BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Evrópusætið öruggt!

20.09.2015

Blikar unnu fínan 2:1 sigur á FH á heimavelli í Pepsí-deild karla. Eftir frekar rólegan leik framan af þá hrukku sóknarmenn liðanna í gang. Fyrst setti Atli Guðnason boltann í mark okkar pilta eftir hikandi hreinsanir varnarmann okkar en svo komu tvær snilldarsendingar nafna hans Sigurjónssonar utan af hægra kanti sem Glenn og síðan Damir settu í mark fimleikadrengjanna.

Arnar og Kristó gerðu eina breytingu frá jafnteflisleiknum við Víkinga. Atli kom inn í byrjunarliðið en Ellert settist á bekkinn.

Liðið var því þannig skipað:

Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (m) - 3. Oliver Sigurjónsson - 4. Damir Muminovic - 5. Elfar Freyr Helgason - 7. Höskuldur Gunnlaugsson - 8. Arnþór Ari Atlason - 17. Jonathan Ricardo Glenn - 20. Atli Sigurjónsson - 23. Kristinn Jónsson - 29. Arnór Sveinn Aðalsteinsson - 30. Andri Rafn Yeoman

Guðjón Pétur, Ellert og Gísli komu síðan inn á í síðari hálfleik fyrir Arnþór Ara, Höskuld og Glenn.

Leikskýrsla:         Breiðablik – FH 20.9.2015

BlikarTV:              Útvarpslýsing

Það hafði rignt nokkuð duglega undanfarna daga í Kópavoginum og völlurinn því iðagrænn. Lofthiti var um 10 gráður en óreglulegur vindur og háll völlur gerði leikmönnum skráveifu af og til. Gestirnir komu ákveðnir til leiks og tóku fljótlega völdin á miðjunni. Vörn Blika var hins örugg og Gunnleifur, sem spilaði sinn 350 leik í deildaleik hér á landi, var öryggið uppmálað fyrir aftan varnarlínuna. Sérstaklega varði hann vel frá Steve Lennon eftir rúmlega 10 mínútna leik. Einnig átti hann nokkrar góðar vörslur síðar í leiknum.

Smám saman komu okkar drengir sterkar inn í leikinn og var þáttur Olivers Sigurjónssonar einkar mikilvægur á þeim tíma. Hann var eins og bryndreki á miðjunni og stöðvaði sóknir gestanna hvað eftir annað. Með smá heppni hefðum við getað verið yfir í leikhléi og áttu m.a. Arnór Sveinn og Atli ágæt tækifæri. En skiptur hlutur var staðreynd er dómarinn flautaði til leikhlés.

Síðari hálfleikur hófst svipað og sá fyrri og voru þeir hvítklæddu nokkuð ógnandi fyrstu mínúturnar. En fljólega náðu Blikastrákarnir vopnum sínum og náðu völdum á miðjunni. Samt sem áður náðum við ekki að opna vörn gestanna nægjanlega vel.  Gestirnir náðu hins vegar forystunni þvert gegn gangi leiksins á 72 mínútu þegar Atli Guðnason fékk boltann skyndilega á auðum sjó rétt fyrir utan vítateig okkar. Hann skaut þéttingsföstu skoti eftir jörðinni sem Gunleifur réð ekki við. Þarna var vörnin okkar ekki nægjanlega vel á verði og frekar veikir varnartilburðir sem sköpuðu þetta mark.

Stuðningsmenn og forráðamenn FH ærðust af fögnuði enda töldu þeir bikarinn vera kominn í hús. Blikar voru hins vegar ekki á sama máli og girtu sig heldur betur í brók. Markahrókurinn Glenn skallaði knöttinn í net gestanna aðeins tveimur mínútum síðar eftir snilldarsendingu Atla Sigurjónssonar utan af kanti. Greip þá mikil paník þá hvítklæddu og hörfuðu þeir allir að vítateig sínum. Okkar piltar tvíefludust hins vegar og sóttu af miklum krafti. Það skilaði árangri aðeins þremur mínútum síðar þegar Damir skilaði knettinum í mark eftir aðra snilldarsendingu frá Atla.

Jóhann Fannar Ólympíumeistari reif sig úr að ofan í miðjum Kópacabanahópnum og aðrir Blikar innan vallar sem utan hoppuðu og dönsuðu af kæti. Ljóst var að Blikar ætluðu ekki að leyfa FH-ingum að fagna neinum titli á sínum eigin heimavelli. Nokkur harka hljóp í leikinn en þrátt fyrir nokkur stressmóment í lok leiks sigldum við þessum mikilvæga sigri í hús. Þar með var ljóst að við höfðum tryggt okkar Evrópusæti á næsta ári. ,,Auðvitað má láta sig dreyma,“ sagði Arnar þjálfari um möguleika Blika á titlinum á þessu ári. ,,En raunhæft markmið er að halda þessu 2. sæti og það er það sem við stefnum á. Við ætlum auðvitað að vinna þessa tvo leiki sem eftir eru og síðan kemur í ljós hverju það skilar okkur,“ sagði þjálfarinn kampakátur eftir leikinn.

Blikar eiga hrós skilið fyrir þennan leik. FH liðið er geysisterkt og margir hefðu brotnað við það að fá mark á móti slíku liði. En Blikaliðið er líka mjög sterkt og öflugir keppnismenn í liðinu. Liðið var að spila mun betur en í undanförnum tveimur leikjum. Varnarlínan var geysiöflug með Gulla öruggan þar fyrir aftan. Oliver var brimbrjóturinn þar fyrir framan. Andri Rafn eins og randafluga um allan völl og ofsalega hlýtur að vera leiðinlegt að spila á móti þessum leikmanni sem aldrei gefst upp! Atli Sigurjónsson er að koma sterkar og sterkar inn í þetta Blikalið og var valinn maður leiksins. Varamennirnir Guðjón Pétur og Ellert komu ákveðnir inn og mörk okkar pilta komu ekki fyrr en eftir að þeir voru komnir inn á. Einnig átti Gísli ágæta innkomu.

Við mætum ÍBV næsta laugardag í Kópavoginum og svo förum við Grafarvoginn helgina þar á eftir. Við höfum verið að tapa stigum á móti lakari liðum deildinni í sumar þannig að nú er tækifæri að bæta þar úr. Við erum í dauðafæri að bæta stigamet Breiðabliks frá árinu 2010 þegar við urðum meistarar. Nú ætlum að við sýna knattspyrnuheiminum að við erum menn en ekki mýs!

-AP

Til baka