BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

FH-fall er fararheill!

15.04.2017

Blikar lutu í gras 0:3 í 8-liða úrslitum Lengjubikarsins í Fífunni í gær. Þrátt fyrir að sigur Hafnfirðinga hafi verið sanngjarn þá segja úrslitin ekki alla söguna. Við áttum okkar færi og meiðsli/veikindi voru að hrjá liðið. Blikaliðið spilaði vel á köflum og lagði sig fram en á þessum tímapunkti gekk ekki að koma knettinum í markið. Við höfum því ekki miklar áhyggjur af þessum úrslitum því við munum toppa á réttum tíma!

Strax í byrjun leiks var ljóst að æfingaferðin til Spánar sat aðeins í okkar mönnum. Blikastrákarnir voru frekar þungir og þar að auki leyfði slakur dómari leiksins allt of mikla hörku.

Gísli fór af velli strax á 13. mínútu vegna meiðsla og Viktor Örn skömmu síðar. Í þeirra stað komu 2. flokks strákarnir Aron Kári Aðalsteinsson og Sindri Ingimarsson í vörnina. Þess má geta að þetta var fyrsti alvöru leikur Sindra með meistaraflokki. Eins og gefur að skilja riðlaði þetta nokkuð leikskipulagi Blikaliðsins því auk þessara breytingar voru bæði Höskuldur Gunnlaugsson og Guðmundur Friðriksson fjarverandi vegna veikinda og meiðsla.

FH stjórnaði leiknum í fyrri hálfleik en við áttum samt nokkrar vænlegar skyndisóknir. Úr einni þeirri varði markvörður fimleikadrengjanna frábærlega frá Martin Lund. Mark FH í fyrri hálfleik kom eftir að við misstum boltann klaufalega á miðjunni eftir slaka þversendingu og gestirnir spiluðu sig í gegnum vörnina án þess að Gulli í markinu kæmi neinum vörnum við.

Við komum mun frískari til leiks í síðari hálfleiks og náðum miklu betur tökum á miðjuspilinu. Okkur voru hins vegar mislagðar hendur og fætur upp við markið og varði Færeyingurinn í marki FH nokkrum sinnum frábærlega frá sóknarmönnum okkar. Andartaks einbeitingarleysi í vörn okkar á 71. og 73. mínútu innsiglaði hins vegar sigur gestanna. Þrátt fyrir nokkrar vænlegar sóknir af okkar hálfu tókst ekki að laga stöðuna og 0:3 tap staðreynd.

Nokkrir leikmenn fengu hins vegar dýrmæta reynslu í þessu leik. Í lokin voru til að mynda fimm 2. flokksleikmenn inn á vellinum; Aron Kári, Sindri, Kolbeinn, Sólon Breki og Willum. Þetta mun skila félaginu góðri ávöxtun þótt síðar verði. Sérstaklega verður að hrósa Sindra fyrir frammistöðu sína. Honum er hent í ljónagryfjuna gegn Íslandsmeisturunum í sínum fyrsta meistaraflokksleik. Skiljanlega gerði hann einhver mistök en í heildina sýndi hann og sannaði að hann er framtíðarhafsent.

Tokic var mjög góður í sóknarleiknum og gaf ekki tommu eftir í návígjum. Hann kemur með nýja vídd inn í sóknarleikinn og næstu 3 vikur hafa þjálfararnir góðan tíma til að fínpússa samspil varnar og sóknar.

Meiðsli Guðmundar Friðriks og Gísla eru víst ekki alvarleg og Höskuldur ætti að jafna sig á veikindunum á nokkrum dögum. Ekki er hins vegar víst að Viktor Örn nái sér fyrir fyrsta leik og það skapar ákveðin vandamál fyrir þjálfarana.

En það kemur alltaf maður í manns stað og Blikaliðið er með mun sterkari hóp en undanfarin ár. Við verðum því  tilbúnir þegar KA-menn koma í heimsókn mánudaginn 1. maí n.k.

Viðtal við Gunnleif Gunnleifsson og nánar um leikinn í máli og myndum hér.

-AP

Til baka