BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Esjuferð Grýlu – ef hún var þá til

23.06.2022 image

Fjölmiðlar spurðu fyrir leik kvöldsins á Kópavogsvelli hvort Blikar myndu kveða KR-Grýluna í kútinn. Síðasta liðið til að vinna Breiðablik í Smáranum var einmitt gamla Vesturbæjarstórveldið. Það var eftirminnilegur leikur í fyrra – en miður skemmtilegur. Þá mættu KR-ingar okkar mönnum af hörku og gáfu þeim engin færi á að spila sinn leik. Staðan var orðin 2-0 áður en við var litið. Í fyrri leik liðanna í Bestu deildinni í vor unnu okkar menn frægan sigur á svokölluðum Meistaravöllum. Þar spiluðu þeir allt öðruvísi en þeir eru vanir. Á hverju máttum við eiga von í kvöld? Léttleikandi Blikum eða varfærnum varnarleik? Var Grýla enn á kreiki? Eða var hún kannski aldrei til?

Damir var í banni út af fjölda gulra spjalda og Mikkel Qvist leysti hann af hólmi í vörninni. Viktor Örn var hægra megin en Qvist vinstra megin. Fróðir menn töldu að Daninn öflugi hefði alls spilað eina mínútu í sumar. Mögulega tvær. Var þarna kominn veiki hlekkurinn sem gestirnir myndu herja á? Að öðru leyti var liðið þannig skipað:

image

Ég þekki Grýlu ...

KR-ingar létu unga og spræka leikmenn byrja í stað eldri og reyndari. Það átti bersýnilega að pressa heimamenn uppi í harða landi – undan norðan gjólunni sem var í kaldara lagi fyrir þennan árstíma.

Og gestirnir byrjuðu af krafti. Eftir tvær mínútur áttu þeir hættulega sókn sem endaði í horni. Það mátti kannski segja að Grýla væri að sýna klærnar. „Ég þekki Grýlu og ég hef hana séð“, orti Stefán Ólafsson forðum. En við eigum okkar svar við því. Leifur Hauksson, borinn og barnfæddur Kópavogsbúi, sem lést fyrir skömmu, söng með Hrekkjusvínum lag þeirra Valgeirs Guðjónssonar við texta Péturs Gunnarssonar: „Nú er hún Grýla dauð / hún gafst upp á að róla sér á róluvöllunum.“ Enda var Ísak Snær fljótur að svara sókn gestanna tveimur mínútum síðar með þrumuskoti í þverslá eftir einleik Höskuldar. Mínútu síðar reyndu KR-ingar að skora frá miðju en Anton Ari varði auðveldlega. Ísak var að bragði kominn einn í gegn en var tekinn niður. Finnur Tómas fékk gult spjald en öllum réttsýnum mönnum í stúkunni fannst að það hefði mátt vera rautt.

Ætlaði sú gamla ekki að gefast upp á rólunum?

KR-ingar reyndu að kæfa allar sóknir Blika í fæðingu með því sem kallað var forðum daga lúmskt atvinnumannatudd, sem kennt var við Tony Knapp, þjálfara þeirra á áttunda áratug síðustu aldar. Þeir hafa greinilega engu gleymt í þeim efnum en um leið og Blikum tókst að snúa gestina af sér í uppspilinu var fjandinn laus.

Það var þó ekkert í hendi. Oliver átti slæma sendingu þegar 10 mínútur stóðu á klukkunni en gestirnir skutu framhjá. Aftur reyndu KR-ingar að skora af löngu færi yfir Anton en án árangurs, þeir áttu skalla eftir horn sem Anton varði. Var enn lífsmark með Grýlu? Gafst hún ekkert upp á að róla sér á róluvöllunum? Var hún til víðar en í leiðurum blaða til að hræða fólk frá hærri og meiri kaupkröfum?

Tíðindamaður Blikar.is var að velta þessu fyrir sér þegar varnarmaður gestanna átti afar fallega sendingu – sem líklega var þó ekki samkvæmt áætlun – beint á Jason Daða á miðjum vallarhelmingi KR. Hann tók á rás og gerði engin mistök, laumaði boltanum fallega á Viktor Karl sem skoraði glæsilega. 1-0.

Litla hryllingsbúðin

Enn var smá lífsmark í þeirri gömlu með kinnabeinin kolgrá og kjaftinn eins og tík, hún er sig svo ófríð og illilega með ... Okkar gamli félagi, Atli Sigurjónsson, átti skot sem endaði í horni. Qvist var óþarflega rólegur á boltanum inni í teig en slapp með skrekkinn, Oliver bjargaði í horn og jú – gestirnir sköpuðu hættu með hornspyrnum sínum. Því er ekki að leyna.

Nema hvað. Þegar innan við tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik barst boltinn inn í teig KR. Varnarmaður og Beitir markmaður hlupu eins og tvær eimreiðar á eftir knettinum og töldu sig líklega vera í allgóðum málum. En þá sást Ísak Snær allt í einu úti við sjóndeildarhring á sannkallaðri hraðferð.

