BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Umfjöllun: Ennþá séns í Evrópu!

12.07.2019

Hlutirnir hafa ekki alveg verið að ganga eins og maður hefur viljað hjá okkar mönnum og því var kærkomið að fá tilbreytingu. Evrópukvöld á Kópavogsvelli, við eigum að vera virkilega ánægð með að fá þessa leiki í Kópvoginn. Það eu bara bestu lið landsins sem fá að taka þátt. Það var reynt að gíra allt í gang, kveikt á fljóðljósum, nýr búningur sem er nota bene mög flottur.

Mótherjarnir voru Vaduz frá Liechtenstein en Vaduz er Höfuðborgin og það búa um 40.000 manns í Liechtenstein. Kjörorð þeirra eru, fyrir Guð, Fursta og föðurland. Ég veit ekki fyrir hvern þeir voru að spila í kvöld en Blikar eiga að geta unnið þetta lið nema Furstinn láti til sín taka úti í seinni leiknum. Ég var amk á köflum á því í kvöld að Furstinn væri að dæma þennan leik slík var frammistaðan hjá dómaranum en sá svo að það var Nikola Popov, strákur frá Búlgaríu. Veit ekki mikið um hann nema að hann má fara að leggja flautuna á hilluna.

Uppstillingin leit vel út hjá Gústa og co, Gulli í markinu, 4 manna varnarlína sem samanstóð af Damir, Elfari, Arnari og Viktori, Gaui og Andri voru djúpir á miðjunni, Gísli, Kolli og Höggi þar fyrir framan og Thomas uppi á topp. Klárt mál að ég var spenntur fyrir þessari uppstillingu.

UEFA leikskýrsla

Í stuttu máli þá gerðist ekkert í fyrri hálfleik, eða þannig. Bæði lið að átta sig og Blikar ætluðu ekki að hleypa inn útivallarmarki hjá Vadus. Það sást langar leiðir. Vadus reyndu langar sendingar inn fyrir en voru ítrekað rangstæðir og Elli Helga var oft á tíðum mikilvægur í því að stoppa þá. Blikar hefðu svosem alveg geta lætt inn marki úr föstu leikatriði og Elli hefði kannski getað hitt hann betur en þetta datt ekki með okkur. Gulli varði svo vel þegar framherjinn Cicek slapp einn í gegn.

Ég viðurkenni fúslega að það hefði verið þakklátt að fá seinni leikinn á okkar heimavelli, þessi 2 leikja einvígi gera það að verkum að fyrri leikurinn verður stundum spes. Bæði lið gefa lítil færi á sér og verið að passa upp á að gera ekki mistök. Þessi leikur einkenndist af því.

Seinni hálfleikur var áfram eins, bæði lið að passa sig á því að fá ekki á sig mark. Thomas fékk úr litlu að moða, Gústi gerði breytingar en lítið breyttist. Blikar voru heppnir þegar Vaduz menn náðu skalla í slá og út sem betur fer. Leikurinn kláraðist og 0-0 var niðurstaðan, það kom engum á óvart.

Pirruðu stuðningsmenn Breiðabliks voru fúlir yfir andleysi og framtaksleysi liðsins á meðan að endurskoðendurnir og verkfræðingarnir, þessari spakari voru sáttir með leikinn. Enda ennþá bullandi séns hjá Blikum að komast áfram og liðið fékk ekki á sig útivallarmarkið. Má alveg færa rök fyrir því að Blikar séu í bestu málum af þeim íslensku liðum sem hafa spilað sína Evrópuleiki.

Það er amk svo að sénsinn er til staðar, kannski var það ylvolgi dósabjórinn í betri stofunni sem fór svona illa í suma stuðningsmenn eða þá menn eru ekki enn búnir að jafna sig á HK skitunni. Hinsvegar var það svo að þegar leiknum lauk þá sá maður að leikmenn voru sáttir, þeir vita að þeir geta vel unnið þetta lið úti í Liechtenstein. Skiptir engu máli hvort að Vadus spili fyrir Guð, Furstann eða föðurlandið.

Ef að Blikarnir spila fyrir hvorn annan eins og maður hefur séð þá gera marg oft í sumar þá fáum við annan séns á alvöru stemmningu og öðrum Evrópuleik. Pössum þá upp á að kæla bjórinn vel, mynda stemmningu saman, nálgast mótherjana af virðingu og hvetja okkar menn áfram.

Annars var Andri Rafn Yeoman valinn maður leiksins en með þessum leik þá varð hann leikjahæsti leikmaður Mflk hjá Breiðabliki með 322 mótsleikileiki. Þessi magnaði leikmaður alltaf verið í uppáhaldi hjá undirrituðum, alveg síðan 2009 þegar hann spilaði sína fyrstu leiki. Alvöru Bliki sem vinnur vanþakklátt starf og er ekki að kíkja yfir lækinn í leit að grænna grasi heldur skilar alltaf sínu. Ef við ættum fleiri eins og hann þá ætti enginn séns í okkur, megir þú vera sem lengst í græna búningum Andri Rafn Yeoman!

KIG

Umfjallanir og skýrslur netmiðla

Myndaveisla í boði BlikarTV

Til baka