BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Finnur Orri kominn heim!

10.11.2020 image

Hér fagnar fyrirliðinn Finnur Orri Margeirsson sigri á Sturm Graz í 2. umf undankeppni Evrópudeildar UEFA á Liebenauer vellinum í Austurríki árið 2013. Á myndinni með Finni Orra eru markaskorarinn Ellert Hreinsson og nú leikjahæsti leikmaður Breiðabliks frá upphafi, Andri Rafn Yeoman.

image

Texti með mynd: Okkar maður Finnur Orri Margeirsson skrifaði í dag undir 3 ára samning við uppeldisklúbbinn sinn.

Finnur Orri kominn heim! Finnur Orri Margeirsson er kominn heim í Kópavoginn eftir sex ára fjarveru. Leikmaðurinn hefur spilað með KR undanfarin ár en hefur nú ákveðið að spila í græna búningnum á nýjan leik.

Aðeins 16 ára gamall var Finnur Orri byrjaður að fá mínútur með Blikaliðinu í Lengjubikarnum árið 2008. Fyrsti mótsleikurinn hans var gegn Grindvíkingum í Reykjaneshöllinni í febrúar 2008 en þá kom Finnur inná á 62. mín. Hann kom við sögu í fjórum öðrum leikjum í Lengjubikarnum.

En í júní sama ár, þá rétt orðinn 17 ára, var Finnur Orri orðinn byrjunarliðsmaður þjálfarans Ólafs H. Kristjánssonar frá fyrsta leik í Bikarkeppni KSÍ og í 14 síðustu leikjum Íslandsmótsins 2008. Fyrsti leikur Finns Orra í efstu deild var jafnteflisleikur gegn Keflvíkingum á Kópavogsvelli 30. júní 2008. Hann á að baki 243 mótsleiki með Blikaliðinu og var lengi fyrirliði liðsins.

Finnur Orri mætti í viðtal til Heisa hjá BlikarTV:

Árið 2015 fór Finnur yfir hafið til Noregs og spilaði með Lilleström í eitt ár. Þegar heim kom gekk hann til liðs við KR-inga. Þar varð hann strax einn af lykilmönnum og varð meðal annars Íslandsmeistari í fyrra.

Það það vart að taka það fram hve góðar fréttir þetta eru fyrir okkur Blika. Finnur Orri er gríðarlega klókur leikmaður sem getur spilað hvort sem er sem varnartengiliður eða sem hafsent.

„"Það er frábært að fá Finn Orra aftur í Breiðablik þar sem hann á heima. Hann er mikill leiðtogi bæði innan og utan vallar og leikmaður sem á eftir að styrkja Blikaliðið verulega á næstu árum." segir Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks. “

Mótsleikir Finns Orra með Breiðabliki á árunum eru 243. Skráðir leikir með KR-ingum eru 103. Hann á að baki 28 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands.

Hjá Blikaliðinu hittir hann fyrir meðal annars yngri bróður sinn Viktor Örn og þá Elfar Frey Helgason, Kristinn Steindórsson og Andra Rafn Yeoman sem urðu Bikar- og Íslandsmeistarar með honum í Blikaliðinu árið 2009 og 2010.

Velkominn heim í Kópavoginn Finnur Orri!

Finnur Orri valdi líka leikinn til að skora sitt fyrsta mark með meistaraflokki Breiðabliks. Hér má sjá þegar hann kemur Blikum í 1:0 á 27. mín gegn Aktobe í undankeppni Evrópudeildar UEFA á Laugardalsvelli 8.ágúst.2013:

image

Halldór Árnason aðstoðarþjálfari og Finnur Orri Margeirsson eftir undirskriftina í dag.

Til baka