BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Drekar eru oft grænir

31.12.2023 image

Þessi orð hér mynda eitt hundrað fimmtusgustu og þriðju færsluna sem skrifuð er á Blikar.is í ár. Þriðja hvern dag allt árið 2023 hefur einhver ritnefndarmeðlimurinn sest niður við tölvuna sína og vottað félaginu sínu virðingu og stuðning með einhverjum orðum í aðdraganda leiks, eftir leik eða nánast af tilefnislausu.

Leikirnir hjá meistaraflokki karla voru náttúrulega ekkert eðlilega margir þetta árið. Ef allt er talið með – æfingamótin líka – þá var þetta 61 leikur árið 2023.

27 leikir í Bestu deild karla

4 leikir í Mjólkurbikarnum

1 leikur í Meistarkeppninni

16 leikir í 3 Evrópukeppnum í 7 Evrópulöndum

5 leikir í Lengjubikarnum

3 leikir í Þungaviktarbikarnum (æfingamót)

3 leikir í Bose Bikarnum (æfingamót)

1 lekur við Brentford B (æfingaleikur)

1 leikur við Elfsborg (æfinagleikur)

Við fengum enda til liðs við ritnefndina nýja krafta sem munaði um. Sérstaklega var gaman að sjá aukinn kraft í skrifum um kvennaleikina á árinu. Gömul brýni voru nú samt afkastamest og hefur Andrés Pétursson verið valinn dugmesti penni ársins og Pétur Ómar Ágústsson samviskusamasti ritstjórinn.

Það leiðir hugann að sjálfboðaliðunum öllum sem leggja Breiðabliki lið með ýmsum hætti, ár eftir ár eftir ár. Á Símamótinu, við hamborgaragrillið, í sýnileikavesti við öryggisgæslu, að skenkja okkur kaffið í sjoppunni eða bjórinn í Græna herberginu að ógleymdum öllum foreldrunum og aðstandendunum öllum sem eru að skutla, hvetja, hugga og hlúa að öllu ungviðinu sem er framtíð félagsins okkar.

Framundan er nýtt ár með nýjum fyrirheitum, nýjum vonum og það er alltaf pláss fyrir nýtt fólk í sjálfboðastörfin. Árið 2024 er ár drekans í kínversku spekinni og drekar eru mjög oft grænir á litinn.

Blikar.is óska lesendum og öllu stuðningsfólki Breiðabliks gleðilegs nýs árs með miklu þakklæti fyrir hið annríka ár 2023.

EH

Til baka