BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

“Draumalíf fyrir knattspyrnumann” segir Blikinn Guðmundur Kristjánsson

30.07.2012

Landsliðsmaðurinn Guðmundur Kristjánsson hefur heldur betur slegið í gegn með Start  í norsku 1. deildinni. Hann kom til liðsins á lánssamningi frá Blikunum í mars á þessu ári og var fljótur að vinna sér  fast sæti í liðinu. Guðmundur hefur sýnt á sér nýjar hliðar í norska boltanum og hefur spilað flestar stöður á vellinum í Startliðinu. Hann byrjaði semhægri  bakvörður, fór síðan í miðvörðinn, spilaði síðan nokkra leiki sem vængmaður en fór í síðasta leik í vinstri bakvörðinn.

Það var gott hljóðið í Guðmundi þegar fréttaritari blikar.is heyrði í honum nýlega ,,Já, þetta hefur gengið vel hér í Noregi. Að vísu hefur þjálfarinn verið að láta mig spila ýmsar stöður vegna meiðsla annarra leikmanna en það hefur bara gengið vel. Auðvitað myndi ég helst vilja spila mína stöðu á miðjunni en á meðan ég get komið að gagni í öðrum stöðum þá geri ég það að sjálfsögðu,“ sagði þessi sterki Kópavogsbúi.

Guðmundur sem er 23 ára gamall spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik með Blikunum í efstu deild árið 2007. Hann vann sér einnig fast sæti í yngri landsliðum Íslands og spilaði svo sinn fyrsta A-landsleik árið 2009. Nú hefur Guðmundur spilað 5 A-landsleiki og stefnir á að fjölga þeim.

Start frá Kristiansand á suðurströnd Noregs er eitt af þekktari liðum landsins. Í  borginni búa  um 85 þúsund manns og er mikill knattspyrnuáhugi þar. Þrátt fyrir að Start leiki nú í næst-efstu deild þar í landi á liðið glæsta sögu í norskri knattspyrnu. Liðið var Noregsmeistari árin 1978 og 1980 og lenti í 2. sæti árið 2005. Start hefur oft tekið þátt í Evrópukeppninni í knattspyrnu, síðast árið 2007 þegar þeir féllu úr keppni gegn Ajax frá Hollandi.  Undanfarin ár hefur liðið átt við fjárhagsörðugleika að stríða og féll liðið úr efstu deildinni í fyrra. En það er mikil metnaður í forráðamönnum félagsins og ætla þeir sér með liðið beint upp aftur. Þegar þessar línur eru ritaðar er liðið einmitt í efsta sæti í 1. deildinni.

Vissi ekki mikið um Kristiansand

Guðmundur segist nú ekki hafa vitað mikið um Kristiansand þegar forráðamenn liðsins höfðu samband við Blikana fyrr á þessu ári og vildu fá Guðmund í prufu. ,,Ég gúglaði auðvitað borgina og liðið og leist vel á það sem þar kom fram. Sú saga hefur verið í gangi að forráðamenn Start hafi séð myndband með mér á YouTupe og þannig frétt af mér. Það er nú reyndar ekki alveg rétt. Matthías Vilhjálmsson FH-ingur var kominn hingað á undan mér og forráðamenn Start spurðu hann hvort hann gæti mælt með einhverjum fjölhæfum leikmanni frá Íslandi. Hann benti þeim á mig og einhverjir frá klúbbnum höfðu séð mig spila með Blikunum gegn Rosenborg. Það var því ákveðið að fá mig til prufu og ég náði sem betur fer að sýna nógu mikið. Start náði síðan samkomulagi við Blikana og ég var kominn út nokkrum dögum síðar.“

