BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Fullt hús stiga!

27.01.2013

Blikar unnu fyrirhafnarlítinn 2:0 sigur á Víkingi frá Ólafsvík á Fótbolti.net mótinu í Kórnum í dag. Það voru þeir Þórður Steinar og Árni Vilhjálmsson sem settu mörk okkar liðs með skalla í sitt hvorum hálfleiknum. Þar með unnu Blikar alla þrjá leiki sína í riðlakeppninni og spila til úrslita við Keflvíkinga á laugardaginn kemur.

Víkingar komu nokkuð grimmir til leiks í Kórnum og létu okkar menn finna vel fyrir sér. Þeir voru með þrjá erlenda leikmenn í prufu þannig að það var góð keyrsla á Ólafsvíkurliðinu. En vörnin með þá Sverri Inga og Þórð Steinar lét ekki slá sig út af laginu. Smám saman náðu þeir grænklæddu, drifnir áfram af mjög góðum leik Jökuls  Elísabetarsonar og Rafns Andra á miðjunni, öllum völdum á vellinum. Árni Vill var einnig ógnandi í framlínunni og það kom því ekki á óvart að við náðum forystu í leiknum rétt fyrir leikhlé. Það var varnarjaxlinn Þórður Steinar sem brá sér í sóknina og skoraði með góðum skalla rétt fyrir leikhlé.

Síðari hálfleikur var einstefna að marki gestanna. Þeir svöruðu með því að pakka í vörn þannig að Gunnleifur markvörður Blikaliðsins, sem var að spila sinn fyrsta leik fyrir okkur í opinberum leik, kom nánast ekki við boltann í síðari hálfleik. Ellert Hreinsson og Andri Rafn Yeoman komu inn á síðari hálfleik og enn jókst sóknarþungi þeirra grænklæddu. En vörn Víkinga stóðst sóknarþungann þar til Árni Vill kórónaði góðan leik sinn með því að skora með góðum skalla eftir fyrirgöf utan af kanti.

Við erum því komnir í úrslit á Fótbolti.net mótinu í annað árið í röð. Andstæðingar okkar nú eru Keflvíkingar sem einnig unnu sinn riðil með fullu húsi stiga.

Leikurinn verður næsta laugardag en ekki er búið að ganga frá tíma- og staðsetningu leiksins.

-AP

Til baka