BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Flott stig í Firðinum

06.05.2014

Leikskýrsla.

Strákarnir okkar gerðu góða ferð í Hafnarfjörðinn og náðu í dýrmætt stig á sterkum útivelli gegn FH-ingum í Pepsí-deildinni í gær. Lokastaðan var 1:1 eftir að við höfðum náð forystu snemma leiks með góðu marki frá Tómasi Óla Garðarssyni. Því er ekki að leyna að heimapiltar sóttu nokkkuð að okkur það sem eftir lifði leiks en vörnin okkar hélt með ofurmarkmanninn Gunnleif Gunnleifsson í rammanum.  Þegar upp verður staðið í haust mun þetta stig skipta miklu máli í töfluröðinni enda verða ekki mörg lið sem sækja stig í greipar þeirra hvítklæddu í Kaplakrika.

Mark okkar pilta var einkar fallegt. Snilldarsending Páls Olgeirs á Árna Vill sem setti hárfína sendingu inn á Tómas Óla sem gerði engin mistök og setti boltann frá hjá markverði heimamanna. Eftir þetta virtust okkar piltar gefa eftir og sóknir FH-inga urðu þyngri. Það kom því ekki á óvart að þeir jöfnuðu fyrir leikhlé. Við gáfum fljótum sóknar og miðjumönnum heimadrengja allt of mikinn tíma í fyrri hálfleik og fengu þeir óáreittir að taka á móti boltanum og spila honum um allan völl. Við gátum því verið sátt við jafnan hlut þegar gengið var til búningsherbergja.

Ólafur þjálfari las greinilega vel yfir hausamótunum á okkar drengjum í leikhléi. Einnig sendi hann drekana Elfar Frey og Ellert inn á til að koma meiri baráttu inn á völlinn. Einnig sendi hann Stefán Gíslason inn á miðjuna og með þessari breytingu komst meira jafnvægi á leik liðsins. Við vorum reyndar ekki að skapa okkur mörg margtækifæri en við hrundum flestum sóknartilburðum þeirra hvítklæddu nokkuð örugglega.

Hrósa verður Blikaliðinu fyrir að ná í þetta stig í Hafnarfjörðinn. Það verða ekki mörg lið sem sækja stig í Kaplakrikann. Varnarlína Blika var nokkuð traust í leiknum. Jordan Halsmann spilaði sinn besta leik frá því að hann kom til félagsins, Damir og Elfar Freyr náðu vel samaní síðari hálfleik og verður að hrósa Elfari Frey sérstaklega fyrir góðan leik. Hann hirti ófáa skallaboltana og náði að stoppa Atla Guðnasonn að mestu leyti. Gunnleifur er bara snillingur í markinu og Stefán Gíslason sýndi klókindi í varnar- og miðjuspilinu sérstaklega í síðari hálfleik. Miðju og sóknarmenn okkar hafa oft átt betri leik en vallaraðstæður buðu ekki upp á að spila neinn sambabolta.

Við tökum þessu stigi fagnandi og það er gott veganesti fyrir KR-leikinn á fimmtudaginn. Kópavogsbúar fjölmenntu í Hafnarfjörðinn og stuðningsmenn Blika létu vel heyra í sér í stúkunni. Vonandi verður metmæting á Kópavogsvöll á fimmtudaginn!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

AP

Til baka