BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Eyþór opnaði markareikninginn!

03.12.2022 image

Eyþór Aron Wöhler setti tvö mörk og opnaði þar með markareikning sinn með Blikaliðinu í 3:2 tapi í BOSE mótinu á frosnum Framvellinum í dag. Bæði lið tefldu fram ungum leikmönnum í leiknum enda liðin nýfarin að æfa á nýjan leik eftir langt keppnistímabil.

Staðan í leikhléi var 0:2 fyrir Blika en ungir varnarmenn Kópavogsliðsins voru fullgjafmildir í síðari hálfleik. En þarna fengu margir ungir leikmenn tækifæri sem vonandi skilar þeim dýrmætri reynslu í framtíðinni.

Blikaliðið var mun sterkara  í fyrri  hálfleik og var Eyþór Aron mjög ógnandi í framlínunni. Arnór Sveinn spilaði í hjarta varnarninnar og guð minn góður hve grænt klæðir hann miklu betur en svart og hvítt!

Í síðari hálfleik fengu margir ungir Blika tækifæri. Vallaraðstæður voru ekkert sérstakar því völlurinn var gaddfreðinn í upphafi leiks. Það hefði verið betra að spila leikinn síðar um daginn því sólin var nokkuð fljót að hitta upp gervigrasið. 

Tempóið var samt hátt í fyrri hálfleik og gáfu menn ekkert eftir í návígum. Sérstaklega var athyglisvert að nýi bakvörður Blikaliðsins, Alex Freyr Elisson, lét sína gömlu félaga finna vel fyrir sér. Þrátt fyrir tapið sýndu margar leikmenn Blika góða takta og lofar þetta góðu upp á samkeppnina í liðinu.

Þess má geta að í aðdraganda leiksins óskuðu Framarar eftir að síðari hálfleikur yrði aðeins 30 mínútur, sem Blikar samþykktu.

Næsti leikur Blikaliðsins í BOSE mótinu er næstkomandi fimmtudag kl.19.00 þegar við mætum KR á Kópavogsvelli.

-AP

image

Verðlaunahafarnir ungu frá aðalfundinum, Þór Gerald  Róbertsson og Stefán Ragnar Aðalsteinsson, voru að sjálfsögðu mættir á Framsvæðið til að styðja Blikaliðið.

Til baka