Daði Rafnsson og Kristófer Sigurgeirsson ráðnir yfirþjálfarar knattspyrnudeildar!
26.09.2015Nú á dögunum var gengið frá ráðningu á yfirþjálfurum knattspyrnudeildar Breiðabliks en breytingar voru gerðar á stöðugildi yfirþjálfara frá fyrra ári. Í stað eins yfirþjálfara í 100% starfi munu tveir sinna starfinu í minna starfshlutfalli hvor.
Kristófer Sigurgeirsson hefur verið ráðinn yfirþjálfari 11 manna bolta en hann er jafnframt aðstoðarþjálfari hjá mfl. karla í félaginu og mun halda því starfi áfram.
Kristófer er uppalinn Bliki og hefur lokið UEFA A gráðu í knattspyrnuþjálfun og starfað sem þjálfari til fjölda ára.
Daði Rafnsson hefur verið ráðinn yfirþjálfari 7 manna bolta en hann gegndi stöðu yfirþjálfara á síðasta keppnistímabili. Daði mun einnig gegna stöðu fræðslustjóra knattspyrnudeildar og mun stýra og halda utan um faglega þátt barna- og unglingastarfsins.
Daði hefur verið þjálfari og yfirþjálfari hjá Breiðablik undanfarin ár og hefur mikla reynslu af þjálfun barna og unglinga. Daði hefur eins og Kristófer lokið UEFA A gráðu í knattspyrnuþjálfun.
Knattspyrnudeild Breiðabliks býður Kristófer og Daða velkomna til starfa og væntir mikils af störfum þeirra fyrir stærstu knattspyrnudeild landsins.