BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

FH – Breiðablik á Kaplakrikavelli sunnudag kl. 17:00

08.09.2016

Breiðablik og FH hafa mæst 100 sinnum í opinberum leikjum. Leikurinn í Krikanum á sunnudaginn verður því hundraðasti og fyrsti skráði leikur liðanna frá upphafi.

Efsta deild 43 leikir; 2 Deild 20 leikir; Litli Bikarinn 19 leikir; Lengjubikarinn 8 leikir; Fótbolti,net 5 leikir; Bikarkeppni KSÍ 3 leikir; Meistarkeppni KSÍ 2 leikir; Samtals 100 leikir

Allra fyrsti opinberi leikur Breiðabliks gegn FH var í A-riðli í 2. deildar laugardaginn 13. júní 1964. Leikurinn var jafnframt vígsluleikur Vallargerðisvallar og bæjarstjórinn Hjálmar Ólafsson tók upphafsspyrnu leiksins í tilefni dagsins. Dómari leiksins var Magnús Pétursson. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli. Jón Ingi Ragnarsson skoraði mark Blika eftir flotta stoðsendingu Daða E. Jónssonar. Jón Ingi var svo aftur á ferðinni í fyrsta sigri Breiðabliks á FH í síðari deildarleik liðanna sem fram fór á Hvaleyrarholtsvelli 23.7.1964. Blikar vinna leikinn 2-3 með tveimur mörkum Jóns Inga Ragnarssonar og einu marki Grétars Kristjánssonar. Þriðji leikur liðanna frá upphafi var einnig árið 1964 en það var leikur í 2. umferð Bikarkeppni KSÍ. Leikurinn fór fram á Hvaleyrarholtsvelli í Hafnarfirði og lauk með 2-3 sigri Blika. Mörk Blika í þeim leik skoruðu Jón Ingi Ragnarsson, Júlíus Júlíusson og Sigmundur Eiríksson. Nánar um leiki liðanna árið 1964.

Ári síðar, 29. maí 1965, fá Blikar svo skell þegar FH vinnur okkur 8-0 á Hvaleyrarholtsvelli. En Blikar svara fyrir tapið með 4-3 sigri í heimaleiknum gegn FH á Vallargerðisvellinum 3. júlí 1965. Í hálfleik var staðan 1-3 fyrir FH en Blikar skora 3 mörk í seinni hálfleik og vinna leikinn 4-3. Aðal markaskorari Blika á þessum tíma, Jón Ingi Ragnarsson, skoraði þrennu í leiknum þar með talið sigurmarkið, en eitt markanna var sjálfsmark. Dómari leiksins mætti ekki til leiks þannig að Albert Guðmundsson, sem var meðal áhorfenda, tók að sér að dæma leikinn. Samkvæmt blaðaskrifum þá dæmdi Albert leikinn mjög vel. Nánar um leiki liðanna árið 1965.

Það var mikið skorað í leikjum liðanna fyrstu 2 árin eða 27 mörk í 5 leikjum sem gaf tóninn fyrir framhaldið því liðin skora að jafnaði 3+ mörk í meira en helming leikja liðanna frá upphafi.

Niðurstaða úr öllum 100 skráðum leikjum liðanna frá 1964 til 2016 eru 34 sigrar Blika, 20 jafntefli og 46 sigrar FH. 

Blikar hafa gott tak á FH frá 1964 til ársins 2000. Þegar árin 1964-2000 og 2001-2016 eru borin saman er þetta niðurstaðan; í 60 leikjum í öllum mótum 1964-2000, sigra Blikar 28 sinnum, jafnteflin eru 12 og FH sigrar í 20 viðureignum. Nánar um tímabilið 1964-2000.

Liðin léku 40 leiki í A og B deild á árunum 1964-2000. Blikar höfðu yfirhöndina á þessum árum. Í 20 B-deildar leikjum liðanna 1964-2000 sigra Blikar 11 sinnum, jafnteflin eru 3 og FH vinnur 6 sinnum.

Í A deild 1964-2000 vinna Blikar 12 sinnum, jafnteflin eru 3 og 5 sinnum sigrar FH. Nánar um Deildarleiki 1964-2000.

En frá 2001 er tölfræðin á bandi FH því að í 40 skráðum leikjum í öllum mótum sigrar FH 26 sinnum jafnteflin eru 8 og Blikar vinna 6 leiki. Nánar um tímabilið 2001-2016.

Efstu deildar leikir liðanna 2001-2016 eru 23. Blikar hafa unnið 4 leiki, alla á Kópavogsvelli, jafnteflin eru 6 og 13 sinnum sigrar FH. Deildarleikir 2001-2016.

Leik liðanna í Kaplakrika lauk með 1-1 jafntefli. Arnþór Ari Atlason skoraði mark Blika á 69. mín. En Kassim Doumbia jafnaði fyrir FH á 93. mín. Nánar um leikinn.

Leikurinn við FH á sunnudaginn er þriðja viðureign liðanna í keppni á þessu ári. Liðin átust við í Fótbolta.net mótinu 30. janúar 2016. Þeim leik lauk með 0-1 sigri FH. Nánar um leikinn.

Fyrri leik liðanna á Kópavogsvelli lauk einnig með 0-1 sigri FH. Nánar um leikinn.

Blikar eru nú í 2. sæti í PEPSI á eftir FH sem vermir toppsætið með 30 stig.

FH - Breiðablik á sunnudaginn kl.17.00! 

Skyldumæting hjá öllum Blikum.

Kopacabana sveitin verður á staðnum.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka