BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Frábær Evrópukeppni að baki

12.08.2021 image

„Sweet dreams are made of this“ Þessar ljóðlínur eru sungnar af einhverri dáðustu dóttur Skotlands; Annie Lennox úr hljómsveitinni Eurythmics frá árinu 1983.  Sjá hér  Þetta lag kom Annie Lennox á heimskortið árið 1983 og þar er hún enn. Lennox er einmitt fædd í borginni Aberdeen, þangað sem för Breiðabliks í 3. umferð  Sambandsdeildar UEFA var heitið fimmtudaginn 17.ágúst 2021. Blikarnir höfðu náð frábærum árangri í Evrópukeppninni þetta árið.  Slegið út Racing Union Luxembourg og Austria Vín með frækinni frammistöðu í sumar eins og frægt er orðið. 

Við Blikar létum okkur auðvitað dreyma um að hið ómögulega gæti gerst; að komast í umspil um sæti í riðlakeppni í Evrópu gegn Quarabaq frá Azerbadjan. Líkurnar voru ekki miklar – og kannski óraunhæft.  En það má alltaf láta sig dreyma.....

Fyrri leikurinn endaði með sigri Aberdeen – en allir voru sammála að á góðum degi á Breiðablik í fullu tré við þetta þrautþjálfaða atvinnumannalið. Höskuldur fyrirliði gaf tóninn um að leikið skyldi til sigurs! (sjá hér)

Byrjunarliðið var svona:
 

image

Blikar byrjuðu leikinn mjög vel og voru öruggir í sínum aðgerðum.  Aberdeen sýndi klærnar líka og í tvígang þurfti Anton að sýna getu sína sem toppmarkmaður. Auk þess áttu þeir 2 hálffæri en við sluppum með skrekkinn. 

Besta færi hálfleiksins var samt Blika.  Viktor fékk frábæra sendingu frá Árna eftir að Jason hafði byggt upp frábæra sókn og munaði aðeins  hársbreidd að Viktor næði að skora en mér sýndist varnarmaður Aberdeen ná snertingu sem gerði útslagið um að Breiðablik næði forystu.  Virkilega vel útfærð sókn sem hefði átt að gefa mark. 
 

Áfall í byrjun seinni hálfleiks – frábært jöfnunarmark Gísla

Það hefur borið á að skort hafi einbeitingu hjá okkar mönnum í blábyrjun beggja hálfleikja.  Því miður var augnabliks einbeitingarleysi til þess að við lentum undir strax í upphafi seinni hálfleiks.  Inn á í hálfleik kom Belgíumaðurinn Ojo sem átti eftir að vera fyrirferðamikill í hálfleiknum.  Hann náði boltanum af Damir við endalínu og þar var Hedges mættur og sendi boltann í autt markið. 

Þetta var auðvitað mikið áfall – en smám saman unnu Blikarnir sig inn í leikinn og sýndu mikla þrautsegju.  Á 54 mínútu gerir Óskar þjálfari djarfa skiptingu.  Tekur Davíð Örn og Oliver útaf og setti Kristinn Steindórsson og Alexander Helga inn á.  Þetta reyndist gæfuspor – og setti sóknarþunga. Áhætta vissulega varnarlega í leiðinni en við höfðum engu að tapa.    Á 59 mínútu náðum við skyndisókn. Jason fékk sendingu sendingu út á hægri kantinn, lék laglega á varnarmenn Aberdeen og gaf á Viktor.  Viktor sýndi mikla íhugun og æðruleysi, lagði boltann út fyrir vítateig andstæðinganna.  Þar var mættur einn besti skotmaður í íslenskri knattspyrnu, Gísli Eyjólfsson.  Þá er ekki að sökum að spyrja og þroskaþjálfinn náði hreint ótrúlega hnitmiðuðu skoti sem fór í fjærhornið og Blikarnir búnir að jafna!!.   Það sló grafarþögn yfir hinn 115 ára gamla og sögufræga  Pittodrie Stadium.  Það var eins og það væru 19 áhorfendur (Blikabekkurinn) en ekki 19.000 söngglaðir vestur-Skotar á áhorfendabekkjunum. Sennilega er þetta mesti áhorfendafjöldi sem nokkurn tíma hefur í sögu félagsins verið áhorfandi að leik hjá liðinu í rúmlega 60 ára sögu Breiðabliks.  Það segir ýmislegt um andstæðinginn.  Aftur kviknaði draumurinn um ferðalag til Kaspíahafsins þar sem Azerbadjan er – og ég hef alltaf haldið að væri í Asíu en ekki Evrópu.  Sweet dreams are made of this....    

