BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikum daprast flugið

18.05.2016

Stundum þegar maður er sleginn kaldur þá er maður smástund að jafna sig og það fyrsta sem manni dettur svo í hug að segja, sjálfum sér til varnar, og af því maður skammast sín dáldið, er að hinn hafi byrjað.  En það er engin afsökun því í slagsmálum er það einmitt lóðið. Að byrja á undan hinum, og eiga frumkvæðið. Eiga fyrsta höggið. Og þá er jafnframt lykilatriði að slá ekki sjálfan sig á kjaftinn.

Það var prýðilegt veður í Laugardalnum í kvöld, Hæg vestan og suðvestan átt með sólarglennum. HIti 6°C og raki 79%. Skyggni prýðilegt.

En snúum okkur að leiknum;

Byrjunarlið Blika;
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M)
Arnór Aðalsteinsson (F) - Damir Muminovic - Elfar Freyr Helgason - Alfons Sampsted  - Andri Rafn Yeoman - Oliver Sigurjónsson - Arnþór Ari Atlason - Daniel Bamberg - Guðmundur Atli Steinþórsson

Varamenn:
Aron Snær Friðriksson - Hlynur Örn Hlöðversson(M) - Ellert Hreinsson - Höskuldur Gunnlaugsson - Viktor Örn Margeirsson - Ágúst E. Hlynsson - Davíð Kristján Ólafsson

Sjúkralisti: Enginn
Leikbann: Enginn

Hér má sjá leiksýrsla og aðrar umfjallanir.

Blikar hófu leikinn af krafti og pressuðu heimamenn framarlega og voru með boltann meira og minna fyrstu 10 mínútur leiksins en náðum ekki að skapa hættu utan einu sinni er Arnór komst inn í teig en fyrirgjöf hans var bjargað í horn. En á næstu mínútu fóru gestirnir í sókn og fengu allan heimsins tíma á okkar vallarhelmingi og komu boltanum inn í teig þar sem sóknarmaður Þróttar fór vægast sagt illa með okkar menn og negldi svo af stuttu færi yfir Gunnleif sem kom engum vörnum við. Þarna þarf ekki að setja neitt spurningarmerki við varnarleik okkar. Þetta var ein and.....ns  hörmung alveg frá því boltinn kom inn á okkar vallarhelming. 0-1 fyrir heimamenn. Blikar voru gjörsamlega úti að aka þarna og reyndar næstu mínúturnar en náðu svo að rétta úr kútnum og fóru nú að þjarma að heimamönnum. Atli átti bylmingsskot  á mark sem var varið og Glenn náði frákastinu en skaut beint í markmannin. Þar fór gott færi forgörðum. Og svo komu nokkur hálffæri og horn og einu sinni björguðu heimamenn á línu.En þar með eru alvöru færin upp talin. Það sem helst bar til tíðinda auk þessa, rautt spjald á Arnór, var ekki til að bæta úr skák og það verður að setja spurningarmerki við frammistöðu fyrirliðans í kvöld. Hann var vægast sagt illa stemmdur að því er virtist og þó svo að hann virtist fá seinna gula spjaldið fyrir litlar sakir þá var hann að leika sér að eldinum og búinn að sleppa tvisvar. Maður með þessa reynslu á að vita betur. Að vísu má segja að það hafi verið lítið samræmi í dómgæslunni á köflum og manni fannst heimamenn sleppa vel í 2-3 skipti þegar þeir hefðu verðskuldað spjöld og Þorvaldur hefur átt betri dag, svo ekki sé meira sagt. En það var þó fyrst og fremst okkar klaufa- og aulagangur sem varð okkur að falli.

Blikar gerðu strax breytingu á liðinu og Arnþór Ari fór út  af og Davíð Kristján kom í vinstri bakvörð og Alfons flutti sig yfir í hægri bakvörð.

Staðan 0-1 í hálfleik og við manni færri. Ekki beinlínis gæfulegt.

Blikar í stúkunni ekki kátir í hálfleik og verulega pirraðir yfir þvi hvað okkar menn voru bitlausir og óklókir í sínum leik. Og markið !  Jedúdamía, hvað voru okkar menn að hugsa? PIRRRRR........

