BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Flottur sigur hjá Blikum

01.04.2017

Jafnræði var með liðunum fyrstu 15 mínúturnar og áttu Austfirðingarnir meðal annars eitt upplagt marktækifæri sem þeir nýttu sem betur fer ekki. En smám saman komu yfirburðir okkar drengja í ljós. Á 30. mínútu kom fyrsta markið og það gerði Tokic með góðu skoti. Pedersen setti svo eitt mark skömmu fyrir leikhlé. Gestirnir misstu markvörðinn sinn af velli vegna meiðsla í fyrri hálfleik og það veikti varnarlínu gestanna. 

Í síðari hálfleik var bara eitt lið á vellinum. Blikarnir réðu lögum og lofum og spiluðu Austfirðingana upp úr skónum. Mörkin komu flest eftir flott samspil og var síðasta markið sem Davíð Kristján skoraði algjör snilld. Þar lékum við í fáum snertingum allt frá öftustu varnarlínu og Davíð kláraði færið með miklum ágætum. Önnur mörk settu Sólon Breki, Aron, og Tokic með sitt annað mark. 

Allir leikmenn Blika fengu að spreyta sig í leiknum og stóðu sig með sóma. Willum átti enn einn flottan leikinn á miðjunni og varnarlínan steig ekki feilspor í leiknum. Sóknarmennirnir skoruðu allir og lofar það góðu fyrir sumarið. En það má ekki gleyma ,,gamla" manninum Gunnleifi Gunnleifssyni í búrinu. Hann og allt Blikaliðið er bara búið að fá eitt mark á sig í Lengjubikarnum og lofar það góðu fyrir sumarið. Svo var mjög ánægjulegt að sjá Viktor Örn aftur í byrjunarliði en þetta var hans fyrsti leikur á þessu keppnistímabili.  

Þessi leikur lofar góðu upp á framhaldið. Auðvitað mega menn ekki gleyma því að við vorum að spila gegn liði sem var í fallbaráttu 1. deildar í fyrra. En samt sem áður höfum við stundum lent í basli með þannig lið. Maður verður því að njóta stundarinnar og gleðjast yfir því sem vel er gert.

Blikaliðið er nú komið til Spánar og þar mun það æfa við toppaðstæður næstu daga. Spáin fyrir þennan hluta Spánar er sól og 24-26 stiga hiti næstu daga.

-AP

Til baka