BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Fótbolti er okkar fag !

24.09.2018

Blikar mættu Fjölnismönnum í 21. og næst síðustu umferð Pepsi deildarinnar. Sólin stráði geislum sínum yfir mannskapinn á köflum en stöku skúr í grennd og einn eða tveir gerðust nærgöngulir. Kom ekki að sök því veður var lengst af  með ágætum og ekki verra en við er að búast um þetta leyti. Hiti 8°C og hægur vindur af suðvestri. Áhorfendur munu hafa verið á 7. hundraðið.
Heimamenn voru fyrir leikinn í næst neðsta sæti deildarinnar og í bullandi fallhættu svo ekki sé meira sagt. Blikar í 3ja sæti eftir góðan sigur á Fylki á miðvikudaginn og ekki búnir að afskrifa frekara klifur upp stigatöfluna. Gunnleifur í leikbanni eftir að smellhitta Fylkismann á dögunum og því stóð Ólafur Íshólm á markinu. Annars var byrjunarlið óbreytt.

Leikskýrslur: Úrslit.net og Ksí.is

Þetta byrjaði rólega í dag og það var smá værð yfir þessu í blábyrjuninni. Svona eins og menn væru að vakna af hádegislúrnum. Heimamenn samt með smá þrýsting á Blika í upphafi en án þess að ógna að ráði. Okkar menn náðu smám saman að hrista af sér óværuna og þegar 10 mínútur voru liðnar af leiknum ákváðu þeir að þetta væri komið nóg og brugðu sér yfir á vallarhelming heimamanna. Úr varð fín sóknarlota sem stóð þar til boltinn lá í netinu. Heimamenn náðu að vísu að hrinda fyrstu atlögunni af sér en aðeins í innkast sem okkar menn tóku hægra megin. Úr innkastinu barst boltinn á Willum og hann þræddi boltann á Gísla sem kom siglandi inn í teiginn. Gísli var aðþrengdur en snöggur að athafna sig og gott skot hans hafnaði í fjærhorninu. Snaggaralega gert. Blikar komnir í 1-0 og tóku nú öll völd á vellinum. Næstu mínútur var þjarmað að heimamönnum, sem reyndar áttu líka sína spretti og fengu nokkrar hornspyrnur, en það voru Blikar sem stjórnuðu umferðinni að mestu. Hornspyrnur Fjölnismanna vöktu óhug framan af, en það var sjaldnast mikil hætta. Allt skallað og hreinsað í burtu með trukki. Blikar fengu hinsvegar nokkur tækifæri á að auka við forystuna og Aron var hársbreidd frá að sleppa einn í gegn en skriplaði á skötu og varð að sætta sig við hornspyrnu. Hinumegin var bara lok lok og læs og allt í stáli og heimamenn komust ekkert áleiðis gegn sterkum varnarleik okkar manna. Náðu ekki skoti á mark allan hálfleikinn. Blikar juku svo við forystuna þegar skammt var til hálfleiks. Dæmd var hendi á varnarmann Fjölnis eftir loftbardaga við Thomas við vítateigsbogann. Oliver tók spyrnuna og rétt eins og í fyrri leiknum í sumar smellti hann einum þéttingsföstum í bláhornið. Þórður Ingason átti ekki séns í þennan. Flott mark og 2 – 0 forysta Blika verðskulduð. Fjölnismenn ekki í góðum málum þegar þarna var komið en alls ekki búnir að gefast upp og litlu mátti muna að þeir minnkuðu muninn úr síðustu hornspyrnu fyrri hálfleiks, en boltinn fór naumlega framhjá.   
Blikar í góðum málum í hálfleik og þeir sem lögðu leið sína í vallarsjoppuna gátu fengið ágæta hamborgara. Og heitt að drekka, ekki veitti af. Það var aðeins farið að kula. Stjarnan að vinna í Eyjum og við því enn í 3ja sætinu. Það átti reyndar eftir að breytast. Blikar á einu máli um að okkar menn væru að leika ágætlega. Gott flæði í spilinu og flottar sóknir af og til. Vörnin traust og ekki undan neinu að kvarta svona almennt, og því skal það ógert.
Síðari hálfleikur var öllu rólegri en sá fyrri, en heimamenn voru ögn ákveðnari og höfðu gert tvöfalda skiptingu í hálfleik og sett inná tvo öfluga leikmenn sem allajafna hafa verið í liði þeirra í sumar. En framan af var fátt að frétta utan smá pirringur og núningur á milli manna og í þrígang voru gestgjafarnir að henda sér á magann og bakið emjandi undan Thomasi, hlupu síðan til dómarans. Hann féll í gildruna í tvígang en síðan ekki söguna meir. Brynjólfur Darri kom inn fyrir Kolbein á 60. mínútu. Kolbeinn búinn að leika vel síðan hann kom inn en var í rólegri kantinum í dag. Kannski eilítið lúinn eftir álagið undanfarið. Framtíðarmaður. Heimamenn hertu enn róðurinn og náðu að setja smá pressu á Blika en var fyrirmunað að hnýta endahnútinn. Blikar settu Alexander helga inn fyrir Aron á 70.mínútu. Gott að sjá að Alexander er búinn að jafna sig á meiðslum sem hann hlaut á æfingu, eftir að hafa tryggt sigurinn sæta gegn KR og enn er í fersku minni. Fjölnismenn héldu áfram að reyna og hefðu með eilítilli heppni kannski getað skorað mark. En heppnin hefur ekki verið þeirra förunautur í sumar og það breyttist ekki í dag. Blikar sigldu þessum stigum heim í rólegheitunum. Arnór Gauti kom inn fyrir Thomas þegar 10 mínútur voru til leiksloka og var nálægt því að skora eftir laglegt spil Blika, en rann til og náði ekki almennilegu skoti.

Blikar lönduðu öruggum 2 -0 sigri og þar með féllu Fjölnismenn úr Pepsi deildinni eftir erfitt sumar. Við óskum þeim velfarnaðar og sjáum þá vonandi fljótt aftur á meðal þeirra bestu. Þar eiga þeir að vera.
En þegar öll hænsn höfðu verið talin í dagslok, voru okkar menn komnir upp í annað sætið og eiga enn möguleika á Íslandsmeistaratitlinum. Möguleikinn er kannski eilítið langsóttur en samt ekki flóknari en svo að ef Valur tapar og við vinnum þá er titillinn okkar. Má maður láta sig dreyma?

Þetta kemur allt í ljós næsta laugardag en þá leika Blikar gegn KA á Kópavogsvelli.
Þetta er ekki flókið. Við þurfum að ná í 3 stig. Aldrei að vita.

Leikurinn hefst kl. 14:00.

Áfram Breiðablik !

OWK

Umfjallanir netmiðla

Til baka