BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Enn malar kötturinn…

29.07.2013

Blikar léku enn einn ,,úrslitaleikinn“ á þessu ári í dag er þeir mættu Eyjapeyjum í PEPSI deildinni. Bæði lið léku í vikunni í Evrópudeildinni þar sem hlutskipti þeirra var þó nokkuð ólíkt því Eyjamenn félllu út með sæmd og eftir markalaust jafntefli á heimavelli við Rauðu Stjörnuna frá Serbíu á meðan Blikar fóru magnaða frægðarför og börðu á tröllum í heimalandi Metternichs fursta sem Gröndal getur í Heljarslóðarorrustu. Makalaus maður Metternich.
Ólafur Helgi stjórnaði Blikum í dag í sínum 250. leik og til hátíðarbrigða gerði hann nokkrar breytingar á liðinu, aldrei þessu vant. Nú fengu Kristinn Jóns, Elfar Árni , Nichlas og Tómas Óli að hvíla og í þeirra stað komu Viggó, Guðjón Pétur, Árni Vill og Elvar Páll Sigurðsson, sem nú hefur verið kallaður inn í liðið, en hann hefur verið á láni hjá Tindastól í sumar. Elvar er Blikum að góðu kunnur enda alinn upp í dalnum græna og fagra og hefur leikið með Blikum í öllum yngri flokkum. Vanur maður þar á ferð og hann mun spila með Blikum uns hann heldur utan í haust til að leggja lokahönd á nám sitt í Obamalandi.

Byrjunarliðið okkar var því þannig skipað;

Gunnleifur
Viggó - Sverrir Ingi – Renée - Þórður Steinar
Elvar Páll - Andri Yeoman - Finnur Orri (F) - Ellert
Árni Vill - Guðjón Pétur.

Varamenn voru;
Arnór Bjarki Hafsteinsson (M)
Kristinn Jónsson
Elfar Árni Aðalsteinsson
Nichlas Rohde
Olgeir Sigurgeirsson
Jökull I Elísabetarsom
Páll Olgeir Þorsteinssn

Sjúkralisti;  Gísli Páll Helgason – Rafn Andri Haraldsson

Leikbann; ()

Leikskýrsla

Eins og fyrri daginn var blíðuveður á Kópavogsvelli í dag, og flottar aðstæður. Logn var veðurs og hiti um 15°C  Völlurinn iðagrænn og búið að bleyta vel í honum af mannavöldum, sem þegar til kom reyndist óþarfi því meðan á leik stóð rigndi lengst af bæði hnífum og göfflum í lóðréttu úrhelli. Ef blessað þakið hefði ekki verið komið á stúkuna hefði sennilega ekki veitt af stríðsrosabullunum sem Napóleon hafði á fótunum hér forðum gerðar úr húð tröllkonu þeirrar sem Napóleon drap á Heiðarskógi,  skv. Gröndal og; ,,..þær náðu honum upp í klof og brökuðu svo hátt, að heyrðist suður í Róm..” Slík var rigningin.

En mikið fara í taugar undirritaðs þessar kerrur og dót sem geymt er við hlið bláu skúranna við norðausturenda vallarins.  Er hér með skorað á vallaryfirvöld að koma skikk á þetta kerrrurugl og láta fela þær á meðan leikir eru á vellinum. Nóg pláss fyrir þær annarsstaðar.

Fyrir leik voru heiðursgestir kynntir og áhorfendur klöppuðu vel og lengi þeim til heiðurs. En heiðursgestir voru, eins og áður hefur verið getið bræðurnir Einar, Hinrik og Þórarinn Þórhallssýnir. Þessa bræður þekkja allir Blikar sem komnir eru til vits og nokkurra ára. Sjálfir léku þeir allir með meistaraflokki okkar Blika og foreldar þeirra bræðra, Hulda Pétursdóttir og Þórhallur Einarsson voru áratugum saman meðal dyggustu stuðningsmanna Breiðabliks og settu sterkan svip á mannlíf í Kópavogi um áratugaskeið.

