BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Bókin Íslensk knattspyrna 2020

11.12.2020 image

Íslensk knattspyrna 2020 eftir Víði Sigurðsson er komin í forsölu og er á leið í búðir innan skamms en þetta er í fertugasta skipti sem þessi árbók knattspyrnunnar á Íslandi kemur út. KSÍ hefur um langt árabil átt samstarf við útgefendur hennar um að í henni birtist úrslit allra leikja á Íslandsmóti og bikarkeppni á vegum sambandsins ár hvert.

Bókin er væntanleg í búðir á næstu dögum og þegar er hægt að kaupa hana í forsölunni á nýrri heimasíðu bókaflokksins, íslensk knattspyrna.is. Hún er á sérstöku tilboðsverði í forsölunni auk þess sem kaupandinn getur um leið og hann gengur frá greiðslu stofnað eigin aðgang að nýrri rafrænni útgáfu á bókaflokknum í heild sinni frá 1981 til 2019.

Bókin er 272 blaðsíður og skreytt 420 myndum af liðum og leikmönnum en fjallað er ýtarlega um Íslandsmótið í öllum deildum og flokkum, landsleiki, Evrópuleiki, bikarleiki, um atvinnumennina erlendis og fjölmargt annað sem tengist íslenskum fótbolta. Talsvert aukaefni er í bókinni í ár, enda árið óvenjulegt og fótboltinn líka. 

Við bendum ykkur Blikum á að í bók Víðis nú í ár er frábær umfjöllun um Litlu bikarkeppnina. Þetta var vormót í meistaraflokki karla sem spilað var á árunum 1961-1995 og Breiðablik tók fyrst þátt í árið 1965.

Það er merkileg saga á bak við þessa umfjöllun, sem okkar eini sanni Pétur Ómar Ágústsson tók saman og birtist í bók Víðis. Þannig var að Jón Ingi Ragnarsson heitinn var svolítið hissa á því eitt sinn þegar verið var að heiðra Breiðabliksfólk sem spilað hafði fleiri en 100 mótsleiki fyrir félagið að í hópnum væru óvenjulega fá af gömlu brýnunum. Þetta var hárrétt hjá Jóni Inga. Skrár eldri ára höfðu ýmist fyrirfarist í eldi eða vatnstjónum og vantaði hreinlega í skráninguna. Hann gekk sjálfur í að afla gagna, sem skilaði t.d.þessum árangri hér, og leitaði þá meðal annars til FH-ingsins Bergþórs Jónssonar. Sá hafði skráð öll úrslit öll ár Litlu bikarkeppninnar og nú fóru okkar menn, með þá Pétur Ómar og Helga Viðar ljósmyndara í broddi fylkingar, í það verk að koma þessu í excel-skrár og inn í gagnagrunna. Flétt var upp í gömlum blöðum til að finna markaskorara til að grunnurinn yrði sem þéttastur.

Þessi gögn, þ.e. sem snýr að Breiðabliki, eru nú öll komin inn í grunninn á Blikar.is en þessi umfjöllun um Litlu bikarkeppnina í Íslenskri knattspyrnu 2020 sýnir lokaniðurstöðu mótsins öll 35 árin frá 1961 til 1995.

Þessi myndin er tekin í leik gegn ÍA á Akranesi 25.04.1970. Á myndinni er miðvörðurinn okkar snjalli Einar Þórhallsson. Blikaliðið vann ekki Litla bikarinn það árið, frekar en önnur ár, en strákarnir unnu sig upp í 1.deild það ár í fyrsta sinn í sögu félagsins frá stofnun knattspyrnudeildar árið 1957.

image

Til baka