Blikarnir börðust áfram og við fengum vissulega færi til að jafna leikinn. Árni var ekki á sömu skotskónum og í fyrri leiknum þar sem hann var stórkostlegur og aðeins meiri áræðni vantaði í færunum.  En Aberdeen átti líka færi í þessum skemmtilega fótboltaleik og á  72. mínútu náði Ryan Hedges skoti eftir laglega sókn sem endaði í netinu, óverjandi fyrir Anton markmann – sem átti fínan leik. 

Hinn ítalski dómari Di Bello – sem átti frekar skrautlegan dag - flautaði svo leikinn af og Skotarnir fögnuðu vel.  Blikarnir játuðu sig sigraða í leik sem gat endað á alla vegu. Við áttum svo sannarlega færi til að skora fleiri mörk – en svona er fótboltinn.  Draumurinn sem Annie Lennox söng svo falleg um rættist ekki þetta árið.  Allir leikmenn liðsins stóðu sig afar vel – og það þar stórmerkilegt að hafa náð þetta langt gegn þrautþjálfuðu atvinnumannaliði og Aberdeen er. 

image

Frábær frammistaða í Evrópukeppni

Frammistaða Breiðabliks í Sambandsdeild Evrópu er búinn að vera stórkostleg.  Ísland er nr 47 af 54 liðum í UEFA sem taka þátt í Evrópukeppnum   Liðin sem við lékum við eru frá Luxembourg (35), Austurríki (10) og Skotland (11).  Þetta eru allt lönd sem eru talsvert mikið hærra skrifuð og með betri árangur en Ísland er með.  Nokkuð sem ég held að margir geri sér ekki grein fyrir.    Það má líka geta þess að þessi árangur Breiðabliks í ár er lykilástæða þess að ísland mun aftur leiktímabilið 2022/2023 vera með 4 líð í stað þriggja í Evrópukeppnum.  Við erum að verða eitt af stærstu flaggskipum íslenskrar knattspyrnu.  

Það er aðeins einn skuggi sem fellur á þennan árangur – og það er nokkuð sem hvorki strákarnir né félagið getur nokkuð gert við.  Það er hrikalega sorgleg staðreynd að liðið okkar sem hefur sýnt að það á fullt erindi í alþjóðlega keppni meðal fremstu félagsliða Evrópu getur ekki spilað heimaleiki sína í Kópavogi.  Það er grátlega lítið sem þarf til að gera þannig að það standist eðlilegar kröfur UEFA um aðbúnað í keppni sem hér um ræðir. Metnaðarleysi bæjaryfirvalda hvað þetta mál varðar er hreint með ólíkindum. Óskar þjálfari talaði fyrir munn flestra Blika þegar hann sendi bæjaryfirvöldum skýr skilaboð (sjá hér)

Myndaveisla í boði vefsíðu Aberdeen FC:

image

Stöndum saman með höfuðið hátt

Í áður tilvitnuðum texta Annie Lennox um drauminn segir einnig: 
 „Keep your head up, movin´on“.   

Það er einmitt það sem við þurfum að gera.  Halda haus. 
Næstu verkefni okkar Blika bíða handan við hornið.  Á mánudag er leikur gegn Akranesi í Pepsi Max deildinni og sigur þar er alger nauðsyn til að gera atlögu að toppsætinu.  Við ætlum okkur ekkert annað en sigur þar. 

Við höfum alla burði til þess.  Við erum með frábært lið og takturinn í leik þess er þannig að við eigum að vera með sterkasta lið landsins.  Ég er sannfærður um að ef leikmenn leggja sig fram þá munum við uppskera.  Það er ekki sanngjarnt að taka einn leikmann út í jafn heildstæðu liði og við eigum núna í leik dagsins.  En ég verð að nefna fyrirliðann Höskuld Gunnlaugsson.  Hann átti frábæran leik- og undir hans forystu þurfum við engu að kvíða. Ég var afar stoltur af liðinu í kvöld þrátt fyrir tapið.  Nú er nauðsynlegt að allir fylki sér á bak við strákana í lokabaráttunni, þeir eiga það svo sannarlega skilið.

Hákon Gunnarsson

Umfjallanir netmiðla

Hér að neðan má sjá mörkin úr leiknum:

Til baka