BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

,,Eigi skal gráta Björn bónda“

29.06.2015
„Þrútið var loft og þungur sjór, þokudrungað vor,“ orti Matthías um Eggert Ólafsson hér um árið og á margan hátt má yfirfæra þetta á Eyjar í gær. Þungur útsynningur gerði okkar mönnum erfitt fyrir og að lokum urðum við að sætta okkur við 2:0 tap gegn baráttuglöðum Eyjamönnum. Það voru þung spor til baka fyrir þá fjölmörgu Blika sem mættu til að styðja við liðið sitt en svona er boltinn stundum. Þá verðum við að hafa í huga orð Ólafar ríku á Rifi um árið þegar hún mælti hinn fleygu orð ,,eigi skal gráta Björn bónda heldur safna liði og leita hefnda“.  Við eigum tvo heimaleiki framundan, gegn Fjölni og Fylki, og erum enn í toppbaráttunni.
 
Arnar og Kristó tefldu fram óbreyttu liði frá síðasta leik.
 
1. Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (m) 
3. Oliver Sigurjónsson 
4. Damir Muminovic 
5. Elfar Freyr Helgason 
8. Arnþór Ari Atlason 
10. Guðjón Pétur Lýðsson 
20. Atli Sigurjónsson 
22. Ellert Hreinsson 
23. Kristinn Jónsson 
29. Arnór Sveinn Aðalsteinsson 
30. Andri Rafn Yeoman 
 
Leikskýrsla.
 
Leikjáfangar: Leikurinn var 200. opinberi keppnisleikur Kristins Jónssonar með Breiðabliki og 50. efstu deildar leikur Guðjóns Péturs Lýðssonar með Breiðabliki.
 
Davíð Kristján Ólafsson, Arnór Gauti Ragnarsson og Olgeir Sigurgeirsson komu síðan inn á sem varamenn í síðari hálfleik.
 
Höskuldur er enn að jafna sig á veikindum og munar um minna.
 
Okkar menn spiluðu með sterkan útsynning í bakið í fyrri hálfleik en náðu ekki nægjanlega vel að nýta sér vindinn. Leikmenn voru of mikið að senda háa og fasta bolta inn að teig Eyjapeyja sem lítið varð úr. Heimapiltar börðust af mikilli hörku og leyfðu slakt dómarapar þeim að komast upp með fólskubrot. Þetta sló okkar drengi aðeins út af laginu og tvisvar skall hurð nærri hælum upp við mark Blika. Í fyrra skiptið bjargaði marksláin okkur og í hitt skiptið varði Gunnleifur aukaspyrnu þeirra hvítklæddu frábærlega í stöng og þar kom Arnór aðvífandi og hreinsaði meistaralega af marklínu. 
 
Við áttum okkar færi en okkur var gersamlega fyrirmunað að koma tuðrunni í mark líkt og í KA-leiknum. Í eitt skiptið varði markvörður Eyjamann glæsilega eftir góða spyrnu Guðjóns Péturs og svo skallaði Ellert fram hjá í upplögðu tækifæri á markteig. 
 
Við hresstumst töluvert í síðari hálfleik og náðum betri tökum á leiknum gegn sterkum vindinum. En þegar kom upp að vítateig Eyjamanna var eins og allur vindur væri úr okkur mönnum. Við fórum að gefa á samherja í stað þess að skjóta á markið og margoft náðu heimapiltar að henda sér fyrir sendingar og stöðva upplagðar sóknir okkar pilta. Undir lok hálfleiksins náðu Eyjamenn tveimur snaggarlegum sóknum og settu tvo mörk með stuttu millibili og kláruðu leikinn. Þrátt fyrir að við nýttum allar okkar skiptingar dugði það ekki til að breyta úrslitum leiksins.
 
Úrslit leiksins voru vonbrigði fyrir okkur. En sigur Eyjamanna var sanngjarn. Við tókum ekki nægjanlega vel á móti þeim og þeir áttu fleiri skallaeinvígi og seinni boltar voru yfirleitt hirtir upp af baráttuglöðum varnar- og miðjumönnum þeirra. Hrósa verður Oliver Sigurjónssyni fyrir mikla baráttu á miðjunni en engin má við margnum og því fór sem fór.
Fjölmargir Blikar, með Kópacabana hópinn í banastuði, mættu til Eyja og studdu vel við bakið á liðinu.  Það dugði hins vegar til og var það svekkjandi fyrir alla, hvort sem það voru stuðningsmenn, leikmenn, þjálfarar og teymið kringum liðið.
 
En það þýðir ekkert að hengja haus. Við erum enn í toppbarátunni og eigum tvo heimaleiki framundan, gegn Fjölni og Fylki. Síðan kemur KR í Frostaskjólinu og Keflavík heima. Okkur hefur gengið vel gegn þessum liðum á síðustu árum og ekkert sem bendir til annars en að við getum haldið áfram að sækja á toppinn.
 
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!
 
-AP

Til baka