Líklega hugsaði Beitir markvörður þá, þar sem hann henti sér í örvæntingu af fullum skriðþunga í áttina að knettinum með fæturna á undan, til Leifs heitins Haukssonar þegar hann söng forðum í Litlu hryllingsbúðinni: „Þá birtist Baldur / bak við þig stendur“ – nema Ísak Snær var allt í einu fyrir framan hann, ekki aftan. Og það sem blasti við Beiti var ekki Baldur eða Ísak Snær að brosa við honum „með blíðu og skilning / sem vinur i raun.“ Þetta gat bara endað á einn veg. Eimreið stöðvast ekki á punktinum. Niðurstaðan varð fólskulegt brot á Ísaki og ekkert annað í stöðunni fyrir dómarann en að dæma víti sem Höskuldur skoraði úr af öryggi. 2-0.

Fuglahræða, flibbanaut

Eftir þetta var allur vindur úr gestunum – í nöprum norðangarranum.

Þeir voru líklega manna fegnastir að komast inn í hlýjuna undir stúkunni þegar flautað var til hálfleiks.

Ég velti fyrir mér hvað Rúnar Kristinsson sagði við sína menn í leikhléi. Hann hefur varla verið ánægður með frammistöðuna. Ég efast þó um að hann hafi spurt þá í forundran eins og í lagi Leifs Haukssonar: „Hvað ætlar þú að verða væni / voða ertu orðinn stór ...“ og ýjað að því að þeir ættu kannski að leggja eitthvað annað fyrir sig en knattspyrnu. Enn síður hafa leikmennirnir svarað:

Almáttugur en sú mæða
ég get ekki svarað því
ferðalangur, fuglahræða
flibbanaut í sumarfrí.
Hvað sem því líður er ljóst að hálfleiksræða þessa goðsagnakennda leikmanns og þjálfara hefur varla verið inspírerandi því að Blikar tóku öll völd á vellinum eftir hlé. Það voru að vísu ellefu úr liði gestanna á teppinu en þeir létu lítið fyrir sér fara.

Náðarhöggið

Fjölmargir áhorfendur á vellinum voru varla sestir þegar Jason Daði var kominn einn í gegn en það var bjargað í horn. Dagur Dan skaut góðu skoti að marki upp úr hornspyrnunni. Litlu síðar átti Gísli stórkostlega blindsendingu út á kant á Jason Daða sem komst einn í gegn en Beitir varði vel. Dagur Dan komst í gegn. Markspyrna.

Með öðrum orðum. Það var í raun bara eitt lið á vellinum. „Grýla, fýla, appelsína,“ eins og segir í lagi Leifs heitins.

Þá kom náðarhöggið. Mikkel Qvist kórónaði góðan leik sinn með skalla að marki eftir hornspyrnu og þar var að sjálfsögðu mættur Ísak Snær sem djöflaði boltanum í netið í annarri tilraun. 3-0.

Tíðindamaður Blikar.is var enn að dást að þessu harðfylgi Ísaks Snæs og velta fyrir sér stöðu Grýlu gömlu í veröldinni þegar okkar menn fengu að leika sér óáreittir í teig gestanna. KR-ingarnir virtust algjörlega ráðalausir og niðurstaðan varð sú að Ísak sendi á Jason Daða sem skaut milli fóta varnarmanns og í netið. 4-0.

Grýla gamla er steindauð

Nokkrum mínútum síðar gerðust þau undur og stórmerki að Atli Sigurjónsson átti sendingu inn fyrir vörn heimamanna, Kennie Chopart var einn á móti Antoni Ara en virtist vera með hugann við dapurleg örlög KR-Grýlunnar því að skotið var máttlaust og skapaði enga hættu. Þá voru 20 mínútur liðnar af seinni hálfleik. Það súmmerar eiginlega upp frammistöðu gestanna.

Hafi KR-Grýlan gamla verið til þá er hún núna steindauð og Leppalúði líka. Hún flaug um loftin blá á móti norðanþræsingnum í kvöld og lenti upp á Esju. Fyrir utan kannski fyrstu mínútur leiksins fóru okkar menn með öll völd á vellinum, spiluðu listavel saman og héldu gestunum algjörlega niðri fyrir utan upphafsmínúturnar. Eftir fyrsta markið var sigurinn aldrei í hættu. Þetta var í raun hálfgerð Hryllingsbúð fyrir gestina en sigurhátíð sæl og blíð fyrir okkar menn.

Framundan er áframhaldandi veisla. Bikarleikur á móti ÍA á mánudagskvöldið uppi á Skaga. Þeir eru sýnd veiði en ekki gefin. Það verður eitthvað.

PMÓ

Myndaveisla - Hulda Margrét ljósmyndari

Klippur úr leiknum í boði BlikarTV:

image

Til baka