BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Eins og svart og hvítt – þetta græna

25.04.2022 image

Eins og svart og hvítt – þetta græna

Það var svalur andvari sem bar grilllyktina yfir knattspyrnuvöllinn við Frostskjól í kvöld, þennan völl með grasi með lykt, sem heimamenn höfðu loksins í hitteðfyrra vit á að kenna við götuna norðan við völlinn frekar en sunnan við. Meistaravellir voru vettvangur tilraunar Breiðabliks til að vinna KR í fyrsta skipti frá 2018 og í fyrsta skipti þarna vestur frá í áratug.

Og þetta var svolítið eins og svart og hvítt, munurinn á leikstíl Breiðabliks í fyrsta leiknum og þessum í kvöld og svo á fyrri hálfleiknum og seinni hálfleiknum. Eins og svart og hvítt – en endaði grænt.

Breiðablik var efst í deildinni á stafrófsreglunni en bæði lið unnu fyrstu leikina sína 4-1. Óskar gerði enga breytingu á sínu byrjunarliði frá fyrstu umferðinni og Rúnar KR-þjálfari bara eina vegna meiðsla í hópnum. Svona var okkar lið.

image

Fín byrjun

Fyrri hálfleikurinn fór alveg prýðilega af stað. Blikarnir pressuðu KR-ingana vel, sendingar gengu illa hjá þeim fyrstu mínúturnar og við fengum fimm horn á stuttum tíma snemma leiks. Það kom ekki mikið út úr þeim en það voru allt háar sendingar inn í teiginn þar sem var hvorttveggja meira af kjöti í röndóttu en grænu og það náði hærra upp í loftið. Ekkert ósennileg byrjun en þegar leið á hálfleikinn fór þetta að snúast við.

Af einhverjum ástæðum var ákveðið að Breiðablik skyldi spila eins og KR í þessum hálfleik, langir boltar frekar en að spila boltanum upp. KR-ingar voru talsvert betri í að spila KR-bolta. Þetta þýddi að færslur voru oft komnar af stað þegar menn misstu boltann, oft á miðjunni sem var svolítið gisin, og aftasta línan í bölvuðum vanda með áhlaupin. Hér verður að benda á þá sturluðu staðreynd að bara í fyrri hálfleik voru 14 hornspyrnur (8-6 fyrir KR). Það var sem sagt horn á þriggja mínútna fresti að jafnaði.

Þetta slapp þó til. KR fékk nokkur fín færi og grænir svo sem líka, en 0-0 í hálfleik.

Frábær byrjun á seinni

Síðari hálfleikurinn var bara nokkurra mínútna gamall þegar Gísli sýndi að það var komið aðeins meira blod på tanden. Hann vann boltann framarlega, spilaði á afmælisdreginn Davíð, sem lagði á Kidda, sem setti Ísak inn fyrir, sem smellti honum fyrir á Jason, sem kláraði af miklu öryggi. Ekta Breiðabliksmark. 0-1 og maður trúði varla eigin augum.

Á þessum tíma tók svo við það sem hefur ekki beinlínis verið nærtækt í vopnabúri Breiðabliks síðustu ár; að drepa leiki. Með þéttari miðju, nær 4-4-2 uppstillingu en 4-3-3, fundu KR-ingar enga smugu og áttu ekki færi allan seinni hálfleikinn. Meiri barátta á miðjunni og mátulegri ákafi í pressuna og seinni boltana, meiri fundvísi í fyrstu sendingu og svo framvegis og svo framvegis gerði það verkum og hálfleikirnir voru eins og svart og hvítt. Þessu var einfaldlega siglt heim í Kópavog af fádæma öryggi.

Grýla dauð

„Nú er hún Grýla dauð,“ kvað og söng Kópavogsbúinn Leifur Hauksson á einhverri albestu barna- og fullorðinsplötu sem gefin hefur verið út. Og hann Leifur, sem féll frá á dögunum, hélt áfram: „Grýla gamla’er steindauð, og Leppalúði líka, krakkar og öskukallar, ráku þau á braut.“

Það voru skærgrænir Breiðabliksstrákar sem tóku það að sér í kvöld að losa okkur við óvættirnar.

Takk fyrir það!

Eiríkur Hjálmarsson

Umfjöllun annarra miðla:

Atvik og markið í boði BlikarTV:

image

Fremstur á mynd er Anton Ari en hann átti frábæran leik í markinu í kvöld - sérstaklega í fyrri hálfleik. Mynd: KIG/Breiðablik

Til baka