BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Fimm Blikar í Las Vegas. Munið eftir aðalfundinum í dag kl.18.00

09.02.2017

Fimm af okkar drengjum komu við sögu hjá íslenska A-landsliðinu sem tapaði naumlega fyrir Mexíkó 0:1 í vináttulandsleik í Las Vegas í Bandaríkjunum í gær. Þetta voru þeir Oliver Sigurjónsson, Árni Vilhjálmsson, Kristinn Steindórsson, Kristinn Jónsson og Adam Örn Arnarsson. Þess má geta að þetta voru fyrstu landsleikir þeirra Árna Vill og Adams Arnar.

Mexíkóar voru mun meira með boltann í leiknum en tókst ekki nema einu sinni að rjúfa sterkan varnarmúr íslenska liðsins. Okkar piltar komu allir inn á sem varamenn í síðari hálfleik. Fyrst kom Oliver inn á 55. mínútu og var þetta annar A-landsleikur hans, svo komu Árni Vill, Kiddi Steindórs og Kiddi Jóns á 78. mínútu en þetta var áttundi A-landsleikur Kidda Jóns, fyrsti leikur Árna Vill og þriðji leikur Kidda Steindórs. Adam Örn kom síðan inn á 86. mínútu í sínum fyrsta leik. Allir stóðu drengirnir sig með sóma og erum við Blikar sannarlega stoltir af þessum leikmönnum okkar.

Við minnum ykkur síðan á aðalfund knattspyrnudeildar sem verður haldinn í Glersalnum í stúkunni á Kópavogsvelli í kvöld kl.18.00. Hefðbundin aðalfundarstörf en þess má geta að Borghildur Sigurðardóttir gefur ekki kost á sér til endurkjörs sem formaður! Það verður því kosinn nýr formaður á fundinum! Engin Bliki má missa af þeim atburði!

Til baka