BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Breiðablik - FC Aktobe. Viðtal við Óla Kristjáns

07.08.2013

Nýtum okkur Laugardalsvöllinn á jákvæðan hátt“ segi r Ólafur Kristjánsson þjálfari.

Ólafur Kristjánsson þjálfari Blikaliðsins hefur haft í nógu að snúast undanfarnar vikur.  Liðið hefur keppt í Andorra, Austurriki, Akureyri,  Kópavogi, Kazakstan og Reykjavík á undanförnum vikum og á töluvert stífa dagskrá framundan. Það er hins vegar engan bilbug á Ólafi að finna; ,,Að spila leiki er það skemmtilegasta við knattspyrnuna . Við kvörtum því ekki undan leikjaálagi. Þrátt fyrir að við hefðum viljað fá eilítið lengri tíma til að jafna okkur eftir ferðina til Kazakstan þá voru forystumenn KSÍ ekki að hjálpa okkur í þeim efnum. Ég hefði haldið að það væri keppikefli  fyrir knattspyrnuyfirvöld á Íslandi að íslensk lið kæmust sem lengst í Evrópukeppninni, Mótanefndin sýndi okkur hins vegar lítinn sveigjanleika og við þurfum að lifa með því. Við vorum hársbreidd frá því að ná í jafntefli í fyrri leiknum og þurfum því að skora í leiknum í dag til að komast áfram. “

Ólafur segir mikinn hug í mannskapnum fyrir þennan leik. ,,Við ætlum okkur að nýta það á jákvæðan hátt að Aktobemenn leyfðu okkur ekki að spila heimaleikinn okkar á Kópavogsvellinum.  Þeir  halda sjálfsagt að það sé betra fyrir þá að leikurinn fer ekki fram á okkur heimavelli. Við ætlum að sýna þeim annað úti á vellinum. Ef við náum upp sama anda og krafti sem einkenndi leikina við Sturm Graz þá getur allt gerst. Stuðningur áhorfenda getur gert gæfumuninn og vonandi fjölmenna Kópavogsbúar á völlinn þrátt fyrir að leikurinn sé utan okkar heimabyggðar.“

Blikaliðið hefur duglegt að lána unga og efnilega leikmenn í lið í 1. deildinni til að þeir fái leikæfingu. Það hefur þegar skilað sér því Elvar Páll Sigurðarson kom til baka frá Tindastóli með hörkukrafti í undanförnum leikjum. Þar að auki er Arnar Már kominn til baka eftir spilatíma með Víkingum frá Ólafsvík. Svo má ekki gleyma því að Elfar Freyr Helgason er kominn aftur til baka í Blikaliðið eftir tveggja ára fjarveru vegna atvinnumennsku erlendis.  Ólafur segir þessa leikmenn tvímælalaust styrkja leikmannahópinn. ,,Það hefur verið mikið álag að leikmönnum og því gott að fá reynda menn til að bakka strákana okkar upp. Gísli Páll var líka í hópnum í síðasta leik og það er mikill styrkur að fá hann inn aftur eftir langvinn meiðsli. Ég tel því okkur vel í stakk búna til að takast á við þau verkefni sem framundan eru -hvort sem er hérlendis eða erlendis,“ segir Ólafur Kristjánsson þjálfari.

Breiðablik býður nú upp á þau þægindi fyrir alla sem leggja leið sína á Laugardalsvöll að horfa á leik Breiðabliks og Aktobe í undankeppni Europa League að versla miðann fyrirfram á miði.is og losna þannig við að bíða í röð. Mikilvægt er að prenta út miðann og mæta með hann í afgreiðsluna á Laugardalsvöll. 

Smelltu hér til að finna miða og sjáðu stórleik Breiðabliks í Europa League. Miðaverð aðeins kr 1.200 fyrir fullorðna og kr 500 fyrir börn undir 16 ár.

Allir á völlinn og áfram íslensk knattspyrna!

Til baka