Blikar hófu leikinn af krafti og voru fullir sjálfstraust í upphafi leiks. Það kom þó ekki í veg fyrir að okkar menn þyrftu að hirða boltann úr netinu eftir aðein fjögurra mínútna leik. Blikar voru nýbúnir að eiga efnilega sókn og önnur var í uppsiglingu þegar við töpuðum boltanum. Eyjamenn einhentu sér í skyndisókn og æddu upp vinstri kantinn og þessi sem var alltaf með hárbandið, en er nú kominn með tagl í staðinn !!, lék á varnarmann við vítateig og komst inn að markteigshorninu við endalínu þaðan sem hann sendi boltann á miðvörðinn Eiða Aron og sá skoraði af yfirvegun án þess Blikar fengju rönd við reist. Það er eiginlega hvorki hægt að segja að þetta hafi verið samkvæmt eða gegn gangi leiksins, því hann var varla hafinn. Staðan engu að síður orðin vænleg fyrir gestina. En Blikar létu þetta ekki slá sig út af lagi og sóttu linnulítið næstu mínúturnar og voru nánast með boltann samfellt allt þar til þeir jöfnuðu leikinn. Eftir langa sókn þar sem færiði virtist runnið út í sandinn barst boltinn út úr vítateig Eyjamanna til Viggós og hann sendi flotta sending inn að markteig þar sem Árni Vill kom á ferðinni á móti boltanum, með tvo varnarmenn á hælunum, en náði að sneiða boltann niður í grasið þaðan sem hann svo spýttist í bláhornið. Óverjandi fyrir markvörð Eyjamanna. Vel gert hjá Blikum og þeir búnir að jafna verðskuldað, 1-1.
Miðað við hraðann í leiknum (og vallaraðstæður) fannst mönnum ólíklegt að að þetta yrði síðasta mark leiksins. Liðin skiptust nú á að sækja án þess að skapa sér opin færi, en litlu munaði að Blikar færðu gestunum mark á silfurfati á 18. mínútu þegar sending til baka mistókst illilega. Eyjamaðurinn með taglið virtist ætla að gera ser mat úr þessu og ná boltanum á undan Gunnleifi sem var kominn langt út úr vítateignum. En eitthvað truflaði hann, því í stað þess að standa í lappirnar og reyna að klára færið, sem var innan seilingar, virtist hann henda sér niður og ætla að fiska Gunnleif útaf.  Hafi það verið ætlunin var það sannarlega óþokkabragð, en ég efast reyndar um að sú hafi verið raunin og sennilega mat Þorvaldur dómari það rétt að honum hafi hreinlega orðið fótaskortur, eða þá hann hafi stigið á teygjuna. En það var ekki tími til að velta þessu lengi fyrir sér því nú geystust Blikar í sókn sem lauk með því að gestirnir neyddust til að setja boltann í horn. Blikar fjölmenntu inn í vítateiginn og Guðjón sendi boltann yfir á markteigshornið fjær, þar sem Sverrir stökk manna hæst og skallaði boltann inn að markinu. Þar kom Ellert á fleygiferð og klíndi boltann í hornið með kollinum. En í sömu mund fékk hann einn á snúðinn, (sjáum það kannski betur í PEPSI á morgun) og lá óvígur eftir. Blikar stumruðu lengi yfir Ellert og fóru með bænirnar á meðan áhorfendur fögnuðu markinu. Og líkt og í sögunni af Lazarus forðum voru menn bænheyrðir og á lappir fór Ellert og gekk óstuddur. Allt að því kraftaverk. Blikar náðu ágætum tökum á leiknum eftir þetta næstu 10-15 mínúturnar og bæði lið gerðu heiðarlegar tilraunir til að bæta við mörkum en hvorugu tókst það. Guðjón Pétur átti hörkuskot sem gamla landsliðskempan enska átti í mesta basli með og minnstu munaði að Árni bætti öðru marki við eftir góða skyndisókn okkar manna en herslumun vantaði að hann næði til knattarins. Eyjamenn sköpuðu einna helst hættu í föstum leikatriðum þegar þeir reyndu að senda á Gunnar Má en okkar menn réðu ágætlega við hann í flestum tilvikum og í eina skiptið sem það tókst ekki alveg var Gunnleifur vel á verði. Enn jókst rigningin eftir því sem leið á leikinn og það gerði mönnum heldur erfiðara fyrir en ella að ná góðum samleik. Bæði lið reyndu hvað þau gátu.