Jafnræði var með liðunum í upphafi seinni hálfleiks og liðin sóttu á víxl en fátt um færi em heimamenn með a.m.k. tvær ruddatæklingar og spjaldað fyrir aðra en ekki þá sem var ruddalegri. Þar hefði rautt alveg komið til greina enda fóturinn hátt á lofti. En það var ekki einu sinni gult? Skömmu síðar fór bolti greinilega í hendi varnarmanns Þróttar sem þar með stöðvaði fyrirgjöf Atla en dómarinn lét óátalið. Blikar gerðu enn breytingar þegar Atli vék fyrir Höskuldi. Atli búinn að vera þokkalega líflegur fram að þessu og með sprækari mönnum ásamt Andra. Eflaust taktísk skipting. Höskuldur kom með líf í sóknarleikinn og skapaði usla. Óragur við að ráðast á andstæðingana og reyna að skapa en samherjarnir ekki alltaf með á nótunum. Höskuldur á samt enn mikið inni til að ná sínu fyrra formi. En Jonathan Glenn vill sennilega gleyma þessum leik sem fyrst því honum var gjörsamlega fyrirmunað að skora. Næg fékk hann færin og hefði átt að gera 3 mörk hið minnsta.
Heimamenn reyndu að hægja á leiknum en áttu svo inn ámilli sín augnablik fram á við og fóru oft ótrúlega auðveldlega framhjá okkar mönnum og Gunnleifur þurfti að taka á honum stóra sínum þegar hann varði hörkuskot uppi í markhorninu. Svo gekk þetta sitt á hvað teiganna á milli. Ellert kom inn fyrir Alfons og Blikar freistuðu þess að jafna en það var mest tilvijunarkennt. Mest um slakar fyrirgjafir, háar og lausar,  og heimamenn í litlum vandræðum með að sópa þetta í burtu. Síðustu 10 mínúturnar náðum við engu almennilegu færi en gestirnir náðu hinsvegar einni skyndisókn og það dugði þeim til að skora annað mark þegar leikmaður þeirra nánast labbaði meðfram og framhjá varnarmönnum okkar og þrumaði svo boltanum frá vítateisglínu í bláhornið niðri. 0-2. Og partýið á enda fljótlega eftir það þegar Þorvaldur Árnason batt enda á þjáningar okkar með lokaflautinu.

Tap gegn Þrótti staðreynd og við höfum nú tapað fyrir báðum nýliðunum í deildinni. Það er umhugsunarefni og ætti að hringja einhverjum bjöllum. En þetta var skrýtinn leikur og mörg ,,ef“ og ,,hefði“ sem væri hægt að velta sér uppúr. En nú er að sleikja sárin og spá í hvað er til ráða fyrir leikmenn og þjálfara. Við hin getum líka velt hlutunum fyrir okkur. Undirritaður er t.d. ekki enn búinn að sjá hvað Daniel Bamberg hefur fram að færa. Hann þarf að fara að sýna margumtöluð en að mestu falin gæði. Og Davíð Kristján þarf að ákveða hvað hann ætlar að gera við sýna hæfileika. Ellert er ekki svipur hjá sjón og virðist engan veginn tilbúinn í slaginn þegar hann kemur inn á. Það er kannski ósanngjarnt að nefna einstaklinga þegar liðsheildin gerir á sig, en það ætla ég nú samt að gera og skora á menn að reka þetta ofan í mig sem fyrst. Gjörið svo vel.
Það sló allavega enginn í gegn í kvöld, svo mikið er víst og það er mörgum spurningum ósvarað eftir svona leik. En eitt er alveg ljóst, það vantar allt bit og grimmd og frekju í liðið, sérstaklega fram á við. Og þá meina ég liðið allt. Á því þarf að ráða  bót.
Strax.

Næsti leikur er á sunnudaginn gegn KR á Kópavogsvelli og hefst kl. 20:00.

Vér erum afar fúlir nú en mætum samt á sunnudaginn. Það jafnast fátt á við að vinna KR.

OWK

Til baka