BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Dýr í greip

31.05.2019

Ég held að það sé ekki ofmælt að Blikar biðu þess í ofvæni að takast á við nágrannana úr efri byggðum í bikarnum eftir jafnteflið sorglega í Kórnum í annarri umferð Íslandsmótsins þann 4. maí sl. Sá sem hér heldur á penna óskaði eftir því í pistli eftir þau ósköp að okkar menn myndu mæta til leiks á fyrstu mínútu en ekki þeirri 81. eins og þá. Að menn létu ekki vanmat og andvaraleysi ná tökum á sér heldur takast af djörfung og dug á við HK-inga.

Mínar heimildir úr röðum HK-manna hermdu að þar á bæ væri bikarkeppnin orðin að aukaatriði, deildin væri aðalmálið og því yrðu máttarstólpar jafnvel hvíldir, enginn séns tekinn á meiðslum eða því að mannskapurinn yrði ofkeyrður fyrir átökin framundan í deildinni. Jafnvel gætum við átt von á því að „frískum youngsterum“ yrði teflt fram

Kwame Quee?

Mér fannst svolítið eins og Ágúst Gylfason hefði heyrt í sömu heimildarmönnum áður en hann stillti upp liðinu. Gulli var að vísu í markinu og Viktor og Damir í vörninni en líka Guðmundur B. Guðjónsson í stað Elfars. Miðjan var þó kunnugleg með Hendrickx, Guðjón Pétur, Kolbein og Arnar Svein en frammi fékk Brynjólfur Darri loksins að byrja og Höskuldur en líka Kwame Quee. Kwame Quee? Maðurinn sem kom inn á gegn Skagamönnum og var í afar slöku meðallagi?

Svo leit ég á uppstillingu HK-manna og sá að þeir voru mættir með allar sínar kanónur. Meira að segja Arnþór Ari, okkar góði félagi, var risinn upp úr meiðslum. Hér átti ekkert að gefa eftir.

Leikskýrsla KSÍ       Úrslit.net 

Öryggi og yndisþokki

Sól skein í heiði, völlurinn var fagur sem Hlíðin forðum – en skuggabólstrar laumuðu sér inn í hugann. Var bölvað yfirlætið aftur mætt til leiks? Var leikurinn unninn fyrirfram og formsatriði að spila hann?

Minnugur þess hvernig HK-menn nýttu föst leikatriði í Kórnum fór aðeins um mig þegar þeir fengu aukaspyrnu á hættulegum stað eftir 25 sekúndur. Ég veit að þetta var úti við miðlínu en eftir reynsluna í Kórnum fyrir fáeinum vikum taldist allur vallarhelmingur Blika „hættulegur staður“. Ekkert kom út úr aukaspyrnunni, eins og ég punktaði hjá mér. Í því sem ég leit upp af blöðunum var Höskuldur aftur á móti kominn upp að endamörkum hinum megin, fínstillti vinstri fótinn og gaf síðan gullfallega sendingu á engan annan en fyrrnefndan Kwame Quee sem skallaði af öryggi og yndisþokka í mark gestanna. Og tvær mínútur á klukkunni.

Við skulum alveg átta okkur á því að Kwame Quee er hörkuleikmaður og sannkallaður happafengur fyrir okkur Blika. Ég skil ekki þá sem hafa verið að furða sig á veru hans í liðinu, jafnvel sagt að hann hafi spilað í slöku meðallagi. Hann átti frábæran leik. Að vísu voru fyrstu sendingarnar eftir markið svolítið ónákvæmar en honum er algjörlega fyrirgefið.

Lék sér að gestunum

Þar sem ég skrifaði þetta hjá mér skölluðu HK-menn yfir. En þar með var það líka eiginlega upptalið hjá gestunum í fyrri hálfleik. Okkar menn áttu sviðið. Á 25. mínútu fengum við aukaspyrnu við vítateigshornið. Það ótrúlega gerðist að Guðjón Pétur skokkaði bara inn í teig en Brynjólfur Darri bjó sig aftur á móti undir að spyrna. Skotið fór rétt framhjá en var sannarlega fast og efnilegt. Fimm mínútum síðar áttu Blikar skyndisókn, Brynjólfur Darri sendi á Kwame en markvörður HK var vandanum vaxinn, enda sannarlega betri en enginn. Kannski hafði hann ákveðið að gyrða sig í brók eftir að hafa farið í afar metnaðarfulla skógarferð lengst út á kant á miðjum vellinum sem Bruce Grobbelaar hefði verið fullsæmdur af.

Litlu síðar hóf Kwame sókn á hægri kanti, lék inn á miðjuna og eftir laglegt samspil var hann nánast kominn upp að endamörkum á vinstri kanti, sendi góða fyrirgjöf en þá vantaði mannskap til að fylgja því eftir. Þegar þarna var komið sögu hef ég punktað hjá mér að „Kwame bókstaflega leiki sér að því að sóla gestina upp úr skónum.“

Og enn var herjað á HK-inga. Brynjólfur Darri var skyndilega á auðum sjó inni í teig, gestirnir brugðu bersýnilega lymskulega fyrir hann fæti en ekkert var dæmt.

Undir lok fyrri hálfleiks komst leikmaður HK óvænt í gegn en Gulli varði. HK-ingar fengu hornspyrnu á hættulegum stað en ekkert kom út úr því.  Skömmu síðar tók Guðjón Pétur horn, sendi beint á Hendrickx rétt fyrir utan teig en skot hans var yfir.