Staðan í hálfleik því 2-1 Blikum í vil og það var staða sem var vel ásættanleg eftir að hafa lent undir í byrjun leiks. Hálfleikskaffið rann því mun ljúflegar niður en ella og bakkelsið sömuleiðis. Stuðningsmennirnir voru kátir með stöðuna og einhverjir sögðu að þetta væri öruggt. Liðið væri orðið eins og vel smurð dísilmaskína og Eyjamenn myndu ekki hafa roð við okkar mönnum í seinni hálfeik. Nóg breidd greinilega í hópnum og Elvar Páll flott viðbót.

En hvar var allt fólkið? Blikar í bullandi baráttu á öllum vígstöðum og fólk bara að dúlla sér. Langt innan við þúsund Blikar á vellinum. Við verðum að gera betur í mætingunni á völlinn og það er hárétt sem Hermann Hreiðarsson benti á í viðtölum nú að leik loknum. Það var algert stemmningsleysi  á vellinum. Minnti helst á fermingarveislu. Glöggt er gests augaða.
Þetta þurfa stjórn og Blikaklúbburinn og fleiri að taka til gagngerrar athugunar í snatri. Við þurfum að ná í fleira fólk og meiri stemmningu. Þetta er varla boðlegt fyrir alvöru lið. Stákarnir þurfa meiri stuðning og eiga hann sannarlega skilið. Orðið er laust um þetta mál og þeir sem vilja tjá sig mega gjarnan gera það á FB síðunni Breiðabliksstuðningsmenn - Grænir í gegn Rífum upp stemminguna !!

Eyjamenn hófu seinni hálfleikinn af heldur meiri krafti en okkar menn, sem lágu aðeins til baka. Marktækifærin létu hinsvegar á sér standa og það var ekki fyrr en eftir c.a. 10 mínútur sem liðin áttu sitt hvora marktilraunina sem eitthvað kvað að. Fyrst komust Eyjamenn í þokkalegt færi en Gunnleifur var vel á verði og bjargði í horn. Skömmu síðar komst Ellert í ágætt færi en skot hans fór naumlega framhjá markinu. Næstu mínútur voru menn svo að fleyta kellingar um allan völl og slasa sig enda baráttan í fyrirrúmi og ekkert gefið eftir. Á tímabili lágu 3 eða 4 á valnum en allr risu á fætur aftur, mislemstraðir.  Þjálfarar fóru nú að huga að skiptingum og Ólafur Helgi skipti Nichlas og Elfari Árna inn í stað Ellerts og Árna Vill á 64. mínútu. Ellert og Árni voru báðir búnir að skora, auk þess að standa í ströngu og þiggja marga pústra og hrindingar frá gestunum. Enda orðnir vel marineðarir í grasgrænu. Ekkert sem hin víðfræga Sólskinssápa nær ekki úr.
Og skiptingin var ekki lengi að borga sig því áður en Eyjamenn áttuðu sig voru Blikar búnir að skora 3ja markið. Og það var einmitt téður Nichlas, nýkominn inná, sem skoraði. Því miður sá undirritaður ekki gjörla hver það var sem átti sannkallaði glæsisendingu inn fyrir vörn gestanna, en þeim mun betur hvernig Nichlas stakk sér inn fyrir vörnina lék síðan á einn varnarmann og lagði svo boltann þéttingsfast með vinstri fæti neðst í bláhornið, hægra megin við áðurnefndan fyrrum landsliðmarkvörð enskan. Glæsilega gert hjá okkar mönnum, og sendingin og afgreiðslan eins og handgerðir belgískir konfektmolar. Hnossgæti. Mmmm…. Staðan orðin 3-1 og vandséð að Eyjamenn næðu að jafna úr þessu. (Uppfært; Myndbandsupptökur hafa leitt í ljós að það var að sjálfsögðu Elfar Árni Aðalsteinsson sem átti þessa mögnuðu sendingu).

