÆÐI VIÐ FYLKISVÖLL 

Best er að leggja við Árbæjarkirkju, Rofaborg (leikskóli) eða Árbæjarskóla. Það tekur ekki meira en 5 mín að ganga á völlinn frá þessum bílastæðum og ekki þörf að ganga yfir götu. 

Vinsamlega nýtið ykkur þessi bílastæði. 

Verið velkomin í Árbæin​

Til baka