Helgi Viðar tók myndir á Kóapvogsvelli í kvöld. 

Reglulega uppfærðar spár

Í hálfleik sendi ég syni mínum skeyti en hann sat keikur HK-megin í stúkunni og spurði hvort væri dauft yfir hans mönnum. Hann hélt nú ekki, þeir hefðu fengið gott færi í lok hálfleiksins og þetta færi 1-2.

Seinni hálfleikur hófst með nokkrum látum. Viktor tæklaði einn gestanna frekar illyrmislega uppi við endamörk – mögulega til að láta vita af því að frekari nærveru viðkomandi við teiginn væri ekki óskað. Ekkert kom út úr aukaspyrnunni en Viktor fékk greitt í sömu mynt litlu síðar. Það var um það leyti sem Brynjólfur Darri var einn í miðjum vítateig andstæðinganna en skallaði beint á markmanninn.

En þá kom rothöggið. Damir gerðist skyndilega léttleikandi miðjumaður, vann boltann á vallarhelmingi gestanna, brunaði fram en í stað þess að senda inn í lagði hann boltann snyrtilega út á Guðjón Pétur Lýðsson sem er með eitraðan hægri fót, svo sem kunnugt er. Var ekki að sökum að spyrja – boltinn söng í netinu.

Ég fékk önnur skilaboð úr HK-stúkunni með uppfærðri spá: 2-3.

Hafi annað markið ekki verið nóg þá var það þriðja eiginlega meira en nóg. Brynjólfur Darri lék sér að varnarmönnum HK uppi við endalínu, sendi út, boltinn barst til Höskuldar sem skoraði laglegt mark. Þá kom uppfærð spá: 3-4. En skömmu síðar: „Heyrist allavega meira í hvolpasveitinni en big glacier.“

Hornspyrna á hættulegum stað

Og svona til að strá salti í sárið gerðist sá fáheyrði atburður að Ásgeir Börkur tapaði tæklingu – fyrir Höskuldi okkar sem hefur ekki yfirbragð hins mikla harðjaxls. Skömmu síðar átti hann snilldarsendingu utan af velli á fjærstöng þar sem Hendrickx var mættur en markmaðurinn sá við honum.

Þegar liðlega 20 mínútur voru eftir ætlaði Gulli að skýla boltanum í útspark en HK-ingurinn sá við honum og niðurstaðan var hornspyrna – á hættulegum stað. Ekki var að sökum að spyrja, staðan var orðin 3-1.

Nú bjóst maður við að HK-ingar myndu bíta í skjaldarrendur og stefna sigri heimamanna í tvísýnu, líkt og þeir gerðu á Meistaravöllum nýverið. Kannski hafa þeir meðvitað eða ómeðvitað haft í huga fyrir leik orð Arnasar Arnæusar í Íslandsklukkunni í samtali við kommertsíenráð  Úffelen af Hamborg: „Maður sem ætlar að kyrkja lítið dýr í greip sinni mun að lokum þreytast. Hann heldur því armsleingd frá sér, herðir takið um kverkar þess sem má, en það deyr ekki; það horfir á hann; klær þess eru úti. Þetta dýr mun ekki vænta sér hjálpar þó tröll komi með blíðskaparyfirbragði og segist skulu frelsa það. Hitt er lífsvon þess að tíminn sé því hallkvæmur og lini afl óvinar þess.“ Þetta er líklegri kenning en margur kynni að halda því að  tengdafaðir aðstoðarþjálfara HK er bókmenntapáfinn Páll Valsson.

Tögl og hagldir

Blikar höfðu allan leikinn verið eins og þessi maður sem heldur dýrinu í greip sinni, þótt markmiðið hafi kannski ekki verið að kyrkja gestina í eiginlegum skilningi. En því verður ekki á móti mælt að okkar menn voru með tögl og hagldir allan leikinn og þeir þreyttust ekki að halda takinu á gestinum. Það var varla að HK-ingar væru með klærnar úti. Og ekki var tíminn hallkvæmur þeim og linaði afl okkar manna því að þeir slógu hvergi af. Kwame komst einn inn fyrir, gat gefið á Höskuld fyrir opnu marki en langaði greinilega í tvennuna eða þrennuna. Brynjólfur Darri átti fína sendingu á Hendrickx en skot hans var varið. Og þannig mætti áfram telja.

Hvergi veikur blettur

Eins og glöggir lesendur sjá voru yfirburðir okkar manna algjörir í þessum leik. Þeir stigu aldrei af bensíngjöfinni, héldu áfram allt til enda og gáfu gestunum fá færi. Sérstaklega var gaman að sjá Höskuld í sínu besta formi, að Kwame skyldi sýna hvað í honum býr, Brynjólfur Darri var síógnandi í sókninni, Guðmundur B. traustur í vörninni, Guðjón Pétur kóngur á miðjunni og svona mætti áfram telja. Það var hvergi veikan blett að finna á liðinu í kvöld.

Okkar menn hafa þannig tryggt sér sæti í átta liða úrslitum bikarkeppninnar en við erum líka í toppbaráttunni í deildinni, þremur stigum á eftir Skagamönnum og tveimur stigum fyrir ofan KR og FH. Kaplakrikasveinar koma einmitt í heimsókn á sunnudaginn og ef Blikaliðið mætir eins stemmt í þann leik og á móti HK er engu að kvíða.

PMÓ

Umfjallanir annarra miðla. 

Brynjólfur Darri Willumsson var maður leiksins. Mynd: HVH

Til baka