Kunnur Bliki og stuðningsmaður þeirra rauðu á Anfield orti við þetta tækifæri eftirfarandi örvísu sem er reyndar gáta í grunninn, og fór með hana hátt og snjallt þannig að undir tók í stúkunni: “David James hvað?”  Styttri verða vísurnar ekki og þetta var óvænt atriði, komandi frá þessum aðila. En auðvitað þekkja allir David James, sem er prúðmenni mikið og greinilega hinn vænsti piltur sem hefur sannarlega kryddað íslenska knattspyrnu í sumar. En svarið við gátunni er auðvitað eins og svo oft áður að hann spilar hvorki á gítar.

Blikar gerðu fljótlega eftir þetta sína 3ju og síðustu skiptingu þegar Olgeir kom inn í stað Andra sem hafði orði fyrir hnjaski og var orðinn nett lemstraður. Eyjamenn reyndu hvað þeir gátu til að minnka muninn og dældu háum boltum inn að vítateig en það var allt meira og minna skallað í burtu af okkar mönnum sem vörðust af miklum móð og voru staðráðnir að halda fengnum hlut og innbyrða sigurinn. Þeir sigldu þessu svo svo heim í rólegheitum og af fagmennsku og það bar í raun fátt til tíðinda annað en að Elfar Árni náði sér í frekar heimskulegt spjald þegar hann blakaði boltanum með hendinni nánast undir nasavængjum aðstoðardómara og dómara. Þar bar kappið skynsemina ofurliði og það fyrirgefum við Elfari ef hann lofar að gera þetta aldrei aftur. A.m.k ekki svona augljóst.

Blikar eru nú komnir í bullandi toppbaráttu í PEPSI deildinni og það er að verða ljóst að þetta er að verða keppni fjögurra liða á toppnum. Stjarnan tapaði stigum í kvöld  og við erum nú stigi á eftir þeim og eigum leik gegn þeim til góða. Tvö stig eru í KR, sem hafa tapað fæstum stigum og þrjú í FH sem hafa leikið einum leik meira en við. Valsmenn halda enn í vonina en þeir einfaldlega verða að vinna ÍA á morgun til að eiga raunhæfan möguleika. En þetta kemur náttúrulega allt í ljós í fyllingu tímans. En kötturinn malar mikið þessa dagana. Megi það endast sem lengst.

Blikar halda á þriðjudag í austurveg til að kljást við heimamenn í Aktobe í Kazahkstan. Leikmenn og þjálfarar eru nú komnir á fullt við undirbúning fyrir þann leik og vonandi nær fólk að næra sig vel og hvílast fram að leiknum sem verður n.k. fimmtudag. Blikaklúbburinn stefnir að því að vera með samkomu þar sem öllum Blikum gefst kostur á að fylgjast með leiknum á stóra skjánum í Smáranum en nánari upplýsingar um það verða birtar hér þegar nær dregur og útséð verður með að hægt verði að ná útsendingu frá leiknum.

Sem fyrr væntum við þess að leikmenn og annað föruneyti á vegum félagsins verði landi og þjóð til sóma. Salernispappír er skynsamlegt að hafa með sér að heiman er mér sagt en það ku vera gott skyrið þarna austurfrá og hrossabjúgun lostætt fágæti. Þessa skal þó snætt í hófi og helst ekki fyrir leik. Fengur myndi líka vera í potti af gerjaðri merarmjólk. Það mun vera allra meina bót. En aðalmálið er samt að láta kné fylgja kviði og leggja allt í sölurnar til að ná í góð úrslit. Þá getur þetta orðið skemmtilegt ævintýr.

Áfram Breiðablik !

OWK

Til baka