BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Dramatískar lokamínútur gegn Skagamönnum.

23.07.2012

Það voru ekki spes aðstæðurnar sem boðið var upp á á Skaganum. Vissulega leit völlurinn vel út en rokið sem Skagamenn eru vanir var til staðar og kuldinn gerði það að verkum að maður velti því fyrir sér hvort ekki væri kominn September? Rene Troost kom aftur inn í liðið eftir bann á móti Stjörnuninni og Sindri Snær Magnússon kom líka inn í byrjunarliðið. Ben J. Everson var ekki í hópi Blika að þessu sinni vegna smávægilegra meiðsla en vonandi nær hann næsta leik sem er heima á móti ÍBV.

Fyrri hálfleikurinn einkenndist af miklum barningi og var lítið um sérstaka takta. Skagamenn fengu þó fínt færi eftir góðan sprett frá Andra Adolphssyni en Kale varði vel. Skagamenn vildu svo fá vítaspyrnu þegar að boltinn fór í Sverri Inga en það var fáránlegt væl sem að einkenndi svolítið Skagaliðið í fyrri hálfleik. Blikar komust í ágætt færi þegar að Sindri fékk boltann fyrir utan teig en skotið var ekki nægilega gott. 0-0 í hálfleik sem gat ekki talist annað en sanngjarnt. Undirritaður var með 2 Gullmiða þökk sé stórblikanum Ragnari Lövdahl, spurningin var bara hver ætti að koma með í kræsingarnar? Að sjálfsögðu fór eini maðurinn sem er með Blikatattú með mér í betri stúku Skagamanna sem ekki átti séns í Blikakaffið.

Aftur að leiknum, seinni hálfleikur fór af stað í rokinu og einn Skagamaður sem ég ræddi við sagði að Blikar myndu sennilega fara með 3 stig úr þessum leik. Það gladdi mig og ég fór nokkuð bjartsýnn niður í brekku til Blikanna sem stóðu þétt til að mynda smá yl í skítakuldanum. Seinni hálfleikur byrjaði svipað og sá fyrri endaði, barningur, Dean Martin náði sér í gult spjald eftir brot á Kristni Jónssyni. Samtals voru gulu spjöldin í þessum leik 7 talsins.

Skagamenn fengu ágætt færi þegar að Garðar Gunnlaugsson skallaði innfyrir vörn Blika og einn besti maður vallarins Andri Adolphsson átti skot sem fór naumlega framhjá. Bæði lið gerðu breytignar á sínum liðum og var sérstaklega ánægjulegt að sjá Hauk Baldvins koma inn á lið Blika. Barningurinn hélt áfram og bæði lið hefðu geta gert betur og skilað marki en það varð ekki raunin. Kale varði síðan í tvígang gríðarlega vel frá Thodore Furness sem kom frá Tindastóli og var að spila sinn fyrsta leik í efstu deild.

Stuttu síðar kom Árni Vilhjálmsson svo inn á í staðinn fyrir Sindra Snæ sem hafði leikið vel fyrir utan ein mistök sem kostuðu næstum því mark.  Skagamenn tóku út af Garðar Gunnlaugs sem hafði ekki fundið sig nægilega vel. Við þetta færðist líf í sóknarleikinn og voru margir Blikar mjög sáttir að sjá Árna loksins inn á í græna búningnum. Elfar átti frábært skot sem var virkilega vel varið en Blikar voru ekki hættir. Rene Troost átti frábæra sendingu upp vinstri kantinn. Árni gerði vel í því að stíga út varnarmann og sýndi styrk sinn þar. Hann tók svo stefnuna inn á teiginn eins og sannur sóknarmaður, tók annan varnarmann á og setti boltann fast á milli lappa hans í nærhornið. Óverjandi fyrir markmann skagamanna og fagnið virkilega innilegt hjá Árna og strákunum. Mikill fögnuður braust út í stúkunni en Blikar vissu líka að það voru 5-6 mín eftir með uppbótartímanum. 

Skagamenn tóku frekar snögga miðju og færðu sig framar á völlinn, Blikar hefðu með smá heppni getað náð að nýta skyndisóknir betur á síðustu mínútunum en það varð ekki. Skagamenn sóttu upp hægri kantinn en Sverrir og Kristinn Jónsson vörðust vel. Skagamaður sparkaði ósköp einfaldlega boltanum út af en á einhvern óskiljanlegan hátt þá fengu ÍA innkastið við mikla óánægju þeirra grænu sem var mjög skiljanlegt. Skagamenn köstuðu inn í teiginn, boltinn barst í þvögu á nærstönginni og fór þaðan út í teiginn. Rafn Andri sem hafði komið vel inn í leikinn ætlaði sér að koma boltanum frá en klippti niður Skagamann og víti dæmt. Dómurinn sanngjarn en Skagamenn áttu aldrei að komast í þessa aðstöðu. Enn eitt dæmið um slæm dómaramistök sem kosta stig í Pepsideildinni og þá er ég ekki bara að tala út frá Blikum. Jóhannes Karl skoraði örugglega úr vítinu á 93 mínútu og staðan 1-1.

En þetta var ekki búið, Kale hélt boltanum en fyrrum fyrirliði Breiðabliks Kári Ársælsson ásamt öðrum Skagamanni fór mikinn í teignum og pressaði Ingvar vel. Barningur og pústrar sem enduðu þannig að Kale fór í grasið og boltinn barst til Sverris Inga. Á þessum tímapunkti átti dómarinn fyrir löngu síðan að vera búinn að stíga inn í og stoppa þetta. Kári og félagar pressuðu Sverri og hann ýtti frá sér sem skilaði honum gulu spjaldi númer 2 og þar með rauðu. Blikar voru virkilega ósáttir við þessa ákvörðun enda hafði Kale farið í grasið stuttu áður.

Ég er alls ekki að verja það þegar að menn ýta frá sér láta skapið fara með sig en ástandið átti aldrei að verða svona. Get ekki sett mig í spor leikmanna sem hafa spilað í rúmar 90 mín og fá á sig jöfnunarmark á síðustu sekúndunum. Set líka spurningarmerki við Kára Ársælsson sem átti líka eitthvað vantalað við Árna Villhjálmsson þegar að hann gekk framhjá honum á miðjum vellinum stuttu eftir markið. Mönnum heitt í hamsi og svo framvegis en spurning hverju þetta skilar?

Niðurstaðan varð 1-1 jafntefli sem hvorugt liðið virtist vera sátt við. Blikar með 1 mark í þessum leik eins og svo oft áður. Jákvætt var að það kom frá Árna Vill sem greinilega ætlar að láta nýja menn finna fyrir því að samkeppnin um stöður er hörð sem er heilbrigt og sjálfsagt hjá stærsta knattspyrnufélagi á Íslandi. Leiðin heim af Skaganum einkenndist af umræðum um leikinn, menn voru á endanum sáttir með jafnteflið en á sama tíma hundfúlir. Næst er það ÍBV á Kópavogsvelli, hugsanlega ný andlit í Blikabúningnum og vonandi sem flestir í stúkunni. Þangað til næst, ÁFRAM BREIÐABLIK!

KIG

Til baka