BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Evrópudraumur á enda í bili !

22.09.2013

Loft var lævi blandið á teppinu sunnan við Hraunsholtslæk í Garðabæ, þegar Blikar mættu heimamönnum. Blikum dugði ekkert minna en sigur til að halda evrópudraumnum á lífi en heimamönnum dugði eitt stig til að tryggja sig í evrópukeppninni. Undanfarin ár hafa þessi lið háð nokkra hildi í lokaumferðum efstu deildar og það þarf ekki að rifja upp að jafnan hefur mikið legið undir. Það var því allt hráefni til staðar í hörkuleik. Guðjón Pétur var í leikbanni og Andri Rafn kom því inn í byrjunarlið. Að öðru leyti var liðið eins og á móti KR s.l. fimmtudag.

Byrjunarliðið okkar var þannig skipað;

Gunnleifur (M)
Gísli Páll - Sverrir Ingi - Elfar Freyr- Kristinn J
Þórður Steinar - Finnur (F) - Andri Rafn - Tómas Óli
Árni Vill - Ellert

Varamenn voru;
Arnór Bjarki Hafsteinsson (M)
Olgeir Sigurgeirsson
Elfar Árni Aðalsteinsson
Jökull I. Elísabetarson
Arnar Már Björgvinsson
Renée Troost
Viggó Kristjánsson

Sjúkralisti;  Rafn Andri Haraldsson – Nichlas Rohde

Leikbann ; Guðjón Pétur

Veðurguðirnir voru í sannkölluðu hátíðarskapi í dag og veðrið var eiginlega svo gott að enginn var neitt að spá í það. Þá er það gott. Bjartviðri með hægri norðanátt og 12°C hita. Raki 75 % og skyggni eins langt og augað eygði. Völlurinn eins og hann er, og örugglega betri en sumir sem við höfum leikið á í sumar. En það skal tekið fram að grasvellirnir hafa flestir verið framúrskarandi góðir í sumar þegar tekið er með í reikninginn að tíðarfarið hefur verið sérlega erfitt. Þetta er ekki síst því að þakka að hér hefur safnast saman á undanförnum árum mikil þekking á vallarumhirðu og með aukinni menntun og þekkingu vallarstarfsmanna hafa vinnubrögðin orðið markvissari. Alveg sama hvað þröng- og skammsýnir hrópa ( og nóg er af því liði) . Mennt er máttur. Líka grasafræði.
Þetta sést m.a. vel þegar sýndar eru gamlar – og reyndar ekki svo gamlar - upptökur frá leikjum í efstu deild. Við þurfum ekki að fara mjög langt aftur í tíma til að sjá framfarirnar.

Blikar hófu leikinn af krafti og eftir 10. mínútna leik söng boltinn í neti heimamanna eftir þrumuskot Tómasar Óla. Staðan 0-1 Blikum í vil og stuðningsmennirnir, sem voru margir í dag og studdu liðið af allnokkrum krafti, voru alsælir með kröftuga byrjun. Heimamenn voru hálflamaðir næstu mínúturnar og okkar menn fengu sénsa til að bæta við marki en voru ekki alveg nógu einbeittir í teignum. Það átti eftir að koma okkur í koll því Stjörnumenn rönkuðu smám saman úr rotinu og áður en varði voru þeir búnir að setja á okkur 3 mörk. Ekkert skal tekið af heimamönnum með að þeir gerðu vel í öllum mörkunum en við vorum með eindæmum seinheppnir og klaufalegir í varnarleiknum þessar 15 mínútur sem þetta tók. Við fengum svo sem líka okkar færi og í stöðunni 2-1 fengum við sannkallað dauðafæri, en fyrirgjöf Kristins rann aftan við alla sóknarmenn okkar sem voru komnir í teiginn. Þar fórum við mjög illa með gott færi og flotta sókn.

Staðan í hálfleik því 3-1, heimamönnum í vil og ljóst að róðurinn í seinni hálfleik gæti orðið þungur. Ekki bætti úr skák að mikið ósamræmi var hjá slökum dómara leiksins og komust heimamenn ítrekað upp með brot á okkar mönnum. Sérstaklega brutu þeir oft á Andra og virtust með leyfi til að keyra hann niður í hvert sinn er hann fékk boltann, án þess að við því væri brugðist. Stuðningsmenn Blika voru mjög óhressir með þetta. Hann var reyndar skömminni skárri í seinni hálfleik, en fjarri því góður. Því miður.

Ólafur Helgi gerði tvær breytingar í hálfleik. Viggó og Elfar Árni komu inn fyrir Þórð Steinar og Ellert. Elfari Árna var MJÖG vel fagnað af stuðningsmönnum Blika þegar hann kom inná í sínum fyrsta leik eftir að hann varð fyrir meiðslunum gegn KR á dögunum.

Blikar hófu seinni hálfleik af krafti og eftir tvær mínútur lá boltinn í netinu hjá heimamönnum þegar Árni Vilhjálmsson skoraði með góðum skalla eftir hornspyrnu (annan leikinn í röð). Munurinn þar með orðinn eitt mark og enn var von. Í kjölfarið náðu okkar menn kröftugum kafla og gerðu harða hríð að marki heimamanna. Sverrir átti hörkuskalla sem varinn var á línu – en ljósmyndari sem var við endalínuna segir að boltinn hafi farið inn fyrir línuna eins og leikmenn okkar voru sannfærðir um. Dómari og aðstoðardómari voru ekki 100% vissir og því var mark ekki dæmt. Manni finnst það nú heldur skynsamlegra ráð heldur en það sem brugðið var á í leik okkar á skaganum um daginn, þegar aðstoðardómarinn beið ekki boðanna með að dæma ómark mark. Og lá svo mikið á að lá við slysi. Menn verða að vera vissir.

Núnú, skömmu síðar fékk svo Elfar Árni upplagt færi eftir góðan undirbúning Sverris, en hann mokaði honum yfir markið. Og inn vildi boltinn ekki. Sama hvað menn ólmuðust og hömuðust. Smám saman færðu okkar menn sig framar og fóru að taka meiri sénsa fram á við en fengu þá nokkrar skyndisóknir í andlitið og má segja að heimamenn hafi verið klaufar að auka ekki muninn í tvígang a.m.k. Leikurinn fjaraði svo smám saman út og þó Ólafur Helgi gerði eina skiptingu enn og setti Olgeir inná í stað Kristins J þá dugði það ekki til og undir lokin var hlaupin hálgerð örvænting í okkar menn. Okkur vantaði markið til jafna leikinn og hleypa öllu í ál og brand.
3-2 varð því niðurstaðan og það var ekki alveg það sem við óskuðum okkur. Evrópusætið er runnið okkur úr greipum og það eru náttúrulega vonbrigði fyrir leikmennina og alla Blika. Evrópuævintýrið okkar í sumar var skemmtilegt og ljóst að við þurfum að bíða aðeins áður en við endurtökum þann leik og gerum jafnvel enn betur.

Blikar eiga nú einn leik eftir í PEPSI deildinni 2013. Hann verður n.k. laugardag á heimavelli gegn Keflvíkingum og nú verða leikmenn að gera öllum þann greiða að klára mótið á jákvæðum nótum og með sigri. Það skiptir máli fyrir leikmennina og stuðningsmennina, alveg eins og hjá hundinum, að enda þetta á jákvæðum nótum.

Annállinn verður ekki skrifaður fyrr en að þeim leik loknum og þá verður talið upp úr pokanum. Ekki fyrr!


Áfram Breiðablik !

OWK

Til baka