Guðmundur segir að mjög vel hafi verið tekið á móti sér í Kristiansand.,, Klúbburinn var mér innan handar að finna íbúð og að koma mér fyrir á annan hátt. Ég bý í miðbænum og kann mjög vel við mig hérna. Ég var að hugsa um að kaupa mér bíl en áttaði mig svo á því að ég hafð ekkert við hann að gera því hér er allt í göngufjarlægð. Ég keypti mér því hjól og kemst allra minna leiða þannig ,“ segir leikmaðurinn brosandi.  Leikvangur Start tekur um 15 þúsund manns og er nýlega búið að leggja nýjustu kynslóð gervigrass á völlinn.  Guðmundur segist nú frekar vilja spila á venjulegu  grasi en þetta sé þróunin  í Noregi. ,,Það er reyndar gríðarlega mikill munur á völlunum. Nýjustu gervigrasvellirnir eru mjög góðir en eldri vellir eru oft skelfilegir. Einnig er mikill getumunur á efstu og neðstu liðunum í deildinni. Bestu liðin í 1. deild eru alveg á pari við meðallið í efstu deild eins og sést á árangri Hönefoss og Sandnes Ulf sem fóru upp í fyrra. Einnig hafa mörg 1. Deildarlið náð fínum árangri í  bikarkeppninni.“

Guðmundur segir erfitt að bera saman Úrvalsdeildina heima og svo 1. deildina í Noregi. ,,Bestu lið á Íslandi myndu sjálfsagt standa  sig ágætlega í 1. deildinni hér. En það má ekki gleyma því að flest liðin í tveimur efstu deildunum í Noregi eru atvinnumannalið þannig að það er ekki hægt að bera saman aðstöðumuninn fyrir leikmennina.“

Gengur þokkalega með norskuna

Flestir leikmenn Start eru norskir og því mikilvægt fyrir Guðmund að setja sig inn í málið. ,,Þetta kemur nú svona smám saman þótt danskan hafi aldrei verið mitt uppáhaldsfag í skóla,“ sagði hann hlæjandi. ,,Það eru að vísu þrír leikmenn frá Afríku í hópnum þannig að enska er oft notuð á æfingum. Ég ætla mér hins vegar að læra norskuna því vonandi verð ég hér í landi eitthvað áfram.“

Á undirbúningstímabilinu æfir Startliðið tvisvar á dag en þegar tímabilið er byrjað eru æfingar einu sinni á dag. Yfirleitt eru æfingarnar á morgnana þannig að Guðmundur hefur allan seinni partinn til að slaka á. ,,Þetta er auðvitað draumalíf fyrir knattspyrnumann. Æfingaálagið er ekki of mikið og finnst mér ég vera í góðu standi. Ég náði strax að tryggja mér sæti í byrjunarliði  og liðinu hefur gengið vel. Auðvitað sakna ég stundum Íslands, annað væri óeðlilegt.  Ég hugsa oft til fjölskyldunnar og  félagana í Blikaliðinu. En ætli ég verði  ekki að segja að ég sakni  mest matarins hjá mömmu! „

Guðmundur segist vera töluvert mikið með Matthíasi Vilhjálmssyni og fjölskyldu hans. Matthías sem kom frá FH fyrir þetta tímabil eins og Guðmundur hefur einnig átt skínandi tímabil með liðinu. Hann er markahæstur í 1. deildinni og er mikið talað í fjölmiðlum  um hve Íslendingarnir hafi verið mikill happafengur fyrir Startliðið. ,,Þetta hefur gengið vel hingað til. Það er hins vegar mikil samkeppni í deildinni og við verðum að passa okkur að misstíga okkur ekki. Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir liðið að komast upp í efstu deildina upp á mætingu og fjárhagslega umgjörð fyrir liðið. Ég tel hins vegar að við séum með nógu gott til til að fara upp og það er stefnan.“

Framtíðarsýnin er skýr hjá Guðmundi; ,,Það er fyrst og fremst að fara upp í efstu deildina með Start og spila þar í einhvern tíma. Vonandi næ ég síðan að spila með stærra liði í komandi framtíð. Einnig er stefnan að spila fleiri landsleiki þvi ég tel að það séu spennandi tímar framundan hjá íslenska landsliðinu,“ segir þessi snjalli knattspyrnumaður.

AP

Til baka