BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Fastir liðir í Firðinum!

25.01.2020

Blikar unnu öruggan sigur á FH í fobolta.net mótinu í morgun. Eins og mörkin gefa til kynna þá var sigur okkar pilta sannfærandi. Eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik þá keyrðu hraðir Kópavogsbúar yfir þreytta Hafnfirðinga. Lokatölur eins og oft áður 1:4 fyrir Breiðablik.

Leikurinn fór fram við góðar aðstæður í hinni nýju keppnishöll Fimleikafélagsins, Skessunni. Að vísu var dálítið kalt fyrir áhorfendur eins og oft vill verða í þessum lítið upphituðu keppnishöllum. En leikmenn hlaupa sér auðveldlega til hita og undirlagið er af bestu gerð. Blikar voru meira með boltann framan af fyrri hálfleik en náðu lítið að opna skipulagða vörn FHinga. Heimapiltar komu meira inn í leikinn undir lok hálfleiksins en Anton Ari varði vel þegar á reyndi.

Mörk og atvik í boði BlikarTV

Í síðari hálfleik var í raun bara eitt lið á vellinum. Fyrsta markið kom þegar fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson plataði bakvörð FH upp úr skónum og hann greip til þess ráðs að fella krullhærða Vesturbæinginn. Hinn nýorðni þrítugi framherji Blika, Thomas Mikkelsen, skoraði örugglega úr vítinu. Skömmu síðar jók Benedikt Warén forystu með fyrsta markinu sínu fyrir meistaraflokk Blika. Þá kom smá hikst og Blikinn Guðmundur Kristjánsson skoraði ódýrt mark fyrir FH beint úr aukaspyrnu. En þá settu okkar piltar í fluggírinn og Gísli Eyjólfsson skoraði gott mark í þriðja leiknum í röð. Greinilegt að Gísli er að finna sig í markaskoruninni á nýjan leik og eru það mjög góðar fréttir fyrir okkur Blika. Síðan bætti Thomas fjórða markinu við með góðum skalla eftir hornspyrnu.

Þetta var flottur sigur hjá Blikaliðinu. Eftir smá basl að opna FH vörnina í fyrri hálfleik þá kom flæði í spil þeirra grænklæddu í síðari hálfleik og sigurinn síst of stór. Spilamennskunni fer fram með hverjum leik og greinilegt að mönnum er farið að líða vel með þessa nálægð við knöttinn!

Við erum þar með komnir í úrslit í Fotbolta.net mótinu enn eitt árið. Andstæðingar okkar verða Skagamenn sem unnu hinn riðilinn. Úrslitaleikurinn fer fram í næstu viku en ekki er búið að festsetja dagsetningu á leiknum ennþá.

Óskar Hrafn: Opnir fyrir leikmönnum sem geta bætt liðið - viðtal á Fótbolti.net

Umfjallanir annarra netmiðla.

-AP

Til baka