BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Fótboltinn er skrýtið fyrirbæri!

31.01.2020

Fótboltinn er er skrýtið fyrirbæri og úrslit stundum alveg út úr kú. Það á svo sannarlega við úrslitaleik Fotbolta.net-mótsins árið 2020. Blikar voru betri á flestum sviðum en töpuðu samt 2:5. Þá er gott að rifja upp að Óskar Hrafn þjálfari bað um tilfinningalegt svigrúm á fundi með stuðningsmönnum í haust líkt og Ólafur Ragnar, fyrrum forseti, gerði eftirminnilega í DV viðtali 1999. ,,Það munu koma slys," sagði Óskar Hrafn við okkur Blika og þá má segja að slysið hafi verið eftirminnilegt á Kópavogsvelli í gær. Við þurfum hins vegar að læra af þessum leik að það er ekkert gefið í knattspyrnu og menn verða að halda haus til að knýja fram úrslit.

Hinn þekkti almennatengill Gunnar Steinn Pálsson orðaði þetta ágætlega eftir leik. ,,Skagamenn áttu eitt færi í leiknum en skoruðu samt fimm mörk". Það var með hreinum ólíkindum að Blikar skyldu ekki skora mark í fyrri hálfleik. Liðið tætti Skagavörnina í sig hvað eftir annað en leikmönnum var alveg fyrirmunað að koma tuðrunni í netið. Þeir gulklæddu komust varla fram fyrir miðju en skoruðu nánast í hvert skipti sem þeir komust inn í vítateig okkar pilta. Það verður þó að hrósa Skagamönnum fyrir fyrsta markið. Það var algjör snilld! Staðan 0:3 þegar liðinu gengu til búningsherbergja og áhorfendur klóruðu sér í kollinum yfir gangi leiksins.

Ekki tók betra við í síðari hálfleik. Blikar skoruðu klaufalegt sjálfsmark, fengu síðan dæmda á sig vítaspyrnu og nokkur harka hljóp í leikinn. Tveir leikmenn Blika, Guðjón Pétur Lýðsson og Brynjólfur Darri Willumsson, misstu ,,kúlið“ og létu reka sig út af. Gísli Eyjólfsson og Benedikt Warén skoruðu reyndar góð mörk fyrir Blika en tveimur færri áttu Blikar ekki sjens að snúa leiknum sér í vil. Það voru því Skagapiltar sem stóðu uppi sem Fotbolta.net meistarar árið 2020.

Það var ekki eingöngu inn á vellinum sem hlutirnir voru að gerast. Það er greinilega taktík hjá forsvarsmönnum Skagaliðsins að djöflast nógu mikið í dómurum og öðrum starfsmönnum leiksins og þannig reyna að hafa áhrif á gang mála. Þetta var sérstaklega áberandi í gær þegar umgjörðin er ekki eins og í alvöru leikjum þ.e. engin fjórði dómari og engin eftirlitsaðili. Því miður létu Blikar þetta hafa áhrif á sig og misstu sig aðeins. Áhorfendur létu smitast af hamagangi leikmanna og létu nokkur ókristileg orð falla í garð hvors annars. Framkoma leikmanna og áhorfenda gekk fram af hinum annars dagfarsprúða vallarþul, Björgvini Rúnarssyni, þannig að hann sá sæng sína upp reidda og lét sig hverfa af vettvangi áður en leik lok. Tíðindamaður blikar.is leitaði í smiðju Gunnlaugs Guðmundssonar stjörnuspekings til að fá skýringar á þessari sérkennillegu stöðu sem upp kom í leiknum í gær. Enda er Gunlaugur spáskyggn og eindæmum næmur á óútskýranlega hluti. Þá kom í ljós að í gær var rísandi tungl með áhrifum frá Venusi í hánorðri. Það hentar illa fyrir fólk í grænu en gulur litur sólarinnar er rísandi í þeirri stöðu. Það þarf því ekki að koma á óvart að máttarvöldin hafi togað í spotta með gulklæddum Skagamönnum.

Það sem skrifað er hér á undanum um stöðu himintunglanna er auðvitað bölvuð vitleysa. Blikar þurfa ekki að missa svefn út af þessum leik. Hlutirnir féllu ekki með okkur að þessu sinni. Hins vegar verða menn að halda haus þegar á móti blæs og ekki láta æsa sig upp og þannig enda út af velli með rauð spjöld. Það endar ekki vel. Varnarleikinn verður líka að skoða en sóknarleikurinn var hins vegar að flestu leyti góður. Nema að við skoruðum ekki nógu mörg mörk til að sigra í leiknum. Eitt af því jákvæðasta í leiknum var góð frammistaða Gísla Eyjólfssonar. Hann skoraði fjórða leikinn í röð og var sívinnandi allan leikinn. Það verður gaman að fylgjast með Gísla í sumar!

Næst tekur við Lengjubikarinn hjá strákunum okkar. Fyrsti leikur er gegn frískum Leiknisdrengjum úr Breiðholtinu. Sá leikur er næstkomandi föstudag, 7.2., kl.19.15. á Kópavogsvelli. Það eina sem við getum lofað fyrir þann leik er blússandi sóknarleikur og fullt af mörkum.

-AP

Umfjallanir annarra netmiðla.

Til baka