BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Breiðablik - Fylkir í PEPSI miðvikudaginn 13. júní kl. 19:15

12.06.2018

Blikar fá Fylkismenn í heimsókn á Kópavogsvöll í PEPSI karla á miðvikudaginn. Leikurinn hefst kl. 19:15!

Vörður sem er aðalstyrktaraðili Knattspyrnudeildar Breiðabliks mun standa fyrir fjölskylduhátíð fyrir leikinn sem hefst kl.18. Í boði verða grillaðar pylsur, gos og svali. Hoppukastalar, Bubble bolti og andlitsmálning fyrir börnin. Þá verður sett upp minigolfbraut inni á vallarsvæðinu sem gestir geta spreytt sig á.

Liðin eru í 2. og 6. sæti stigatöflunnar með 14 og 11 stig. Bæði lið unnu í síðustu umferð. Blikar unnu öruggan 0:2 sigur gegn Grindvíkingum í Grindavík og Fylkismenn unnu 2:0 sigur á Keflvíkingum í Egilshöll.

Spennan hefur sjaldan eða aldrei verið jafn mikil í efstu deild karla. Einungis munar fimm stigum á liðinu í öðru sæti og liðinu í níunda sæti. Sigri Blikar er annað sætið í töfluröðinni tryggt – efsta sætið ef Valur nær ekki að sigra í sínum leik gegn ÍBV í Eyjum – en sigri Fylkismenn jafna þeir okkur að stigum.

Strákarnir okkar eru staðráðnir að sýna sitt rétta andlit á miðvikudaginn og halda öðru sætinu og freistaþessa að verða efstir í deildinni eftir umferðina. Við erum til alls líklegir ef liðið sýnir sama vilja, kraft og skipulag og þeir gerðu í sigurleiknum á Grindavík á laugardaginn.

Sagan undanfarin ár segir okkur að Fylkismönnum líður bara mög vel í Kópavoginum. Liðið hefur ekki tapað leik á okkar heimavelli síðan árið 2011. Hafa unnið tvisvar og gert 3 jafntefli í síðustu 5 heimsóknum.

Strákarnir tækifæri á miðvikudaginn til að snúa þessari tölfræði sér í hag.

Sagan

Leikur okkar manna gegn Fylki á Kópavogsvelli á miðvikudagskvöldið kl. 19:15 verður 54. mótsleikur liðanna frá upphafi og 29. viðureign liðanna í efstu deild.

Heilt yfir hafa liðin mæst 53 sinnum í opinberri keppni. Blikar hafa sigrað 26 sinnum, Fylkir 14 sinnum og 13 leikir hafa endað með jafntefli. Liðin eru iðin við jafnteflin. Tvö jafntefli 2015, tvö jafntefli 2014 og tvö jafntefli 2012.

Efsta deild

Félögin hafa mæst 28 sinnum í efstu deild frá fyrsta leik árið 1996. Blikar hafa unnið 11 leiki, Fylkir 9 leiki og 8 leikir hafa endað með jafntefli. Markaskorun er 77 mark sem skiptist þannig að Fylkir hefur skorað 41 mark gegn 36 mörkum Blika.

En það er ótrúlegt hvað heimavöllur er að gera lítið fyrir bæði lið. Samkvæmt tölfræðinni eru Blikar miklu líklegri til að ná hagstæðum úrslitum á heimavelli Fylkismanna í Árbænum en á eigin heimavelli í Kópavogi. Blikar hafa tapað 1 sinni í A og B deild í Árbænum síðan 2001 sem er hið besta mál.

Það er hinsvegar árangur okkar á Kópavogsvelli sem þarf að laga því Blikar hafa ekki unnið Fylki á Kópavogsvelli síðan 22. maí 2011:

2016 1-1 / 2015 0-1 / 2014 2-2 / 2013 1-4 / 2012 1-1 / 2011 3-1

Frá 2009 til 2011 hafa Blikar hinsvegar mjög góð tök á Fylkismönnum og vinna alla heimaleikina gegn þeim nokkuð sannfærandi.

Dagskrá

Það verður kaldur í tjaldi, börger á grilli og rjúkandi kjötsúpa. Sparkvellir á sínum stað fyrir krakkana.

Vörður sem er aðalstyrktaraðili Knattspyrnudeildar Breiðabliks mun standa fyrir fjölskylduhátíð fyrir leikinn sem hefst kl.18. Í boði verða grillaðar pylsur, gos og svali. Hoppukastalar, Bubble bolti og andlitsmálning fyrir börnin. Þá verður sett upp minigolfbraut inni á vallarsvæðinu sem gestir geta spreytt sig á.

Leikurinn hefst svo kl. 19:15!

Sjáumst öll á Kópavogvelli á miðvikudagskvöld og hvetjum okkar menn til sigurs.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka