BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Breiðablik á toppnum í Bestu deildinni - að sjálfsögðu

02.05.2022 image

Það var vorangan í lofti á Kópavogsvelli sunnudaginn 1. maí 2022 – á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins og stemningin eins og hún gerist best á knattspyrnu á Íslandi. „Hleragrillið“ heppnaðist vel og er komið til að vera,

Það er ekki oft sem yfir 2.000 manns mæta á deildaleik á Íslandi. Stúkan var þéttsetin og gamla stúkan líka.  Meira segja var setið í gömlu grasbrekkunni austanmegin – og minnti það á gamla dag. Breiðablik tók á móti FH, sigursælasta liði Íslands í knattspyrnu á þessari öld og eftirvænting var mikil.

Byrjunarliðið:

image

Liðsuppstillingin var sú sama og í fyrstu tveimur leikjunum.  Anton var í markinu, en hann átti einn sinn besta leik nokkru sinni gegn KR og var öryggið uppmálað í leiknum. Höskuldur var í hægri bakverðinum og Davíð vinstra megin.  Báðir þessir leikmenn eru nútímaútgáfan í nútíma fótbolta sem hafa það að leiðarljósi að sóknin er besta vörnin. Þeir hafa líka yfirburðatækni og það er ekki einfalt fyrir varnir andstæðinganna að verjast þegar þeir koma í „overlap“ og koma sem aukamenn í sóknir Blikanna.

image

Myndaveisla: BlikarTV / HVH

Davíð kom að öllum mörkum Blika í kvöld og er líka farinn að láta virkilega finna fyrir sér. Slapp með eitt gult spjald í kvöld – en það er ekkert annað en hraustleikamerki hvernig hann spilar. Það er ekki minnimáttarkenndinni fyrir að fara. Damir og Viktor Örn eru fantagott miðvarðarpar og ná gríðarlega vel saman við Oliver sem er í sínu besta formi í mörg ár fyrir framan þá og tekur alltaf réttar ákvarðanir. Gísli og Viktor eru heilinn í miðjuspilinu enda aldir upp á Vallargerðisvellinum frá frumbernsku með Höskuldi en allir þessir drengir banka nú á landsliðssæti.

image

Myndaveisla: BlikarTV / HVH

Kristinn Steindórsson heldur áfram að líða vel á Kópavogsvellinum og skoraði firnagott mark og alltaf hætta þar sem hann fer.Þetta mark hans var nr. 50 í efstu deild, og þeim árangri hefur enginn okkar fyrrverandi leikmanna Breiðabliks náð. Til hamingju með það, Kristinn. Sú endurnýjun lífdaga sem við erum að verða vitni að hjá honum og yljar okkur Blikum um hjartarætur. Sessunautur minn og minn gamli fyrirliði, Ólafur Björnsson sagði í tvígang og enginn átti að heyra:“ Hann Kristinn er svo góður í fótbolta“. Jason Daði er sennilega sá leikmaður á Íslandi sem vinnur best á þröngu svæði. 

Það var hinsvegar afmælisbarnið, Ísak Snær sem stal senunni í kvöld. Mörkin hans 2 voru stórkostleg – en ekki bara það. Hann spilar gríðarlega vel fyrir liðið og mjög alhliða leikmaður auk þess að vera núna markhæstur í Bestu deildinni – og mörkin eiga eftir að verða fleiri.  Það hlýtur að vera rós í hnappagat Óskars þjálfara hvernig hann leysti miðherjaáskorunina með brotthvarfi Thomasar Mikkelsen og Árna Vilhjálmssonar frá í fyrra.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um leikinn sem slíkan.  Blikarnir réðu ferðinni allan tímann en framan af vörðust FH vel með okkar fyrrum félaga í vörninni, Guðmund Kristjánsson. Stórkostlegt mark Ísaks kom okkur á bragðið í lok fyrri hálfleiks og í þeim síðari var bara eitt lið á vellinum.  Mörkin hefðu getað verið fleiri en þessi 2 sem komu.

Það var ólýsanlega gaman á sunnudagskvöldið þegar við fögnuðum leikmönnunum og hópnum öllum í fölskvalausri gleði.  Það er langt mót framundan og erfið verkefni – en við stuðningsmenn verðum til staðar fyrir drengina. Næst er það leikur á Akranesi gegn ÍA sem kemur vel undan vetri.  En ef við finnum taktinn líkt og gerðist gegn FH þá óttast maður ekki úrslitin. 

Þetta var 100. mótsleikur Viktors Karls Einarssonar.

image

Í vikunni átti pistlahöfundur leið í Smárann og hitti þar Höskuld Gunnlaugsson, fyrirliða Breiðabliks.  Höskuldur er fágætt dæmi um afburða knattspyrnumann sem sameinar hvorttveggja í senn. Yfirburðahæfni sem fótboltamaður og leiðtogi innan og utan vallar. „Við erum á góðum stað núna. Við erum að bæta okkur í hugarfarinu, andinn er sérlega góður og með góðum stuðningi getum við farið alla leið. En við vitum líka að fótboltinn er óútreiknanlegur“. Við ætlum að gera okkar besta“ sagði Höskuldur og sendir kveðjur til stuðningsmannanna og lesenda blikar.is.   

image

Pistlahöfundur er þessi til hægri á myndinni.

Kveðjurnar eru endurgoldnar ríkulega.  Það er spennandi sumar framundan.

Hákon Gunnarsson 

Umfjallanir annarra netmiðla.

Myndaveisla: BlikarTV / HVH

Mörkin úr leiknum í boði Visir.is:

Til baka