BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Erfitt kvöld í Gent

27.10.2023 image

Blikar urðu að játa sig sigraða 5:0 gegn sterku liði Gent frá Belgíu í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu í gærkvöldi. Sigur Belgana var öruggur og leikurinn var í raun búinn eftir rúmlega 20 mínútur. Þá var staðan orðin 3:0 og brúnin farin að þyngjast á Blikum austantjalds og vestan. Við byrjuðum reyndar ágætlega og skömmu áður en fyrsta mark heimadrengja kom þá áttum við ágætis færi en Viktor Örn sendi þá knöttinn hárfínt framhjá eftir góðan undirbúning Jasonar Daða.

Ljóst er að belgíska liðið er það sterkasta í riðlinum og því er engin skömm að tapa gegn slíku liði. En mörkin sem Blikaliðið fékk á sig voru í ódýrari kantinum. Til að eiga möguleika gegn svona liði þá verðum við loka betur svæðum og dekka betur í fyrirgjöfum og föstum leikatriðum.  Einnig þurfum við að eiga nánast gallalausan leik en því miður var það ekki raunin í þessum leik.

Til að bæta gráu ofan á svart lét Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði, markvörð Belganna verja frá sér víti rétt fyrir leikslok. Þá tuldraði einn Blikinn í stúkunni frægt erindi Bjarna Thorarensen úr kvæðinu

,,Eftirmæli“

Íslands

óhamingju verður allt að vopni!

eldur úr iðrum þess,

ár úr fjöllum

breiðum byggðum eyða!

Það þýðir hins vegar ekkert að gleyma sér í bölsýninni. Það sáust til dæmis liprir taktar af og til hjá Blikaliðinu. Jason Daði var frískur á kantinum og Anton Logi sýndi það og sannaði að hann er einn efnilegasti leikmaður á Íslandi í dag. Menn læra af þessu, koma kraftmiklir í næsta leik sem er akkúrat á heimavelli gegn Gent. Þá sýnum við Belgunum hvar Davíð keypti ölið!

Stuðningsmenn Blikaliðsins voru landi sínu og þjóð til sóma. Rúmlega 100 grænir mættu á leikinn og létu vel í sér heyra. Jafnvel þegar staðan var orðin svört þá héldu stuðningsmennirnir áfram að hvetja okkar drengi áfram. Einnig verður að hrósa verður forsvarsmönnum knattspyrnudeildar Breiðabliks að útvega stuðningsmönnum góð sæti í stúkunni. Yfirleitt er stuðningsmönnum aðkomuliða troðið í lítið horn í suð-vestur hluta hins glæsilega Ghelamco Arena. En þar sem Belgarnir vissu að stuðningsmenn Blikar eru flestir sauðmeinlausir fengu allir grænklæddir sæti á besta stað við hliðarlínuna. Takk Breiðablik og Gent!

Það vakti athygli stuðningsmanna Blika að á 53. mínútu leiksins birtust skyndilega mörg lítil ljós hjá stuðningsmönnum Gent liðsins í stúkunni. En ástæðan fyrir því er að söngvarinn ástsæli Luc de Vos lést árið 2014 einungis 53 ára að aldri. En Luc var fæddur og uppalinn í Gent og er enn í miklum metum hjá stuðningsmönnum heimliðsins. Flestir muna eftir Luc sem söngvara hljómsveitarinnar Gorki en þeir eru þekktastir fyrir költ lagið ,,Mia

Næsti leikur Blikaliðsins er gegn Gent á Laugardalsvelli fimmtudagskvöldið 9. nóvember kl.20.00. Þar ætla allir sannir Blikar að mæta og styðja okkar drengi til dáða. Við getum lofað að þar verður fjör!

-AP

image

Hákon Sverris að fræða stuðningsmenn Blika í Belgíu um hvernig Breiðablik er að nálgast leikinn

Til baka