BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Breiðablik - FH í PEPSI mánudaginn 3. júlí kl. 20:00

30.06.2017

Leikurinn á Kópavogsvelli á mánudaginn kl.20:00  tilheyrir 11. umferð en var flýtt vegna þátttöku FH-inga í Evrópukeppni.

Sagan

Breiðablik og FH eiga að baki 103 mótsleiki frá upphafi. Í öllum 103 skráðum leikjum liðanna frá 1964 til 2017 sigra Blikar 34 leiki, jafnteflin eru 21 og FH sigrar 48 viðureignir.

Fyrsti mótsleikurleikur liðanna var í A-riðli í 2. deildar laugardaginn 13. júní 1964. Leikurinn var jafnframt vígsluleikur Vallargerðisvallar og bæjarstjórinn Hjálmar Ólafsson tók upphafsspyrnu leiksins í tilefni dagsins. Dómari leiksins var Magnús Pétursson. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli. Jón Ingi Ragnarsson skoraði mark Blika eftir flotta stoðsendingu Daða E. Jónssonar. Jón Ingi var svo aftur á ferðinni í fyrsta sigri Breiðabliks á FH í síðari deildarleik liðanna sem fram fór á Hvaleyrarholtsvelli 23. júlí 1964. Leikinn Blikar vinna leikinn 2-3 með tveimur mörkum Jóns Inga Ragnarssonar og einu marki Grétars Kristjánssonar. Þriðji mótsleikur liðanna var einnig árið 1964. Sá leikur var í 2. umf Bikarkeppni KSÍ og fór fram fram á Hvaleyrarholtsvelli í Hafnarfirði. Leiknum lauk með 2-3 sigri Blika. Mörk Blika í þeim leik skoruðu Jón Ingi Ragnarsson, Júlíus Júlíusson og Sigmundur Eiríksson. Nánar um leiki liðanna árið 1964.

Það var mikið skorað í leikjum liðanna fyrstu 2 árin eða 27 mörk í 5 leikjum sem gaf tóninn fyrir framhaldið. Liðin hafa skorað að jafnaði 3+ mörk í yfir helming innbyrgðis mótsleikjum liðanna frá upphafi.

Frá 1964 til ársins 2000 höfðu Blikar gott tak á FH. Í 60 mótsleikjum 1964-2000 sigra Blikar í 28 leikjum, jafnteflin eru 12 og FH hefur vinninginn í 20 viðureignum. Nánar um tímabilið 1964-2000.

Frá árinu 2001 til dagsins í dag er sagan með FH. Í 43 mótsleikjum í öllum keppnum 2001 - 2017 eru FH sigrarnir 28, jafnteflin eru 9 og Blika sigrar eru 6. Nánar um tímabilið 2001-2017.

Efstu deildar leikir liðanna 2001-2017 eru 24. Blikar hafa unnið 4 leiki, jafnteflin eru 7 og 13 sinnum sigrar FH. Efsta deild 2001-2017.

Markasúpur

Sú var tíðin að leikir liðanna á Kópavogsvelli voru miklir markaleikir og hin besta skemmtun í orðsins fyllstu merkingu. Úrslit eins og 4:3, 4:1, 2:3, 2:0 voru algeng úrslit í innbyrgðis viðureignum liðanna á árunum 2007 til 2010, en frá 2010 hafa leikir liðanna á Kópavogsvelli verið að enda 2:1, 1:2 og 0:1 nema árið 2014 þegar FHingar sigruðu í 6 marka leik.

Nokkrar viðureignir liðanna, frá því að Blikar koma aftur upp í efstu deild árið 2006, hafa verið fjörugrir markaleikir.

Í september 2007 vinna Blikar 4-3 í rosalegum leik þar sem Blikar komast í 4-1 stöðu með mörkum frá Nenad Zivanovic, Prince Rajcomar og 2 mörkum frá Magnúsi Páli Gunnarssyni. En FH-ingar settu mikla spennu í leikinn með mörkum 71. og 77. mín og voru næstum búnir að jafna leikinn. Nánar um leikinn.

Í júní 2008 vinna Blikar FH með 4 mörkum gegn 1 í gríðarlega skemmtilegum leik þar sem Prince Rajcomar skoraði 2 mörk áður en Tryggvi Guðmundsson skorar úr víti. Nenad Petrovic skoraði svo gott mark. Arnar Grétarsson innsiglaði svo 4-1 sigur með marki úr vítaspyrnu á 82. mín. Það er ekki hægt annað en að minnast á atriði sem átti sér stað milli Casper Jacobsen og Tryggva Guðmundssonar eftir að sá síðarnefndi skoraði úr vítaspyrnunni á 50. mínútu. Nánar um atvikið og leikinn.

Í maí 2010 vinna Blikar FH 2-0. Kristinn Steindórsson skoraði bæði mörk Blika. Einhverjir sjónvarpslýsendur töluðu um „stoðsendingu ársins“ þegar Alfreð Finnbogason sendi boltann á Kristinn Steindórsson í fyrra markinu. Nánar um leikinn og myndband.

Í september 2015 vinna Blikar 2-1 sigur eftir að FH komst í 0-1. Sigur FH í leiknum hefði tryggt þeim Íslandsmeistaratitilinn í 20. umferð með tilheyrandi fagnaðarlátum á Kópavogsvelli. Slík var ekki í boði á okkar heimavelli enda skoruðu Jonathan Glenn og Damir Muminovic sitt hvort markið eftir stoðsendingu frá Atla Sigurjónssyni. Nánar um leikinn.

2017

Leikurinn við FH á mánudaginn er þriðji mótsleikur liðanna á þessu ári. Liðin áttust við í 3. umf í Fótbolta.net mótinu (2:4) í lok janúar og svo aftur í byrjun apríl í 8-liða úrslitum Lengjubikarsins (0:3).

Veðurspáin er góð fyrir mánudaginn þannig að búast má við mörgum á völlinn.

Þetta er eini leikurinn í Pepsi-deild karla þessa helgi. Leikurinn tilheyrir 11. umferð en var flýtt vegna þátttöku FH-inga í Evrópukeppni.

Við hvetjum alla Blika til að mæta því þetta er skemmtileg stund sem menn hitta vini og kunningja til að ræða sameiginlegt áhugamál.

Breiðablik - FH á mánudaginn kl.20.00!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka