BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar til Portúgal

31.01.2022 image

Meistaraflokkur karla heldur á morgun til Portúgal til að taka þátt í sterku æfingamóti ,,Atlantic Cup 2022“. Andstæðingar okkar eru ekki af verri endanum.

Brentford frá Englandi, Mydtjylland og FC Köbenhavn frá Danmörku. Allt eru þetta sterk lið og verður gaman að sjá hvernig strákarnir okkar spjara sig á móti þessum sterku andstæðingum.

Fréttaritari blikar.is, Pétur Þórir Pétursson, verður á staðnum og sendir okkur fréttir heim.

Fyrsti leikur okkar er gegn Brentford á miðvikudaginn en eins og flestir vita spilar liðið í efstu deild á Englandi. En þetta er reyndar varaliðið þeirra en þeir hoppuðu inn á síðustu stundu þegar AIK frá Svíþjóð breytti sínum plönum vegna Covid reglna. 

En það sem er spennandi við Brentford er að Daninn frægi Christian Eriksen var að gera samning við enska liðið. Eins og flestir muna hné hann niður í fyrra í landsleik með Dönum. Hann hefur nú jafnað sig og hefur gert 6 mánaða samning við enska liðið. Áhugavert verður að sjá hvort forráðamenn liðsins mun tefla honum fram með varaliðinu til að koma honum í leikform á nýjan leik.

Á sunnudaginn spilum við síðan við dönsku meistarana í Mydtjylland og svo föstudaginn 11. mætum við FC Köbenhavn.  Önnur þáttökulið eru: FC Zenit frá Rússlandi, Halmstad frá Svíþjóð og Valerenga frá Noregi. Ekki verður spilað krossspil á milli riðlanna tveggja í lok mótsins heldur verður það lið sem er með flest stig og hugsanlega bestu markatöluna sigurvegari mótsins.

Sjá leikjaplan hér.

image

Óskar Hrafn þjálfari hefur látið hafa eftir sé að hann líti á þetta sem góða æfingu fyrir Evrópukeppnina í sumar.

-AP

image

Til baka