BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Umfjöllun: Evrópudraumurinn úti….

19.07.2019

Blikaliðið féll úr Evrópukeppninni árið 2019 eftir að hafa tapað með einu marki 2:1 gegn Vaduz frá Lichtenstein á útivelli. En eins og flestir vita þá var fyrri leikurinn sem fram fór á Kópavogsvelli markalaus. Þetta eru auðvitað mikil vonbrigði því menn voru búnir að gera sér vonir að við ættum ágæta möguleika gegn þessu liði. En svona fór um sjóferð þá og við getum þá farið að einbeita okkur að deildinni og svo bikarkeppninni.

Liðsuppstilling í leiknum í gærkvöld

Leikurinn í Lichtenstein fór á margan hátt svipað af stað og leikurinn í Kópavogi. Bæði lið spiluðu sterkan varnarleik og vörðust með mörgum mönnum. Þó var aðeins meiri sóknarþungi í leik Blikaliðsins en samt var Thomas oft einmana upp á toppinum. Við náðum ekki oft að opna vörn heimamanna og þeir í sjálfu sér ekki okkar heldur. Þó voru heimamenn næstum því búnir að skora sjálfsmark um miðjan fyrri hálfleik en markvörður þeirra varði glæsilega þegar knötturinn hrökk af einum varnarmanni. Nokkru síðar varði Gunnleifur glæsilega í slá eftir snaggarlega sókn Vaduz-pilta.

Það var því markalaust þegar liðin gengu til búningsherbergja í leikhléi. Fjölmargir Blikar sem fylgdust með leiknum í beinni útsendingu í salnum á jarðhæðinni í stúkunni á Kópavogsvelli. Menn voru flestir nokkuð sáttir við fyrri hálfleikinn. Samt voru nokkrir sem vildu að við væru grimmari fram á við. ,,þetta er of varnarsinnað," sagði gamli hafsentinn Benni Gumm. ,,Ég er hræddur um að okkur verið refsað í síðari hálfleik." Það eru færri sem vita en Benni hóf feril sinn í yngri flokkum sem senter. Hann skoraði meðal annars sigurmark Breiðabliks gegn KA í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitil í 4. flokki 29. ágúst 1975. Benni þekkir því leyndardóma varnar- og sóknarleiks út í ystu æsar.

Og Benni hafði rétt fyrir sér. Á 57. mínútu skall fyrsta ógæfan yfir. Eftir hornspyrnu og klafs í teignum skoraði Vaduzliðið fyrsta mark leiksins. Og ekki batnaði staðan á 79. mínútu þegar heimapiltar bættu við öðru marki. Þá var loksins eins og Blikaliðið vaknaði upp við vondan draum. Thomas fékk gullið tækifæri til að minnka muninn en skaut framhjá úr upplögðu færi. Aron, Gísli og Þórir komu inn á til að herða sóknina og það skilaði marki frá Höskuldi á 90. mínútu. En þrátt fyrir að eitt mark til viðbótar hefði fleytt okkur áfram var tíminn of knappur. Við þurftum því að bíta í það súra epli að detta út í fyrstu umferð Evrópukeppninnar árið 2019.

Það er auðvelt að vera vitur eftirá en auðvitað hefði eitt mark frá okkur á heimavelli komið okkur áfram. Þjálfararnir lögðu upp með mjög varfærið kerfi og það gekk ekki upp að þessu sinni. Það var ekki fyrr en skipt var í 3-5-2 kerfi að sóknarþunginn jókst. En of seint og of lítið.

Blikaliðið getur hins vegar verið nokkuð stolt af þessum tveimur leikjum. Vaduz er hörkufótboltalið og með smá heppni hefðum við getað komist áfram. En það gerðist ekki og þessi keppni fer í reynslubankann.

Nú snúum við okkur að næsta leik sem er gegn Grindvíkingum á Kópavogsvelli á mánudaginn. Suðurnesjapiltarnir hafa komið upp öflugum varnarvegg sem við verðum að finna leið fram hjá. Ekkert lið í deildinni hefur fengið á sig færri mörk í ár og nú þurfa sóknarmenn okkar heldur betur að reima á sig markaskóna eftir frekar dapra frammistöðu í síðustu leikjum.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

-AP

Til baka