BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar úti á túni

09.08.2016

14.umferð PEPSI deildarinnar lauk í kvöld. Blikar mættu grönnum sínum í Fossvogi og leikurinn fór fram í einmuna veðurblíðu að viðstöddum þó nokkuð mörgum áhorfendum, alls 1470  manns að sögn vallarþular. Og það var mikið í húfi fyrir okkar menn og engin mistök leyfileg í baráttunni við að hanga í toppliðunum. Arnór Aðalsteinsson mun hafa kennt sér meins í upphitun og kom Alfons inn í byrjunarliðið í hans stað og Kári kom inn í hópinn.

Byrjunarlið Blika:
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (MF)
Alfons Samsted - Damir Muminovic - Elfar Freyr Helgason - Davíð Kristján Ólafsson - Andri Rafn Yeoman - Oliver Sigurjónsson - Gísli Eyjólfsson - Arnþór Ari Atlason - Daniel Bamberg - Árni Vilhjálmsson
Varamenn:
Kári Ársælsson - Hlynur Örn Hlöðversson(M) - Jonathan R. Glenn - Atli Sigurjónsson - Viktor Örn Margeirsson - Willum Þór Willumsson - Höskuldur Gunnlaugsson.

Sjúkralisti: Guðmundur Atli Steinþórsson, Arnór Aðalsteinsson
Leikbann: Enginn

Það er með mikilli ólund að maður sest niður við að skrifa þennan pistil og þeir sem eru viðkvæmir fyrir gagnrýni á Blikaliðið ættu að hætta lestri hér og snúa sér að öðru. Stundum þarf að segja það sem í brjóstinu býr og hlutina eins og þeir blasa við. Af því okkur er ekki sama.

Leikurinn í kvöld byrjaði með talsverðu fjöri og það voru heimamenn sem voru ágengir við okkar mark á upphafsmínútunum og Blikum gekk ekkert að tengja saman sendingar eða ná upp spili. En eftir eina hornspyrnu Víkinga komust okkar menn í skyndisókn og hún var að dýrari gerðinni og lauk með frábæru marki Árna eftir góðan undirbúning Gisla og Arnþórs sem átti stoðsendinguna.  Þetta var eitt allra besta mark Blika í sumar. Einnar sendingar bolti frá eigin vítateig og menn geystust fram á 100 km hraða. Búmm og glæsilegt mark. Blikar komnir með forystuna. Blikar urðu að gera breytingu á liðinu fljótlega eftir markið þegar Elfar varð að yfirgefa völlinn og Viktor Örn kom inn í hans stað. En áfram héldu okkar menn og skömmu síðar var Alfons í góðu færi eftir aðra hraða sókn en hann náði ekki að troða boltanum í netið. Og enn komust Blikar í góða stöðu nokkrum mínútum síðar.  5 Blikar geystust í skyndisókn á mótu 2 varnarmönnum. Þetta var svona eins og hraðaupphlaup í handbolta, á að vera pottþétt mark, en okkar menn klúðruðu þessu með eindæmum slæmri ákvörðun. Í stað þess að leika áfram að markinu og teygja á þessum 2 varnarmönnum var reynd ótímabær sending og hún batt enda á þessa sókn. Hvað er að?  Gera menn ekki greinarmun á æfingu og leikjum? Með smá yfirvegun hefðum við getað náð 3-0 stöðu. Það hefði nánast verið „game over“.
Þetta reyndist dýrkeypt, og þeir sem héldu, og þeir voru reyndar nokkrir, að þetta væri upptaktur að einhverju meira frá okkar mönnum reyndust heldur betur á villigötum. Því það sem í hönd fór er einhver allra daprasta frammistaða okkar manna í manna minnum. Svo ekki sé nú meira sagt. Ef frá er talin ein sókn í lok hálfleiksins sem kom Gísla í ákjósanlegt færi sem hann náði því miður ekki að nýta. En í millitíðinni höfðu heimamenn jafnað, og það var eiginlega það sem áhorfendur í stúkunni töldu bara vera tímaspursmál. Látlaus pressa heimamanna  og áætlunarferið upp hægri vænginn, fjölmargar hornspyrnur og aulaleg og oft á tíðum kæruleysisleg spilamennska okkar stráka gat ekki endað öðruvísi. Því miður. Hart að segja það en þegar leið á hálfleikinn voru þeir hreinlega eins og börn í höndum andstæðinganna, sem unnu öll návígi, svo á jörðu sem á himnum, og hirtu alltaf bolta nr. 2 vegna þess að þeir voru á tánum og voru einfaldlega miklu, miklu grimmari. Okkar menn virtust bara ekki ná því.
Staðan í hálfleik því 1-1 og máttum við nokkuð vel við una í ljósi frammmistöðu liðsins, sérstaklega eftir því sem leið á hálfleikinn. Í hálfleik ríkti þögnin og þeir sem tjáðu sig voru hálf slegnir yfir deyfðinni í okkar mönnum, að ekki sé talað um feilsendingar út um allt. Og að klúðra 5 á móti 2, jesúsmaría og kúrdabella.
Maður átti jafnvel von á að það yrðu gerðar breytinga í leikhléi en það var ekki og Blikar stilltu upp óbreyttu liði.

Hafi fyrrir hálfleikur verið dapur tók steininn úr í þeim seinni og það er varla hægt að segja að það hafi verið lífsmark með Blikum. Víkingar réðu lögum og lofum og hentu okkur til og frá og spiluðu okkur sundur og saman. En lengi gekk nú ekki rófan hjá þeim og þeir náðu ekki að skapa sér verulega góð færi. Af sóknaraðgerðum okkar manna var alls ekkert að frétta. Ekkert spil, baráttan í lágmarki og eilíflega verið að redda hlutunum fyrir horn. Vandræðalegt. Og til að bæta gráu oná svart misstu Blikar mann af vellli þegar Damir fékk sitta annað gula spjald á 65. mínútu. Fyrra spjaldið kom á 62. mínútu svo þetta voru ekkert sérstakar 3 mínútur hjá okkar manni sem missti þarna hausinn í augnablik. Í kjöfarið gerðu Blikar tvöfalda skiptingu þegar Atli og Kári komu inn í stað Gísla og Bamberg. En rauða spjaldið breytti leiknum heldur betur því innan örfárra mínútna náðu gestirnir forystunni eftir snarpa sókn og tíu mínútum síðar kom 3ja markið eftir dæmalaust klúður og sofandahátt okkar manna. Blikar höfðu reyndar komist í tvær þokkalegar sóknir áður en 3ja markið kom, en það var nú allt og sumt sem við gerðum sóknarlega í síðari hálfleik.

Já þetta var dapurt i kvöld  og verðskuldað tap. 5 stig eru þar með runnin okkur úr greipum í síðustu 2 leikjum og menn geta leikið sér að því að bæta þeim við stigin okkar í töflunni eftir 14.umferðina. En það er ekki til neins, því ef leikmenn liðsins taka sig ekki verulega á núna þá verða stigin ekki mikið fleiri í deildinni. Það er á hreinu.
Leikmenn geta hvorki boðið sjálfum sér né öðrum upp á svona frammistöðu.

Næsti leikur okkar manna er gegn Þrótti næsta mánudag og hann hefst kl. 18:00 því nú er farið að dimma á kvöldin eins og glöggir áhorfendur hafa etv. tekið eftir.
Síðast þegar við lékum við Þrótt áttum vð allan leikinn en töpuðum 2-0. Ég vona að menn séu ekki búnir að gleyma því. Það svíður enn.

Áfram Breiðablik!
OWK.

Umfjallanir annarra netmiðla

Til baka